Fátækir og fatlaðir beittir efnahagslegu ofbeldi

Eftir Þuríði Hörpu Sigurðardóttur

Þá hef ég hlustað á stefnuræðu forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur og eldhúsdagsumræður í kjölfarið. Ég get verið sammála um að það sem ræðan innihélt varðandi fatlað fólk=öryrkja bar vissulega vitni um löngun til að bæta stöðu þess hóps og vonandi, vonandi verður það verkefni það fyrsta sem stjórnvöld einhenda sér í.

Sérlega gleðilegt var að sjá að það á að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á kjörtímabilinu, ég sakna þess þó að sjá það ekki tímasett. Um leið get ég tekið undir orð Ingu Sæland sem galt varhug við og sagði fátækt hvergi ávarpaða í nýjum stjórnarsáttmála. Hækkunin sem boðuð er fyrir öryrkja upp á 5.6% sé engin hækkun þegar upp er staðið og að þessi upphæð muni ekki bæta kjör fatlaðs fólks.

Ég get líka tekið undir orð Guðmundar Inga Kristinssonar sem sagði skerðingar taka það litla sem við bættist.

Það er verk að vinna, eftir áratuga sinnuleysi stjórnvalda sem valið hafa að snúa blindu auga í átt að málaflokki fatlaðs fólks, sinna engu um varnaðarorð né hvatningu heldur hafa hafa þegjandi og aðgerðarlaus látið efnahagslegt ofbeldi viðgangast og nært „fátækt“ á fötluðu fólki. Það eru gríðarstór verkefni framundan, að bæta hag og stöðu fatlaðs fólks. Samfélagið á að vera allra, jaðarsetning á ekki að líðast. Nýr félagsmálaráðherra og endurnýjuð stjórn vita hvert verkefnið er. Við lýstum eftir kjörkuðum þingmönnum til að takast á við verkefnið, það er þessarar ríkisstjórnar.

Við erum tilbúin.

Að lokum, hvet ég stjórnvöld til að greiða veglega eingreiðslu til öryrkja nú í desember og sýna strax í upphafi stjórnarsamstarfsins að þau meina það sem þau segja.

Höfundur er formaður Öryrkjabandalagsins

Ekki missa af...