Sárara en orð fá lýst

Jón Óðinn Waage skrifar:

Ég var þjálfari hjá ungmennafélaginu Samherja í Eyjafjarðarsveit. Eitt af því sem ég gerði þar var að sækja krakka á leikskólann þar í Eyjafjarðarsveit, fara með þau á æfingu á íþróttavöllinn eða í íþróttahúsið og skila þeim svo aftur á leikskólann. Sá árgangur sem ég var lengst með var 2004 árgangurinn. Ég byrjaði með þau þegar þau voru 4 ára og var með þau í fimm ár.

Þetta var magnaður tími, frábærir krakkar.

Í þessum hópi var einn drengur. Hann var í upphafi ekki áhugasamur um fótbolta. Hann stóð mest og virti umhverfið fyrir sér og var í sínum eigin hugleiðingum. Oft fór allur skarinn fram hjá honum með boltann án þess að hann tæki eftir því. En stundum staðnæmdist boltinn við fætur hans. Þá var eins og kviknaði á honum og hann tók á sprett með boltann. Og sá gat heldur betur hlaupið.

Það gat enginn náð honum þegar að hann tók á sprett. Það var allt í lagi þegar við vorum í íþróttahúsinu en mun verra þegar við vorum utanhúss. Hann hljóð nefnilega bara þangað sem honum sýndist hverju sinni, mörk og hliðarlínur breyttu engu fyrir hann. Það var eiginlega bara girðingin í kringum íþróttasvæðið sem að stoppaði hann.

Hann var örvfættur og þegar að við æfðum skot þá dúndraði hann fastar en allir aðrir. Ég sagði við alla sem sáu að þessi strákur ætti eftir að verða frábær í fótbolta, með þennan hraða og vinstri fót. Næstu árin var hann duglegur að mæta á æfingar en hafði samt alltaf meiri áhuga á umhverfinu en fótboltanum.

Sprettina tók hann áfram þegar boltinn hafnaði hjá honum og hann lærði að halda sig innan vallar. Honum var hinsvegar nokkuð sama á hvort markið hann spilaði. Þegar hann var á yngra ári í sjöunda flokki byrjaði hann einu sinni seinni hálfleikinn á því að spretta upp völlinn og hamra boltanum í netið. Það var að vísu í eigið mark, við áttum engan séns á að stoppa hann, hraðinn var slíkur. En andinn í þessu félagi var þannig að svona atvik voru ekki tekin alvarlega, skammir tíðkuðust ekki, þetta þótti bara fyndið, við hældum honum fyrir flott mark og hann hló jafn mikið og hinir.

Ég hélt áfram að segja bæði honum og öllum hinum að hann ætti eftir að verða rosalegur í fótbolta.

Á seinna árinu í sjöunda flokki small allt saman. Hann ákvað að taka þátt í leiknum með fullri einbeitingu. Strax í fyrsta leik kom þjálfari andstæðinga okkar til mín og kvartaði undan honum, sagði að þessi strákur hlyti að vera mun eldri, með svona hraða og styrk væri engin á þessum aldri.

Ég hló bara og sannfærði þjálfarann um að minn maður væri sko alveg á réttum aldri og þessi hraði og styrkur hefði alltaf verið til staðar. Þetta sumar skoraði hann þegar að honum sýndist, það héldu honum engin bönd og ég stóð á hliðarlínunni og tautaði sigri hrósandi „ég sagði ykkur þetta“.

Síðasta sumarið mitt með þennan árgang enduðum við tímabilið með því að fara í mót á Húsavík. Við ferðuðumst saman á einum bíl og allir voru með peninga til að greiða fyrir sinn hlut í kostnaðinum. Ég vissi að ég var að hætta og tíminn með þessum strákum hafði verið svo skemmtilegur svo ég sagði þeim að við myndum fara í sjoppu og að þeir fengju að halda ferðapeningum og mættu kaupa sér góðgæti fyrir peningana. Eina skilyrðið var að þeir yrði að segja öllum þegar heim væri komið að við hefðum farið á grænmetismarkað og eytt peningunum þar.

Heimferðin var dýrðleg, allir í sætindavímu skellihlæjandi að semja sögur um grænmetismarkaðinn. Þar fór fremstur í flokki sprettharði vinstrifótardrengurinn minn.

Bílslys batt enda á líf hans. Það er sárara en orð fá lýst.

Eftir lifir minningin um yndislegan dreng.

Eftir Jón Óðinn – Höfundur er júdóþjálfari.

Ekki missa af...