Algjörlega óásættanlegt

„Það er fátt ömurlegra en að tilkynna hjartveikum sjúklingi að fresta þurfi aðgerðinni vegna plásskorts á gjörgæslu.

Undanfarið hafa frestanir þó frekar verið reglan en hitt. Þetta er algjörlega óásættanlegt fyrir sjúklinga sem vegna hjartasjúkdóms eiga erfitt við andlegu álagi sem fylgir því að verða vera frestað

– síst þegar það gerist á síðustu stundu.“

Svo mælir okkar þekktasti læknir á Facebook, Tómas Guðbjarnason eða lækna-Tómas eins og hann er líka oft kallaður. Tómas er einn af okkar færustu læknum og á samfélagsmiðlim tjáir hann sig um alvarlega stöðu á Landspítalanum. Þessi mikilvægu orð Tómasar fá því að heyrast í flokknum Fleygt á Facebook hjá okkur á 24. Við gefum Tómasi orðið:

„Við höfum því oft þurft að grípa til þess að gefa þessum sjúklingum róandi lyf til að slá á kvíða og reiði – sem ýtir jú undir einkenni frá hjarta. Allir sjá að þetta er óboðleg ástand sem verður að leysa.

Þetta snýst líka um fleiri sjúklingahópa, t.d. hefur einnig þurft að fresta aðgerðum á börnum. Síðan veldur þetta pirringi hjá starfsfólki og hamlar afköstum. Við erum þó alltaf að reyna að gera okkar besta og nú um helgina erum við að gera tvær hálfbráðar opnar hjartaaðgerðir.

Til þess að það gangi upp hafa margir starfsmenn komið inn úr helgarfríum sínum til að hjálpa til. Þetta höfum við gert alloft um helgar síðan Covid-faraldurinn byrjaði – en gengur engan veginn til lengdar.

„Þetta reddast“ aðferðafræðin er ekki góð langtíma lausn – enda er álagið á sérstaklega gjörgæslu- og skurðstofuhjúkrunarfræðingunum alveg út úr korti.

Við óbreytt ástand blasir við atgervisflótti sem getur tekið áratug að laga.

Vonandi tekur nýr heilbrigðisráðherra til hendinni – með fulltingi annarra ráðherra í ríkisstjórn.

Nú þarf LSH á vinum að halda – sjúklinganna og starfsfólks vegna.

Í húfi er þjóðarheill.“

Ekki missa af...