Ég á ekki að vera dómari í eigin sök

Sigmar Guðmundsson skrifar:

Það var skrítið að taka þátt í þingstörfum í gær. Fyrsti þingfundurinn að frátaldri þingsetningu, fyrsta ræðan og drengskaparheit undirritað. Fyrir okkur lá að taka afstöðu til þess hvort kjörbréf alþingismanna væru gild. Venjulega er það frekar hefðbundið en í ljósi klúðursins í Borgarnesi var þetta sérlega vandasamt eins og allir vita.

Mín afstaða í þessu er alveg skýr. Þingið á ekki að vera með þetta vald. Þannig er það samt í stjórnarskrá og því komumst við ekkert undan þessu verki.

Vill ekki valdið

Verulegur vafi lék á því hvort samþykkja ætti kjörbréf 16 þingmanna (þingmenn í NV og jöfnunarmenn). Ég er einn þessara 16 þingmanna. Nokkrar kærur höfðu borist kjörbréfanefnd og lögreglu vegna þessa, yfirvofandi eru kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu og fyrir lá líka eldri dómur MDE um að óheppilegt sé að þjóðþing ríkja úrskurði sjálf um gildi kosninga.

Við þessar aðstæður finnst mér augljóst að ég er ekki í neinni stöðu til að ákveða sjálfur hvort ég sé löglega kjörinn. Ég er andvígur því að ég eigi að hafa þetta vald yfirhöfuð og þegar við bætist að vafi leikur á því hvort mitt kjörbréf sé gilt, verð ég að eftirláta öðrum að skera úr um.

Ég á ekki að vera dómari í eigin sök.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar

Ekki missa af...