Er fréttastofan hrædd um að fjalla um þetta?

Gunnar Smári Egilsson skrifar:

Stundum er umfjöllun eiginlega verri en engin. Ég hef oft gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að hafa ekki sinnt að neinu leyti einni af stórsögum eftirhrunsáranna; hvernig leigumarkaðurinn stækkaði og versnaði og hvernig húsnæðisstefna stjórnvalda sprengdi upp fasteignaverð svo stórir hópar eru útilokaðir frá eignamarkaði og stór hópur einnig frá leigumarkaði.

Undanfarin kvöld hefur fréttastofa Ríkissjónvarpsins verið með eitthvað sem kalla mætti þykjustuskýringu um húsnæðismarkað og lóðaframboð. Fréttamaðurinn hefur samband við sveitarstjórnir og óskar eftir upplýsingum um lóðaframboð og les svo þessar frumheimildir upp án þess að setja þær í nokkurt samhengi, án þess að tengja þær húsnæðisstefnunni, leigumarkaðnum eða nokkru. Eftir situr áhorfandinn engu nær, sumir láta kannski blekkjast og halda að þeir hafi verið að hlusta á skýringu en flestir átta sig ekki alveg á á hvað þeir voru að hlusta.

Ræður fréttastofa Ríkisútvarpsins ekki við að fjalla um húsnæðiskerfið og leigumarkaðinn? Er það vegna þess að lítill hluti þjóðarinnar græðir ógeðslega á að níðast á stórum hluta landsmanna? Er fréttastofan hrædd um að fara inn á slíkt svæði, þar sem óréttlætið kemur í ljós og einnig að stjórnvöld blessa þetta ástand og styðja? Eða er bara engin fagleg forysta á Ríkisútvarpinu og enginn metnaður þegar Helgi Seljan er í fríi.

Upplestur upp úr tölvupósti frá opinberum aðilum verður ekki fréttaskýring þótt lesari stilli sér upp út í móa.

Höfundur er formaður Sósíalistaflokksins

Ekki missa af...