„Egóið þarf að vera skilið eftir hinum megin á hnettinum“

Það er í nógu að snúast þessa dagana hjá Aldísi Amah Hamilton, leikkonu og handritshöfundi með meiru. Nýverið kláraði hún tökur á sjónvarpsseríunni Svartir Sandar. Þar leikur hún aðalhlutverkið og er ein handritshöfunda.

Ekki nóg með það þá leikur hún aðalhlutverkið í íslenska tölvuleiknum Echoes of the End. Þar er notast við hreyfiföngunartækni (e. motion capture), en íslenskir tölvuleikir hafa ekki notast við slíkt, eins og er orðin venja úti í löndum. Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Myrkur Games framleiðir leikinn, en þar var fyrsta hreyfiföngunarstúdíó landsins byggt.

Aldís ræddi tölvuleikinn og margt fleira í viðtali við Tölvuleikjaspjallið í vikunni.


BARA EF ÉG GÆTI PRUFAÐ FYRIR ALLT HEILA KLABBIÐ

Aldís leikur karakterin Ryn í leiknum / Mynd: Myrkur Games

Aldís ræddi við hlaðvarpið Tölvuleikjaspjallið um leik sinn í Echoes of the End. Aldís fékk aðalhlutverkið á óhefðbundinn hátt.

„Ég kynntist Daða (aðal handritshöfundi á leiknum) við gerð á kvikmynd sem er ekki komin út. Tveim mánuðum eftir það, eða eitthvað, þá hefur hann samband við mig á Facebook. Hann var þá að vinna hjá Myrkur Games og þau voru að skrifa handritið að leiknum.“

Hún segir þá hjá Myrkur hafa litist vel á útlit hennar og vildu fá hana í prufu fyrir útlit aðalkaraktersins. Einhver annar myndi sjá um rödd og hreyfingar. Hún hafði það á tilfinningunni að þeir héldu að hún myndi ekki hafa mikinn áhuga á að taka meiri þátt.

„Ég sagði bara að ég væri meira en til í að koma, en bara ef ég gæti prufað fyrir allt heila klabbið, rödd og hreyfingar. Fer upp á skrifstofu og hitti þá alla og við áttum mjög gott spjall. Ég hafði mig alveg mjög mikið til, vildi sýna þeim að ég gæti alveg verið aðalhetja.“

Hún lýsir prufunni og öllum samskiptum sem match made in heaven. Stuttu eftir það vildu þeir fá hana í aðalhlutverkið með öllu tilheyrandi.


MUNUR Á AÐ LEIKA Í TÖLVULEIK OG MYND

„Það er rosa margt öðruvísi, kom mér eiginlega á óvart,“ segir Aldís um muninn á að leika í tölvuleik og kvikmynd. „Eitt sem við höfum rekið okkur á er að það er ekki bara hvernig ég undirbý mig, heldur þarf allt teymið að undirbúa sig. Það er ekki þannig að ég og leikstjórinn getum bara einhvern veginn átt í einhverju samtali um hvað gæti litið vel út.“

Útlit leiksins er allt forritað sem þýðir að það þarf mikinn fyrirvara ef einhver er með pælingar sem gætu breytt aðstæðum. Umhverfi leiksins og hreyfingar persóna eru á meðal þess sem þarf að stemma í gegnum allan leikinn. „Þetta er svo sturluð undirbúningsvinna.“

Að öðru leyti undirbýr Aldís sig fyrir tökur eins og í kvikmynd eða sjónvarpsþætti. „Mér finnst mitt hlutverk er mjög mikið bara að vera í góðu formi sem kemur á óvart, þannig séð. En þetta er líkamlega mjög erfitt, ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Þetta er náttúrulega ofurhetjuleikur þannig að maður þarf að gera alls konar hluti.“

Erfiðari hlutirnir eins og flókin bardagaatriði eru í höndum fagfólks. Aldís þurfti þó sjálf að læra að beita sverði. „Gerði mér enga grein fyrir því hvað þetta er mikil líkamleg vinna.“


SVO ERT ÞÚ KLÆDD Í EINHVERN BÚNING

Það er margt ólíkt við að leika í kvikmynd eða tölvuleik / Mynd: Aldís Pálsdóttir

Helsti munurinn á hefðbundnu leiknu efni og tölvuleik er að í hinu fyrra er leiksvið og aðrir leikarar sem gera senuna saman. Í tölvuleik þar sem notast er við hreyfiföngun er það ekki svo.

„Það sem er náttúrulega ekki svipað er að það er ekkert í kringum þig sem er raunverulegt. Þú ert bara í rými sem er með eggjabökkum út um allt til að hljóðeinangra. Svo ert þú klædd í einhvern búning sem er alveg einstaklega ljótur og ekkert sérstaklega þægilegur með svona höfuðhjálm sem er með myndavél framan á.“

Aldís lýsir því að venjulegir hlutir eins og að leika það að fá sér sopa flækist út af höfuðmyndavélinni. Hendin þarf að vera í fimmtíu sentímetra fjarlægð frá andlitinu þar sem það má ekki blokka myndavélina.

Forritarar gera útlit og umhverfi eftir á sem þýðir að Þar sem forritarar þurfa að vinna helstu vinnuna í að láta leikinn líta vel út þá liggur það í höndum leikarans að nota ímyndunaraflið.

„Ég hélt að þetta væri bara þvílíkt frelsi, en ef eitthvað þá er þetta bara kjarninn á því að vera leikari. Guð minn góður, egóið þarf bara að vera skilið eftir einhvers staðar hinum megin á hnettinum, þú ert svo asnalegur þegar þú ert að þessu. Síðan er þetta svo geðveikt þegar maður sér þetta á skjánnum.“


ALLT Í EINU ER TÖLVAN HÆTT AÐ SKYNJA MIG

Það er ekki bara manns eigin undirbúningur sem flækist við gerð á tölvuleik. Samspil leikara er allt annað samkvæmt Aldísi.

„Allt frá því að maður lendir í einhverjum átökum og markerar fara að detta af mér yfir á hann. Allt í einu er tölvan hætt að skynja mig og fattar ekki af hverju fóturinn minn er hér.“

Höfuðmyndavélarnar valda einnig flækjustigi. Ef sena í leiknum er þannig að andlit leikaranna eiga að vera nálægt hvert öðru þá þurfa leikararnir samt að vera í meters fjarlægð.

„Það er mjög fyndið. Svo er ekkert í kringum þig og þú þarft kannski að leika varðeld, þá þarf að passa sig að labba í kringum eitthvað sem er ekki, einhverja peysu á gólfinu eða eitthvað.“

mynd úr stúdíói myrkur
Aldís Amah Hamilton og Karl Ágúst Úlfarsson leika aðalhlutverkin / Mynd: Myrkur Games

Að öðru leyti er leikferlið eins og í kvikmynd eða þætti. Það sem þarf að passa er að vera innan rammans, því eins og minnst var á áðan er ekki mikið pláss fyrir spunaspil.

Mótleikari Aldísar í leiknum er Karl Ágúst Úlfarsson. Hún hefur ekkert nema góða hluti að segjau m samstarfið.

„Æði. Kalli er æði. Ég er alin upp á að horfa á hann í Spaugstofunni og á sviði og svona. Núna er maður að leika með honum í þessu. Mér finnst svo æðislegt að vera með hann í tölvuleikjaleik. Hann er algjör brautryðjandi sinnar kynslóðar í þessu og við erum heilt yfir brautryðjendur á Íslandi. Þannig að það er ótrúlega gaman að vinna með honum.“


MEÐVITUÐ ÁKVÖRÐUN UM AÐ HAFA RAUNVERULEGAN LÍKAMSVÖXT

En ætlarðu að spila leikinn þegar hann kemur út?

„Ég get í alvörunni ekki svarað þessu. Ég hugsa það alveg, að maður muni gera það. Ég er orðin mikið vanari því að horfa á sjálfa mig. Svo finnst mér maður alveg sýndur í sínu besta ljósi í tölvuleik. Það er hægt að laga allt. Ekki það að það er mjög lítið breytt, við tókum mjög meðvitaða ákvörðun að hafa bara realískan líkamsvöxt. Svolítið eins og Lara Croft var byrjuð að gera. Þó að hún sé í svakalega flottum hlutföllum þá var þetta komið út fyrir öll velsæmdarmörk hér á árum áður. Okkur langar rosa mikið að halda þeim bolta á lofti.“

Leikurinn er enn í framleiðslu og óvíst hvenær hann kemur út. Íslenskir tölvuleikjaaðdáendur fylgjast með þessu verkefni Myrkur Games og hlakka til að fá að loksins spila.

Þáttinn má nálgast í heild sinni hér að neðan.

Ekki missa af...