Ekki nægur tími til að kynna sér fjárlagafrumvarpið

„Þegar ég greiði at­kvæði um fjár­lög verð ég a.m.k. að vita um hvað ég er að greiða at­kvæði,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar ræðir hann fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, en fyrsta umræða átti sér stað annan og þriðja desember síðastliðinn. Fjárlaganefnd ræðir málið í dag.

„Þjóðin á að vita um hvað er verið að greiða at­kvæði,“ skrifar Björn Leví áfram. Hann dregur það í efa að hægt sé að komast að því til hlítar á tæpum mánuði. „Að feng­inni reynslu er svarið nei. Það er ekki hægt. Samt set­ur meiri­hlut­inn sér þau mark­mið að önn­ur umræða fjár­laga hefj­ist 21. des­em­ber og af­greiðslu verði lokið milli jóla og ný­árs. Það á nefni­lega frek­ar að klára að af­greiða málið en að kom­ast að því í hvað skatt­arn­ir eru að fara.“

HVAÐ Á ÞETTA AÐ KOSTA? ÞAÐ STENDUR EKKI.

Fjárlagafrumvarp ársins er lagt fram tveimur mánuðum eftir að reglulegt Alþingi á að koma saman. „Ekki jafn seint og árið 2016 og 2017 að vísu en að fenginni reynslu ætti ekki að endurtaka þá bilun,“ segir Björn.

Hann tekur dæmi úr fjárlögunum sem fjallar um fjölþætt úrræði fyrir sjúklinga utan sérgreinasjúkrahúsa. „Hvað á þetta að kosta? Það stendur ekki. Hvaða árangri á að ná með þessari aðgerð? Það stendur ekki. Er hægt að ná sama árangri með öðrum aðgerðum? Ekki hugmynd. Myndi meira fjármagn skila betri árangri til lengri tíma? Enginn veit.“

Hann tekur annað dæmi sem er Bættur búnaður lögreglu: varnar- og öryggisbúnaður vegna hryðjuverkavarna og stórfelldra öryggisbrota. Hann segir það hljóma nauðsynlegt en spyr hvort um sé að ræða aukna vopnvæðingu lögreglunnar. „Eigum við að samþykkja fjárheimildir í það? Ég hef engan áhuga á því a.m.k.“

Hann segir það staðreynd að þingmenn geta ekki kynnt sér fjárlagafrumvarp nægilega vel til að réttlæta innheimtu um þúsund milljarða króna. „En það lítur út fyrir að meirihlutinn ætli bara samt að gera það. Alveg eins og meirihlutinn staðfesti gildi kosninganna án þess að vita í raun hvort niðurstöðurnar voru réttar eða ekki. Þau bara héldu að niðurstöðurnar væru í lagi. Er það í alvörunni nóg?“

Ekki missa af...