Daníel stígur fram sem skyttan „alræmda“ – Sver af sér sakir: „Hann baulaði og baulaði á mig”

„Þetta er að sjálfsögðu ömurlegt.“ Þetta segir Daníel Dimitri í samtali við 24 en hann telur sig vera gæsaskyttuna sem Baldur Eiðsson, húsasmíðameistari og hrossaræktandi í Lindartúni í Landeyjum, hefur sakað um að hafa skotið tvö hross. Daníel segir það af og frá að hann hafi drepið hrossin. Lögregla hefur staðfest að hrossin hafi drepist af náttúrulegum orsökum. Hann segir það leggjast illa í sig að vera borinn svona sökum varðandi þessi dýr, hvað þá á opnum vettvangi.

„Þessi bóndi er alltof mikið að blása upp þetta mál. Ég og hópurinn minn höfum verið að veiða gæsir þarna í fimm ár. Það kemur oft upp eitthvað svona þar sem við erum sökuð um að drepa ein eða önnur dýr, sem eru ekki gæsir en þetta voru ekki við. Ég finn til með þessum bónda, enda agalegt að missa svona hrossin sín, en rétt skal vera rétt,“ segir Daníel sem steig fram í Skotveiðispjallinu og sagði:

„Ég er að öllum líkindum sú gæsaskytta sem hefur verið talað um í fréttum síðustu daga.“

Forsaga málsins er að fyrrnefndur Baldur fann tvo dauð hross á túni sínu í síðustu viku. Í viðtali við Vísi fyrir tveimur dögum sagði Baldur að það væri alveg ljóst að hrossin hefðu ekki dottið niður dauð af sjálfsdáðum og vísaði til þess að blóð hefði runnið úr nösum beggja hrossa og mátti sjá blóð á brjóstkassa þeirra. Auk þess vísaði hann til þess að hrossin væru ung, annars vegar folald og hins vegar þriggja vetra stóðhestur. Baldur hefur hafnað niðurstöðu lögreglu um að dýrin hafi drepist af náttúrulegum orsökum.

Daníel segist hafa átt orðaskipti við Baldur þennan örlagaríka dag.

„Þessi gaur stóð bara fyrir framan mig og baulaði og baulaði á mig. Hann var orðinn alveg rauður í andlitinu. Þetta snýst ekki bara um mig og minn sannleika, heldur allan hópinn,“ segir Daníel. Hann fór yfir sína hlið málsins innan Facebook-hóps skotveiðimanna á Íslandi fyrr í dag en þar skrifar hann:

„Þannig er mál með vöxtum að ég var staddur á umræddu túni s.l. föstudag. Ekki langt frá, hér um bil í kílómeters fjarlægð myndi ég gíska á, eru aðrir veiðimenn sem skjóta niður stóra gæsahópa hátt og lágt. Að veiðum loknum, þegar ég labbaði að bílnum þá kom jeppi sem lokaði fyrir útkeyrslu. Svo snaraðist út úr bílnum maður sem hljóp upp á túnið beint að mér og byrjaði að saka mig um allskonar vitleysu. Mér fannst hann vera frekar dónalegur og æstur. Ég sagðist vera með leyfi landeigenda og bauð honum að hafa samband við lögreglu ef hann hafði einhverjar efasemdir um það. Svo bað ég hann um að yfirgefa svæðið og láta mig í friði þar sem ég hafði engan áhuga að vera í samræðum við menn sem öskra á mig. […] Vildi bara minna á að ærumeiðandi aðdróttanir varða við ákvæði almennra hegningarlaga. Menn eiga að fara að lögum enn ekki dreifa flökkusögum í fjölmiðlum. Ég hef fulla samúð með bóndanum, leiðnilegt að hrossin skyldu deyja“

Ekki missa af...