Draugahúsið við Ásvallagötu: Fyrst sinnar tegundar á Íslandi

Við Ásvallagötu 8 í miðbæ Reykjavíkur stendur hvítt, tæplega þrjú hundruð fermetra einbýlishús. Húsið var reist árið 1926. Það lifir í hjörtum margra kvikmyndaáhugamanna og vakti mikinn óhug hjá stórum hluta landsmanna á níunda áratugnum, en segja má að það hafi verið skærasta stjarnan í kvikmyndinni Húsið – Trúnaðarmál sem leikstýrt var af Agli Eðvarðssyni.

Kvikmyndin var gefin út árið 1983 og er fyrst íslenskra hrollvekja í flokki svonefndra „geiramynda“. Hrollur myndarinnar byggist á dulmögnuðu andrúmslofti, flöktandi skuggum og undarlegum draumum. Sagan segir frá Pétri og Björgu, ungu pari sem flytur inn í gamalt hús í Reykjavík. Fljótlega fara undarlegir hlutir að gerast.

Þau Lilja Þórisdóttir og Jóhann Sigurðsson fóru með aðalhlutverkin en þau voru bæði nýgræðingar í leiklist þegar tökur fóru fram. Jóhann og Lilja leika Pétur og Björgu. Hann er tónlistarmaður og hún kennari í skóla fyrir heyrnarlausa. Skömmu eftir að parið flytur inn verður Björg vör við drungalegar raddir í fyrstu og síðan stigmagnast óhugnaðurinn.

Egill skrifaði handritið með Birni Björnssyni og Snorra Þórissyni, en hver þeirra gegndi fleiru en einu hlutverki í framleiðslunni. Björn var hönnuður leikmyndar og sá Snorri um stjórn kvikmyndatöku ásamt klippingu með Agli. Stór hluti myndarinnar var tekinn í Reykjavík. Auk þess fóru tökur fram í Keflavík, á Húsavík og í Vínarborg. Mikil vinna var lögð í undirbúning myndarinnar, þar sem meðal annars var byggð gríðarstór leikmynd en sá hluti var allur tekinn í stúdíói. Egill tekur fram að Húsið hafi verið fyrsta íslenska kvikmyndin sem tekin var upp í stúdíói.

Segja má að Húsið sé fyrsta mynd sinnar tegundar á ýmsum sviðum, eins og með því að vera fyrsta og eina kvikmyndin frá Íslandi þar sem persónur tala með íslensku táknmáli. Enn fremur er þetta fyrsta íslenska kvikmyndin sem notaðist við áhættuleikara í tökum og sú fyrsta til þess að vera hljóðunnin í Dolby-Stereo.

Fjórði hver Íslendingur þekkti til hússins

Hafa sögur gengið að börn á níunda áratugnum hafi sérstaklega fundið fyrir öflugum áhrifum af húsinu draugalega og átt erfitt með svefn. Þess má geta að í dag er Húsið – Trúnaðarmál hvergi fáanleg í stafrænum eintökum, sem sumir kvikmyndaspekúlantar segja að sé draugagangi líkast að myndin hafi nánast gufað upp.

Hrollvekja Egils og félaga kostaði fjórar milljónir króna á sínum tíma og þurfti um 60 þúsund áhorfendur til að framleiðslan myndi standa undir kostnaði. Það þýddi að fjórði hver Íslendingur myndi kaupa sér miða á myndina.

Aðstandendur urðu rólegir við fyrstu sýningarhelgi Hússins en þá voru strax yfir tíu þúsund manns sem sáu hana og var reglulega fullt út að dyrum í þeim kvikmyndahúsum sem sýndu hana. Myndin sló í gegn og þegar talið var upp úr kössunum kom í ljós að 80 þúsund höfðu keypt sér miða.

Húseigendur til Bandaríkjanna

Jóhann Páll Valdimarsson, sem stýrði Forlaginu og JPV í fjölda ára, er fyrrverandi eigandi hússins. Hann lánaði Agli það í tökur. Jóhann Páll bjó þar ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Sigfúsdóttur. Þau hjónin bjuggu á Ásvallagötunni í tæp fimm ár og lánuðu kvikmyndagerðarhópnum heimilið á meðan þau fóru í frí til Bandaríkjanna. Hermt er að að Egill og félagar hafi hrifist svo mikið af húsinu á sínum tíma að annað kæmi ekki til greina en að nota það fyrir kvikmyndina, en sögusagnir um draugagang hefðu ekki sakað upp á andrúmsloftið að gera.

Nú er Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, búsettur í hinu meinta draugahúsi með fjölskyldu sinni og hefur gert í 17 ár. Bendir það til þess að friður hafi ríkt í húsinu og að draugagangurinn hafi mögulega yfirgefið húsið með stafrænu öldinni.

Ekki missa af...