Eyjólfur í Epal: „Þó fyrirtækið sé í hagnaði þýðir ekkert að henda þessu öllu í arð“

Eyjólfur Pálsson, oft kenndur við verslunina Epal, segist hafa ástríðu fyrir hönnun sem nær langt út fyrir hans eigi rekstur. Hann segir tíma kominn á að íslensk hönnun njóti sannmælis. Á dögunum stóð hann fyrir átaki með það að markmiði að vekja athygli á henni. „Átakinu var ætlað að gera fjölbreytileika íslenskrar hönnunar sýnilegan með auglýsingum á umhverfismiðlum um allt höfuðborgarsvæðið. Við birtum slíkar auglýsingar á mínútu fresti í heila viku,“ segir Eyjólfur og heldur áfram:

„Íslensk hönnun fær ekki alltaf þá athygli og virðingu sem hún verðskuldar og hef ég í gegnum tíðina reynt ýmsar leiðir til að koma henni betur á framfæri. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við öll, sem seljum, hönnum, framleiðum eða einfaldlega elskum íslenska hönnun, tökum höndum saman til að styðja við þessa mikilvægu iðngrein,“ segir Eyjólfur.

Því kemur hann ekki einn að verkefninu. Hann fékk Miðstöð hönnunar og arkitektúrs til liðs við sig og óskaði eftir að hún leggði til hugmyndir um fjölbreytta og fallega íslenska hönnun sem er nú þegar í sölu eða notkun.

„Úr varð ótrúlega fjölbreyttur flokkur hönnunargripa, um 60 talsins, sem varpað var upp á skjái um allt höfuðborgarsvæðið. Hlutirnir á skiltunum munu spanna allt frá flothettum og fötum yfir í gistivagna, húsgögn og tölvuleiki,“ segir Eyjólfur í samtali við 24. Hann bætir við að undirtektirnar hafi verið góðar.

„Herferðin gekk mjög vel. Ég held að þetta hafi haft mjög jákvæð áhrif allt saman,“ bætir hann við. „Opinberar byggingar eru stolt þjóðar og eiga að endurspegla þann faglega metnað sem við búum yfir, bæði hvað varðar listmuni og arkitektúr en ekki síður hönnunarvörur,“ segir Eyjólfur sem bætir við að lokum að að brýn þörf sé á innkaupastefnu gagnvart íslenskri hönnun og framleiðslu.

Eyjólfur kveðst vera stoltur af rekstri sínum og segir Epal ganga mjög vel, þó velgengni í viðskiptum sé aldrei sjálfsagður hlutur og beri slíkt að geta. „Þó fyrirtækið sé í hagnaði þýðir ekkert að henda þessu öllu í arð. Þetta kostar allt saman að halda þessu gangandi,“ segir Eyjólfur og undirstrikar að hann er afar þakklátur með bæði reksturinn og teymið sem stendur þar við.

Kjartan Páll, sonur Eyjólfs, hefur tekið við sem framkvæmdastjóri en Eyjólfur er þó hvergi nærri sestur í helgan stein. „Strákurinn skilur þetta og sinnir þessu mjög vel, þannig að það þarf ekki að horfa yfir öxlina á honum lengur. Ég fæ í staðinn að sinna skemmtilegu verkefnunum, segir Eyjólfur.

Stór ákvörðun


Eyjólfur lærði húsgagnasmíði hér heima en hélt svo utan til Danmerkur þar sem hann lærði húsgagnahönnun. Þaðan kemur þessi sterka tenging Epal við danska hönnun. Eyjólfur var 29 ára gamall þegar hann opnaði Epal og var fjármagn af skornum skammti. „Ég átti engan pening. Í fyrstu var það þannig að ég þurfti að nota launin mín sem ég fékk sem innanhússarkitekt til þess að leysa vöruna út. Fólk borgaði mér fyrir vöruna sem það hafði pantað og þá fékk ég útborgað. Þannig byrjaði Epal.“

Eyjólfur segir Epal ávallt hafa gert íslenskri hönnun hátt undir höfði. „Það hefur alltaf verið eitthvað af íslenskri hönnun hjá okkur. Eftir fyrstu þrjú til fjögur árin fórum við að leggja upp úr því að vera með íslenska hönnun og höfum gert síðan. Við erum alltaf vakandi fyrir íslenskri hönnun sem verið er að framleiða erlendis og reynum þá að ná henni. Svo lengi sem hún uppfyllir kröfur okkar um gæði.

Þrátt fyrir að vera lærður húsgagnasmiður tók Eyjólfur snemma þá ákvörðun að leggja þá iðn á hilluna. Hann segir það lítið kitla sig að fara að smíða og hanna aftur. „Ég tók þá ákvörðun fljótlega. Ég vildi að það væru fagmenn að vinna í Epal til þess að halda gæðunum í hámarki og ég hef notað þekkingu mína og menntun í það.

Okkar markmið og stefna hefur alltaf verið að halda hönnun og gæðum í fyrirrúmi og við höfum aldrei vikið frá því. Það er mun meiri áhugi hjá mér fyrir því að hjálpa ungu og hæfileikaríku fólki við að koma sér á framfæri heldur en að smíða sjálfur.“

Ekki missa af...