Ég er óþekkjanleg eftir aðgerðina

Anna Kristjánsdóttir skrifar:

Dagur 828 – Aðgerðin.

Loksins var munnholsaðgerðin framkvæmd á mér og þeim tókst að skera óþægindin í burtu, reyndar með látum því ósjálfráðu viðbrögðin voru auðvitað að hafna slíku inngripi í talandann á mér, en svo bættu þau gráu ofan á svart með því að skipa mér að þegja í marga klukkutíma og gæta þess að vera allan tímann með samanbitna kjálka svo að sáraumbúðirnar í munninum á mér héldust á sínum stað þar til hætti að blæða. Hið jákvæða er samt það að ég þarf bara að vera á fljótandi fæði í tvo daga og það var ekkert bann við alkóhóli (er ekki heilmikil næring í bjór?) þannig að ég kemst út á meðal fólks á laugardag ef almættið lofar.

Flykkið sem var fjarlægt var svo flutt beint á rannsóknarstofu svo hægt væri að búa til ný klón af mér. Vonandi var það nógu stórt til að hægt sé að búa til tíu klón af mér eða meira.

Það var hræðilegt að þurfa að þegja í marga klukkutíma. Ég gat ekki logið neinu á meðan og ekki bætti úr þegar deyfingin fór úr mér og ég vorkenndi mér allt kvöldið og í alla nótt, stokkbólgin, sársvöng og skjálfandi úr kulda, enda ekki nema 17°C hiti úti.

Í morgun vaknaði ég og ófær um að ljúga nokkru að lesöndum mínum svo þið verðið bara að sætta ykkur við sannleikann í þetta sinn. En við sjáum fram á betri daga og ekki verður verra að vita af tíu Önnum sem allar verða alveg eins og ég auk mín í framtíðinni og allar munu ljúga að þjóðinni eins og að enginn væri morgundagurinn.

Meðfylgjandi mynd er af mér ef þið skylduð ekki þekkja mig aftur og var hún tekin eftir morgunbaðið í morgun.

Eftir Önnu Kristjánsdóttur þjóðfélagsrýni

Ekki missa af...