Daði Freyr í fyrsta þætti Vogue Scandinavia Sound – „Söngur hans togar í hjartaræturnar“

Daði Freyr Pétursson, tónlistarmaður og Eurovision fari, söng nokkur af sínum lögum í örþættinum Vogue Scandinavia Sound í morgun. Um er að ræða fyrsta þátt seríunnar, en YouTube rásin Vogue Scandinavia er einungis tveggja mánaða gömul.

Daði syngur þrjú lög úr heimastúdíói sínu, lögin Somebody Else Now og Clear My Head úr eigin safni og eina ábreiðu, lagið Gooey eftir Glass Animals. Hann nýtur sín vel á heimavelli og spilar lögin af mikilli innlifun.

mynd af daða
Afslappaður í heimastúdíóinu

Daði vakti mikla lukku með lögum sínum, en athugasemdirnar lofuðu okkar mann fram og aftur. „Hann syngur svo fallega. Ég get ekki meira. Söngur hans togar í hjartaræturnar!“ segir í einni athugasemd.

Önnur segir „Þó mér hafi aldrei líkað mikið við raftónlist þá sigraði Daði hjartað mitt og er enn einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum. Þetta er algjörlega yndislegt, takk fyrir.“

Með 1,3 milljón mánaðarlega hlustendur

Daði er með 1,3 milljón mánaðarlega hlustendur á Spotify. Hann hefur verið duglegur að semja tónlist og spila og gaf meðal annars út stuttskífuna Welcome í maí.

Lög hans falla vel í kramið á alþjóðlegum markaði en hann er enn frægastur fyrir Eurivision-lögin sín tvö. Framlag hans í ár, 10 Years, sló í gegn og var talið sigurstranglegt af spekingum. Daði lenti í fjórða sæti með 378 stig.

Fyrra framlag Daða hins vegar, Think About Things, er með rúmlega 97 milljón spilanir á Spotify. Keppninni það árið var því miður aflýst sökum heimsfaraldursins.

Þátturinn er aðgengilegur í spilaranum hér fyrir neðan.

Ekki missa af...