Ég skammast mín ekki neitt

Nei, ekki misskilja mig. Ég er ekki búin að baka átján smákökusortir né þrífa hátt og lágt og skreyta jólatréð. En ég er samt búin að gera heilmikið, þá helst það að ég er búin að setja upp þrettán neyðarjólasveina og nú bíð ég þess að þrír til viðbótar komi frá Íslandi og bætist í hópinn.

Ég er sömuleiðis búin að sækja jólatréð inn í skáp og setja það fram í stofu, en set það ekki í samband fyrr en ég verð búin að fá mér betri framlengingarsnúru sem verður væntanlega í dag og þá er ég búin að kaupa flestar jólagjafirnar. Á samt eftir að kaupa tvær eða þrjár en ég hlýt að finna einhver ráð með þær gjafir.

Það er til nóg af grænum baunum inni í skáp og úrvalskartöflum fyrir uppstúfinn en hangikjétið og hamborgarhryggurinn mæta væntanlega um leið og neyðarjólasveinarnir. Kartöflurnar eru sagðar vera glutenfríar, en ég trúi því svona sæmilega. Ég ætla svo að sleppa kæstu skötunni þetta árið og fæ mér ýsusporð á Þorlák í staðinn

Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá stendur ekki til að afþakka jóla og afmælisgjafir í þetta sinn, enda alltaf gaman að fá gjafir.

Það er búið að skreyta gamla bæinn og það var kominn snjór í fjallið. Veit hinsvegar ekki hvort hann sé farinn aftur, en það er ennþá fólksbílafært á sumardekkjunum upp í kannski 2200 metra hæð, en gæti orðið erfitt næstu 1500 metrana þar fyrir ofan, enda enginn vegur upp á toppinn fyrir hana Mjallhvít mína. En gamli bærinn er yndislegur á kvöldin þessa dagana.

Skammast mín ekkert

Ég sé að sumt fólk misskilur enn pistlana mína frá Paradís. Í gær birti ég pistil um vonda veðrið á Íslandi í samanburði við góða veðrið á Tenerife. Mannlíf sá ástæðu til að endurbirta pistilinn undir heitinu:

„Anna hraunar yfir föðurlandið“.

Vegna þessa vil ég áminna um eftirfarandi:

Pistlarnir mínir á Facebook eru ekki tjáning um sannleikann. Ég tel mig hafa fulla heimild til að tjá mig á þann hátt að hið broslega gangi fyrir sannleikanum. Eins og ég hefi margsinnis tekið fram eiga pistlarnir mínir aldrei að gjalda fyrir sannleikann. Þrátt fyrir það sáu einhverjir ástæðu til að kvarta yfir pistlinum, en það er þeirra vandamál. Ég mun halda áfram að tjá mig á sama hátt og áður og þá gjarnan með lygina að vopni.

Og ég skammast mín ekki neitt enda veðrið oftast vont á Íslandi.

Sannleiksástin verður aldrei mín ástríða öfugt við Þórberg Þórðarson heitinn, en um hann var sagt er hann hóf ritun ævisögu Árna Þórarinssonar prófasts:

„Það verður góð bók þegar lýgnasti maður landsins segir frá, en sá trúgjarnasti færir í letur.“

Ég elska ykkur samt.

Anna Kristjánsdóttir er búsett á Tenerife

Ekki missa af...