Er ekki bara best að leysa allt upp í tómt rugl og stefnuleysi?

Willum Þór og Ásmundur Einar vildu ekki fara eftir tillögum sóttvarnarlæknis fyrir jól, sem gengu út á strangari samkomutakmarkanir og frestun skólasetningar fram yfir bólusetningu barna.

Willum veitti undanþágur sem tóku bitið úr samkomutakmörkunum og Ásmundur vildi ekki fresta skólasetningu. Og saman hafa þeir svo dregið lappirnar varðandi bólusetningu barna, svo óvíst er um hvar og hvernig þær fara fram.

Ef viljinn var að skólar byrjuðu 4. janúar hefðu þeir félagar getað spítt í lófana og flýtt bólusetningunni. En þeir gerðu akkúrat öfugt; drógu lappirnar. Afrakstur af þessu tvennu er að smitum fjölgar enn þrátt fyrir samkomutakmarkanir og fyrirséð er að þeim muni enn fjölga á næstu dögum í kjölfar skólasetningar.

Willum Þór og Ásmundur Einar Daðason

Úr þessu klúðri reyna þeir félagar svo að búa til stefnu um að markmiðið sé að omíkron fái að vaða um samfélagið í von um að það gefi okkur hjarðónæmi án þess að valda of miklum veikindum eða dauða. En ef það væri stefnan hefði verið óþarft að herða samkomutakmarkanir fyrir jól.

Það sem fylgir þessum Framsóknarmönnum er að orð og gerðir fara ekki saman. Það hefur orðið til stefna sem ekki má orða og það sem er sagt er marklaust og ekki gert ráð fyrir að fólk trúi orði af því.

Þetta er líklega við það sem átt var við þegar spurt var hvort ekki væri bara best að kjósa Framsókn.

Er ekki bara best að leysa allt upp í tómt rugl og stefnuleysi?

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands

Ekki missa af...