„Ef hann mælir með hundrað sprautum skal ég taka hundrað sprautur”

„Ég skal taka örvunarskammti af bólusetningu ef mér býðst hún,“ segir Helgi Hrafn Gunnlaugsson í pistli á 24, en orðin lét hann upphaflega falla á samfélagsmiðlum. Lyfjastofnun gaf nýverið út að gefa megi öllum 18 ára og eldri örvunarskammt af bóluefninu Moderna.

Umræðan um bóluefni og örvunarskammta hefur verið fjölbreytt síðustu vikur. Hópur fólks hefur haft hátt um efasemdir á bóluefni og örvunarskammta.

„Að mér vitandi hefur það hvorki verið leyndarmál, né hneyksli, að nýjum bóluefnum fylgi ákveðin áhætta,“ segir Helgi Hrafn. „Þess vegna skil ég ekki alveg málflutning „samsæriskenninga“-smiða, sem láta alltaf eins og þetta séu einhverjar sláandi fréttir.“

LÆKNISFRÆÐIN EILÍFT MAT UM ÁHÆTTU

Hann segir læknisfræðina einkennast af eilífu mati um mismunandi tegundir af áhættu. „Að gefa pensilín felur í sér mat á áhættu þess að nota lyfið gegn áhættunni af því að vera veikur. Hið sama gildir um hálskirtlatökur og öll önnur læknisfræðileg inngrip, þar á meðal bóluefni.“

Áhættumatið sé mis auðvelt en í tilfelli bóluefna er það einfalt, nema þegar undirliggjandi sjúkdómar eða sérstakar ástæður séu til staðar.

„Það sem fólk þarf að átta sig á í þessu áhættumati, er að það eru tvær áhættur sem þarf að bera saman, ekki bara ein sem þarf að meta. Því miður er mikið af fólki sem metur bara spurninguna hvort það sé áhætta af bóluefnum yfirhöfuð; af eða á.“

Hann segir það mistök að líta þannig á málið, eini tilgangur bóluefnisins er að draga út áhættunni sem fylgir því að fá COVID-19.

„Ég hef fengið COVID-19, og skal spara ykkur bölmóðinn yfir þeim andskota. Valið í mínum huga er mjög einfalt. Hætturnar af bóluefnunum eru varla umhugsunar virði við hliðina á hættuna af sjúkdómnum COVID-19.“

ANNAÐ ER SVO MIKLU, MIKLU, MIKLU VERRA EN HITT

Helgi Hrafn slær upp dæmi þar sem mögulegar hliðarverkanir bóluefnanna er sjúkdómurinn og einkenni COVID-19 væru þekktar hliðarverkanir bóluefnisins.

„Mynduð þið taka það bóluefni? Ekki myndi ég gera það, og það væri ekki einu sinni stungið upp á því, af þeirri einföldu ástæðu að annað er svo augljóslega, svo miklu, miklu, miklu verra en hitt; og það sem er verra, er helvítis sjúkdómurinn COVID-19.“

Hann segir það enga tilviljun að fólk sem setur sig upp á móti bólusetningum gegn veirunni og fólk sem gerir lítið úr alvarleika faraldursins sé sama fólkið. „Það er vegna þess að þetta áhættumat fer í klessu ef það er forsendan, og fólk fer að líta einungis á áhættuna af bóluefnunum og bera mögulega hliðarverkanir saman við „enga áhættu“.“

Helgi Hrafn segist ekki geta sannað fyrir fólki að sjúkdómurinn sem fylgir veirunni sé til.

„En ég þekki hann á eigin skinni. Og með þá reynslu í farteskinu skal ég segja ykkur að það er alger no-brainer fyrir mig að taka allar þær örvunarsprautur sem bjóðast. Ég skal taka þær tíu sinnum ef sóttvarnarlæknir telur það til bóta,“ segi Helgi og bætir við:

„Nei, vitiði, ég skal bara taka hana eins oft og sóttvarnalæknir telur ráðlegt; ef hann mælir með hundrað sprautum skal ég taka hundrað sprautur. Áhættumatið er mjög einfalt í mínum huga. Þessi sjúkdómur fer mjög illa með sum okkar í mjög langan tíma, jafnvel ef við verðum ekki einu sinni það veik vikurnar eftir smit.“

NÁTTÚRUÖFL SEM VIÐ HVORKI STJÓRNUM NÉ ÞEKKJUM

Hann ítrekar að okkur hefur aldrei verið sagt neitt um faraldurinn af fullkominni vissu. „Það var aldrei, og verður aldrei öruggt, að næsta sprauta dugi. Það var aldrei, og verður aldrei öruggt, að veiran stökkbreytist ekki þannig að hún ráði við gömlu mótefnin. Við erum að eiga við náttúruöfl sem við hvorki stjórnum né þekkjum til hlítar.“

Hann segir heilbrigðisyfirvöld geta ekki þekkt framtíðina, það þýðir ekkert að leggja það á þau. Þau geti ekki lofað skotheldum leiðum og hafa aldrei þóst gera það.

„Þau munu, eðlilega, halda áfram að skipta um skoðanir eftir því sem ný gögn og ný reynsla koma fram. Enda fagfólk sem byggir ráðgjöf sína á vísindalegri aðferð, sem er – þrátt fyrir allt – það besta sem við höfum.“

Hann lýkur pistlinum með þessum orðum.

„Þessu hendi ég bara út ykkur til umhugsunar. Það er ekki ásetningur minn að höfða til skyldurækni ykkar, heldur til persónulegrar, einstaklingsbundinnar dómgreindar.“

Ekki missa af...