Fær öndunaraðstoð á spítala en varar við bólusetningum

Sigurður Páll Sigurðsson, betur þekktur sem Siggi Palli, hefur að undanförnu mikið talað gegn sóttvarnarráðstöfunum á samfélagsmiðlum sínum og þá sérstaklega bólusetningum. Hann smitaðist af COVID-19 fyrir mánuði síðan og liggur nú inni á spítala í Rúmeníu. 24 náði tali af Sigurði og sagði hann heilsuna sína vera slæma.

„Ég er með viðkvæm lungu og vissi að þetta mundi lenda illa á mér ef ég fengi Covid,“ segir Sigurður. „Engar af mínum skoðunum hafa þó breyst,“ bætir hann við. „Þetta eru ennþá tilraunalyf sem er verið að prófa á fólki án ábyrgðar framleiðenda og selt með leynisamningum til ríkja.“

Vont að lenda í þessu

Sigurður er búinn að vera á spítala í átta daga en smitaðist fyrir um mánuði síðan. Telur hann líklegast að smitið sé rakið til brúðkaups sem hann sótti um miðjan september. Sigurður er ekki í öndunarvél en þarf öndunaraðstoð.

Hann segist hafa frekar viljað smitast á Íslandi. „Vandinn er að í Rúmeníu treystir fólk ekki heilbrigðiskerfinu, og þess vegna drógum við kærastan það mjög lengi, eða um tvær vikur, að koma mér á spítala. Orðið hér er að ef þú ferð á spítala með Covid, þá kemurðu ekkert aftur heim,“ heldur hann áfram. Hann lýsir aðstæðum á spítalanum sem einföldum og frumstæðum. „Stundum eru aðstæður ruglingslegar. Ég tala ekki orð í rúmensku og fæ engar upplýsingar. Hér er ég bara einn í einangrun með súrefni og alls konar efni í æð og veit ekkert!“

Samkvæmt Johns Hopkins háskólanum eru 1,4 milljón staðfest smit í Rúmeníu og 40.461 staðfest dauðsföll af völdum veirunnar. Í kringum 27,9 prósent landsins hefur verið bólusettur samkvæmt tölum frá Reuters.

Á Facebook-vegg Sigurðar má finna alls kyns myndbönd og fréttir um faraldurinn sem hann hefur deilt. Samkvæmt vinsælum samsæriskenningum er Ivermectin lyfið lausn við COVID vandanum en stóru lyfjafyrirtæki heims draga úr því. Sóttvarnaraðgerðir til að hefta útbreiðslu faraldursins hafa einungis leitt til frelsistakmarkana.

Svo eru það bólusetningar, en það verður líklegast þannig að óbólusettir munu ekki hafa jafn mikið ferða- og vinnufrelsi og bólusettir. Samkvæmt sumum er þetta einnig liður í samsæri stórra lyfjafyrirtækja, eða fleiri sérhagsmunahópa.

„Ég hef alltaf verið á því að bjóða (ekki neyða) öldruðum og áhættuhópum bólusetningu og vernda þau sérstaklega,“ segir hann til að lýsa afstöðu sinni. Hann ítrekar einnig að hver og einn velji sínar sóttvarnir og taki ábyrgð á eigin heilsu. Lífið á að vera að öðru leyti óbreytt. „Einhverjar takmarkanir eru auðvitað hægt að skoða, en í stóru myndinni held ég að við höfum valdið meiri skaða en ella.“

Ekki missa af...