Diskóstemning og tíska – myndasyrpa frá skemmtistaðnum Hollywood: „Í þá daga voru allir góðir vinir“

Skemmtistaðurinn Hollywood var heitur reitur skemmtanalífs Reykjavíkur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Í bland við diskótónlist voru alls kyns skemmtiatriði í boði fyrir gesti, þar á meðal vikulegar tískusýningar.

Staðurinn opnaði í mars árið 1978. Kvikmyndin Saturday Night Fever með John Travolta var nýkomin út og diskótímabilið búið að ná hámarki sínu. Hljómsveitir og tónlistarfólk eins og Bee Gees, Abba, KC and the Sunshine Band og Donna Summer höfðu öll slegið í gegn á heimsvísu.

Facebook síðan Hollywood Minningar er stút full af ljósmyndum frá tímabilinu. Valþór Ólason heldur utan um síðuna en hann var virkur gestur Hollywood á sínum tíma og hefur sjálfur haldið alls kyns böll og skemmtanir tengd Hollywood sem hafa notið vinsælda. Hann gaf góðfúslegt leyfi fyrir birtingu þeirra hjá 24.

Valþór sér um síðuna og hélt Hollywood böllin frægu. Hann er til vinstri á myndinni. Með honum eru Villi Ástráðsson og Daddi Disco./ Mynd: Valþór Ólason

TÍSKUSÝNINGAR OG SKEMMTIATRIÐI

„Ég fór að safna þessum upplýsingum og myndum frá Hollywood tímabilinu vegna þess að ég saknaði þessa tíma og skemmtilega fólksins sem sótti þennan stað,“ segir Valþór í samtali við 24. Hann fór svo skrefinu lengra og hélt endurfundaball Hollywood á Broadway árið 2009. Hann hélt annað ári seinna í Gamla bíó. „Það var uppselt á báðum kvöldunum.“

„Stemmingin var alltaf góð í Hollywood og haldið uppi af því skemmtilega fólki sem sótti staðinn og yndislegu starfsfólki,“ heldur Valþór áfram. „Við fórum í bæinn um hverja helgi til að fara í Hollywood. þangað til við fluttum til Reykjavíkur og vorum þar á hverju kvöldi.“

Fólk hópast saman við disco búrið á Hollywood. / Mynd: Valþór Ólason

Hollywood var langt í frá eini skemmtistaðurinn í Reykjavík og var því fjölmennt á staði eftir því hvað var að gerast hverju sinni að sögn Valþórs. „Það var ekki oft lifandi tónlist í Hollywood en það kom fyrir að eitthvað gott band spilaði á ljósagólfinu. Þar voru aðallega tískusýningar og skemmtiatriði.“

Valþór spjallar hér við Herbert Guðmundsson, sem skemmti oft á Hollywood / Mynd: Valþór Ólason
Tískan var áhugaverð á þessum tíma / Mynd: Valþór Ólason

Valþór segir mikinn mun vera á skemmtanalífi þess tíma og í dag. „Í dag er allt svo tilgerðarlegt eitthvað, allir alltaf að keppa um eitthvað, sýndarmennskan í yfirsnúning. Svo eru þessar ömurlegu byrlanir sem eru að eyðileggja allt skemmtanalíf.“

Staðan á tímum Hollywood var allt önnur. „Í þá daga voru allir góðir vinir og jafnir, það er stærsti munurinn tel ég vera.“

Tískusýningar voru vinsælar / Mynd: Valþór Ólason

Hann segir það hafa sýnt sig vel þegar hann hélt öll endurfundaböllin, áhuginn fyrir þeim var mjög mikill. Síðasta Hollywood ballið sem var haldið var í Gamla Bíó árið 2015. „Hollywood minningar síðan hefur verið mjög vinsæl og er mjög gaman að sjá fólk fara þarna inn og skoða þessar rúmlega 1400 myndir og merkja fólk sem það þekkir.“

Fleiri myndir má svo sjá hér fyrir neðan.


Ekki missa af...