Flúði herstjórn með hjálp Íslendings: „Þetta var kunningi minn, ekki hægt að gera annað“

Árið 1981 kom pólskur maður að nafni Witold Bresinski á strendur Íslands. Það sama ár höfðu pólsk yfirvöld sett á herlög og beitt mikilli hörku gegn friðsælum mótmælum verkalýðsflokksins Solidarnosc. Hreyfingin var talin ógn gegn einræði kommúnistaflokksins og því var járni beitt gegn samstöðunni. Leiðtoginn Lech Wałęsa var fangelsaður og mikil óreiða ríkti.

Pólverjar vildu margir hverjir flýja ófriðarástandið en það var ekki svo auðvelt. Witold komst til Íslands með hjálp vélstjóra á Bakkafossi sem á þeim tíma hét Kristján Kristjánsson.

DV fjallaði um málið árið 1996 en þá hafði Witold reynt að finna félaga sinn aftur en hafði ekki erindi sem erfiði. Kristján var samkvæmt öllum skrám týndur.

Sú var ekki raunin, heldur var Kristján orðinn kona og var nefnd eftir það Anna Kristjánsdóttir.

EKKI BJÖRGUN HELDUR AÐSTOÐ

„Við getum sagt að þarna hafi verið gerður úlfaldi úr mýflugu,“ segir Anna í samtali við 24. Hún hafði kynnst Witold í kringum árið 1971 þegar hún sigldi reglulega með Bakkafossi til Gdansk, þar sem Witold var vaktmaður á höfninni.

Aðstæðurnar voru ekki alveg eins hetjulegar og sagt er frá hér, að sögn Önnu. / Mynd: Skjáskot af timarit.is

„Til þess að komast úr landi löglega þá þurftir þú að hafa boð,“ segir hún. „Witold hugnaðist að hafa samband við mig og ég skrifa bréf þar sem ég býð honum heimsókn. Hann fór með bréfið til yfirvalda og fékk útgefinn passa til að komast úr landi. Hann kemur svo til Íslands og var hér í nokkur ár.“

Anna segist ekki vilja kalla sig bjargvætt í þessum aðstæðum. „Það sem ég geri einfaldlega er að skrifa honum þetta boð og svo var hann heima hjá mér einhverjar vikur á meðan hann var að finna sér húsnæði. Þetta var kunningi minn þannig að það var ekki hægt annað.“

„Þetta var ekki björgun, þetta var aðstoð,“ bætir hún við.

MISSTU SAMBANDIÐ EN HITTUST MÖRGUM ÁRUM SÍÐAR

Witold fór aftur til Póllands árið 1989 þegar ástandið í landinu var að róast. Síðari hluti ársins fór í að endurreisa lýðveldið og afnema einræði kommúnistaflokksins. Árið eftir var Lech Wałęsa kjörinn forseti landsins.

Witold hafði meðal annars unnið í fiski á meðan hann bjó á Íslandi og hafði með sér gám af lýsi til Póllands. Hann hagnaðist mjög á lýsissölunni að sögn Önnu.

Í grein DV er sagt að Anna og Witold höfðu ekki enn náð sambandi. Það átti eftir að breytast. „Á þeim tíma höfðum við ekki hist frá því að hann fór aftur til Póllands árið 1989. Við hittumst síðar, stuttu eftir aldamótin. Það voru ljómandi góðir endurfundir.“

Þrátt fyrir að vera ekki endilega dæmi um hetjulega björgun þá er sagan stóráhugaverð, þá sérstaklega að þegar Witold reyndi eftir besta megni að finna kunningja sinn var hún týnd og tröllum gefin, eins og það er orðað í greininni. „Já ég var horfin,“ segir Anna og hlær. „Þegar hann er að leita að mér þarna á þessum tíma bjó ég í Svíþjóð og var hvergi á skrá sem Kristján.“

Ekki missa af...