„Ef þú ert hvítur karlmaður í góðum jakkafötum færðu betri framgang hjá lögreglu“

„Um er að ræða mjög al­var­legar á­sakanir,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um ummæli Þorbjargar Ingu Jónsdóttur lögmanns að lögregla og dómstólar fari í manngreinaálit eftir þjóðfélagsstöðu.

Þorbjörg Inga.

„Nauð­syn­legt er að kanna hvort og þá hvað er hæft í þeim á­sökunum sem bornar voru fram um með­ferð mála og vinnu­brögð hjá lög­reglu og á­kæru­valdi,“ sagði Áslaug Arna í samtali við Fréttablaðið.

Formaður landssambands lögreglumanna sendi bréf til dómsmálaráðherra í síðustu viku þar sem hann fordæmir ummælin. Í bréfinu er þess krafist að embætti ríkissaksóknara hefji rannsókn á starfsháttum lögreglu við skýrslutökur af brotaþolum og gerendum.

ENGINN VAFI LEIKUR Á MANNGREINAÁLITI EFTIR ÞJÓÐFÉLAGSSTÖÐU

Ráðstefnan Réttlætið í samfélaginu var haldin á Hólum í Hjaltadal í október. Þar hélt Þorbjörg Inga erindi þar sem hún sagði engan vafa leika á því að kerfið færi í manngreinaálit eftir þjóðfélagsstöðu. „Ég upplifi að það skiptir mjög miklu máli hver þú ert og hver brýtur á þér í nauðgunarmálum. Ef þú ert hvítur karlmaður í góðum jakkafötum færðu betri framgang hjá lögreglu og dómstólum.“

Ýmist skiptir máli í framkomu og framburði fólks, bæði ef það er brotaþoli eða með stöðu grunaðs. Þjóðerni, hreimur, fyrri geðheilbrigðissaga og fíknivandi hafi öll áhrif á trúverðugleika í réttarsal.

Í tuttugu ár hefur hún sinnt réttargæslu fyrir fjölda kvenna sem hafa kært kynferðisbrot. Hún tók dæmi um biðtíma brotaþola eftir kynferðisbrot, en meðaltími rannsókna á slíku máli eru tvö til tvö og hálft ár. Þá er bið á ákærusviði ekki tekin með í reikninginn.

Þessi bið getur orðið til þess að þolendur verði enn ótrúverðugri í augum dómstóla, þar sem langur tími er liðinn frá broti og minnið orðið skeikult.

LÖGREGLUMENN SEGJA ÞETTA RANGFÆRSLUR

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands Lögreglumanna, sendi bréf til dómsmálaráðuneytisins í síðustu viku þar sem hann fordæmdi ummæli Þorbjargar.

„Landssamband lögreglumanna hafnar alfarið þeim ávirðingum sem framangreind ummæli lögmannsins bera með sér og fordæmir að lögreglu sé með þessum hætti spyrt saman við mismunun á grundvelli þjóðernis, kynþáttar, mismunun á grundvelli stéttar og stöðu og kyns,“ segir í bréfinu.

Ekki missa af...