En er allt betra í dag en áður?

Brynjar Níelsson skrifar:

Við Soffía frænka erum ákaflega ólík og nánast aldrei sammála um nokkurn skapaðan hlut. Eitt erum við þó sammála um en það er að halda ekki gæludýr. Frekar tækjum við börn í fóstur, sem geta þó verið óttaleg óargadýr. Okkur þykir samt vænt um hunda og ketti og ekki síst fuglana. Og

Þótt ég sé ekki nema rétt miðaldra maður man ég tímana tvenna. Man þegar skömmtunarmiðar voru enn við lýði og fullfrískt fólk stóð í biðröðum við höfnina í von um vinnu þann daginn. Ríki og sveitarfélög voru allt um lykjandi í atvinnulífinu, allt frá viðtækjaverslunum í stærstu útgerðir. Verðbólga var viðvarandi og náði upp í 130% þegar ég var i háskóla. Elli- og örorkulífeyrir og atvinnuleysisbætur gáfu ekki mikið í aðra hönd. Lífsbaráttan var talsvert erfiðari þá en nú þótt draga megi allt aðra ályktun við lestur miðla í dag.

En er allt betra í dag en áður? Nú eru allir að kikna undan hvers kyns álagi með tilheyrandi kulnun, kvíða og depurð. Ég minnist ekki að þessi vandamál hafi verið áberandi þegar vinnudagurinn var miklu lengri og öll aukavinna vel þegin. Og þótt heimsendaspár vísindamanna væru vel þekktar á árum áður fór hvorki almenningur né stjórnmálamenn á taugum eins á núna.

Við lifum á sérkennilegum tímum og ég upplifi að við höfum lítið sem ekkert lært af reynslu fyrri kynslóða. Margir trúa því að gamaldags stéttabarátta í anda Marx og Leníns munu bæta kjör launafólks. Stjórnmálamenn frá öllum heimshornum mæta á ráðstefnu til að semja sín á milli um að hitastig jarðarinnar hækki ekki umfram 1.5 gráðu frá upphafi iðnbyltingarinnar fyrir 270 árum, þegar enn var ísöld og hallæri og kuldi nánast þurrkuðu þjóðina út. Hvað halda stjórnmálamenn eiginlega að þeir séu? Væri líklegra til árangur að þetta fólk semdi við almættið í gegnum andaglas um hitastig jarðarinnar. Svo til að kóróna alla vitleysuna vill fólk, sem telur sig vera í mannréttindabaráttu, færa réttarfarið til tímans fyrir iðnbyltinguna þar sem ásökunin ein dugði til sakfellingar.

Eftir // Brynjar Níelsson – Höfundur er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður

Ekki missa af...