Brynjar hættur: Bannað að gantast í nýju djobbi

„Jæja, nú þarf ég að kveðja fésbókina tímabundið,“ tilkynnti Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins á samfélagsmiðlinum rétt í þessu. Tilefnið er ráðning hans sem aðstoðarmaður nýs dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar.

„Í nýju djobbi er ekki gert ráð fyrir ábyrgðarlausu glensi á samfélagsmiðlum,“ skrifar hann svo.

Ráðning Brynjars í stöðuna hefur vakið mikla athygli en það voru vangaveltur um að hann myndi stíga af sviði stjórnmála eftir að hann gaf ekki kost á sér á þing í síðustu kosningum. Hann skipti þó nokkrum sinnum um skoðun en á endanum var hann ekki í framboði.

Hann verður aðstoðarmaður ráðherra ásamt Hreini Loftssyni.

HEFUR HJÓLAÐ Í MIG SEM ÞOLANDA

Brynjar hefur aldrei verið þekktur fyrir að sitja á skoðunum sínum, þrátt fyrir að eiga sæti á Alþingi. Hann hefur farið mikinn í umræðu síðustu mánaða um KSÍ og kynferðisbrotamál. Íslendingar sátu ekki á sér með viðbrögðin við ráðningu hans í ráðuneytið.

„Frábært að einn af þeim mönnum sem hefur hjólað í mig sem þolanda ofbeldis sé komin með sæti í dómsmálaráðuneytinu,“ skrifar Þórhildur Gyða Arnarsdóttir á Twitter. „Ég titra af reiði.“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, lagði einnig orð í belg. „Forsætisráðherra sagði í gær að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og bætt staða brotaþola verði í forgangi hjá ríkisstjórninni. Þetta er teymið sem á að stýra baráttunni.“

Þórhildur Helgudóttir Sæmundsdóttir segir einnig;

„Muniði þegar Brynjar bar saman brot gegn kynfrelsi konu þar sem stungið var fingri í leggöng og endaþarm og klemmt á milli við það að fá spark í punginn?“

Ekki missa af...