Frétt Mannlífs gerði sorg Brynju að martröð – Bar son sinn til grafar sama dag: „Traðkað á mínum tilfinningum“

Það var snemma laugardagsmorguns þann 18. september í fyrra að nánustu fjölskyldu Atla Þórs Ólafssonar barst símtal sem mun líklega aldrei líða þeim úr minni. Atli Þór, sem hafði verið búsettur í Mexíkó, var látinn.

Heima á Íslandi, í annarri heimsálfu, var fjölskylda Atla í áfalli, lömuð af sorg. Þegar loks tókst, eftir miklar krókaleiðir, að fá jarðneskar leifar Atla heim til Íslands, tók önnur glíma við. Á vef Mannlífs birtist umfjöllun um Atla Þór sem fjölskyldan telur að hafi ekki átt neitt erindi í fjölmiðla. Ættingjar Atla Þórs saka Mannlíf um að hafa valdið þeim mikilli sorg á útfarardaginn.

Móðir Atla, Brynja Höskuldsdóttir / Mynd: Aðsend

Nú tók við erfiður tími og í stað þess að fá tíma til að syrgja glímdu þau við svifaseint kerfi í Mexíkó. Að mörgu var að huga. Dagarnir liðu og urðu að vikum. Það var ekki fyrr en liðið var vel á annan mánuð að jarðneskar leifar Atla voru á leið heim yfir hafið.

Þegar móðir, systir og náin frænka, ásamt hópi annarra ættingja og vina, voru að búa sig undir jarðarför, barst þeim fregn um að andlát Atla væri til umfjöllunar á vefsíðu Mannlífs. Atli var ekki opinber persóna, hann átti ekki sæti í bæjarstjórn og hafði ekki verið á síðum blaðanna. Fjölskylda Atla var í sömu sporum á þessari stundu og aðrar syrgjandi fjölskyldur sem, bæði fyrir og eftir andlát Atla, hafa gagnrýnt Mannlíf fyrir að nýta minningargreinar í Morgunblaðinu í umfjallanir um ungt fólk sem er fallið frá. 

Fjölmargar greinar hafa verið birtar á vef Mannlífs um ungt fólk sem ekki voru opinberar persónur. Dæmi eru um að ungt fólk sem hafi fallið fyrir eigin hendi hafi verið til umfjöllunar á vefsvæði Mannlífs í óþökk ættingja og ekki hafi verið rætt við nokkurn tengdan þeim látna. Sú ritstjórnarstefna, að fara þessa leið, á sér ekki fordæmi í íslenskri fjölmiðlasögu.


Maðurinn sem hér um ræðir, Atli Þór, var 36 ára gamall þegar hann lést í Mexíkó í fyrra. Þar hafði hann verið búsettur undanfarin þrjú ár. 

Atli Þór var náinn fjölskyldu sinni, traustur vinur og líka uppátækjasamur. Honum var umhugað um aðra og mikill dýravinur. Hans er sárt saknað af ættingum og aðstandendum. Hann var hlýr og hláturmildur og þegar Atli Þór fór að hlæja, en hann hló mjög innilega, þá var eins og barnsleg gleðin smitaði alla.

Brynja Höskuldsdóttir, móðir hans, minntist Atla í Morgunblaðinu en Mannlíf endurbirti orð hennar í frétt sem hafði yfirskriftina: 

„Móðir minnist sonar síns sem lést í Mexíkó: „Tár­in flæða að skrifa þessi orð, elsku Atli.“

Hrefna Höskuldsdóttir er systir Brynju og blöskraði henni framkoma Mannlífs. Hún kærði umfjöllun Mannlífs til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands og fór fram á að greinin yrði fjarlægð úr birtingu. Ritstjóri Mannlífs varð ekki við ósk aðstandenda og hefur ekki svarað þeim persónulega. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands komst að þeirri niðurstöðu að Mannlíf braut ekki siðareglur. Morgunblaðið hefur sett fyrirvara á minningargreinar að ekki megi birta úr þeim efni án leyfis. 

Frétt Mannlífs var unnin úr minningarorðum þriggja aðstandenda. / Mynd: Skjáskot

Brynja, móðir Atla Þórs, Hjördís, systir hans, og Hrefna, stíga fram og vonast til að saga þeirra verði til þess að aðrar fjölskyldur, sem eiga um sárt að binda, endi ekki í sömu stöðu. Aðstandendur Atla Þórs eru ekki eina fjölskyldan sem telja Mannlíf birta minningargreinar um andlát ungs fólks til að auka heimsóknir á heimasíðuna.

Aðstandendur Atla Þórs segja umfjöllun og nálgun Mannlífs hafa haft mikil og neikvæð áhrif á alla fjölskylduna. Greinin hafi skapað reiði og dýpkað sorgina þegar Atli Þór var jarðaður. Þá fór af stað framvinda sem reyndist vera enn fremur þyrnum stráð. Enn í dag finna þau fyrir áhrifum greinarinnar.


ENDURSÖGN Á MINNINGARGREINUM

Kærðir eru Trausti Hafliðason blaðamaður, sem skrifaði greinina og Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs.

Greinin er unnin upp úr minningarorðum þriggja einstaklinga, móður Atla, Hrefnu systur hennar og einum vina hans. Í huga Hrefnu er greinin skýrt brot á þriðju grein siðareglna Blaðamannafélagsins. Í kærunni skrifar hún; „Innihaldið í „fréttinni“ var endursögn á téðum minningargreinum. Fyrirsögnin var gerð sláandi enda sennilega ætluð til að fá klikk.

Halldór átti áður Mannlíf.is og réð Reyni til starfa áður en hann seldi Reyni og Trausta miðilinn.

Nær allur texti greinarinnar er annað hvort tekinn beint úr minningarorðum, eða þau umorðuð. Blaðamaðurinn bætir í raun örfáum setningum við, en allar upplýsingar sem er miðlað koma úr minningarorðunum. 

Reynir Traustason hefur verið viðloðandi íslenska fjölmiðla frá árinu 1994. Hann hóf feril sinn á DV sem blaðamaður, tók síðan við stöðu fréttastjóra og settist loks í ritstjórastólinn. Seinna tók hann þátt í stofnun Stundarinnar. Halldór Kristmannsson réð Reyni til að taka við Mannlífi árið 2020. 

Trausti Hafsteinsson er fréttastjóri Mannlífs, en hann hefur einnig starfað á DV. Reynir og Trausti keyptu Mannlíf í febrúar 2020 í gegnum einkahlutafélagið Sólartún.


ERFIÐAR AÐSTÆÐUR

Blaðamenn 24 hittu Hrefnu og Hjördísi einn regnvotan og hráslagalegan laugardagsmorgun.

Þær sögðu forsögu málsins, um andlát Atla í miðjum kórónuveirufaraldri í fjarlægu landi.

„Vikurnar fyrir útförina tóku virkilega mikið á okkur öll,“ segir Hrefna. „Hátt í sex vikur liðu áður en við fengum Atla heim.“ 

Kórónuveiran dreifðist hratt um heimsbyggðina og mörg lönd höfðu skellt í lás. Fjölskyldan átti ekki þann kost að senda ættingja út fyrir landsteinanna til Mexíkó til að sækja jarðneskar leifar Atla aftur til heimalandsins. 

Þar sem ekkert íslenskt sendiráð er í Mexíkó þurfti fjölskyldan að treysta á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Leitað var til sendiráðs Íslands í Washington sem þurfti að tala máli fjölskyldunnar og aðstoða embættismenn í Mexíkó við erfiðar aðstæður. Þær segja Borgaraþjónustuna hafa staðið sig vel.

Atli Þór hafði búið erlendis í mörg ár / Mynd: Aðsend

Hrefna og Hjördís segja báðar að það hafi tekið gríðarlega á að fást við mexíkósk yfirvöld.

„Í Mexíkó er ekkert einfalt, reglur samfélagsins eru allt aðrar en við eigum að venjast,“ segir Hjördís en hún er spænskumælandi og mæddi mikið á henni þessar vikur. 

Vikurnar sex einkenndust af bið og aftur bið og um tíma leit út fyrir að ekki tækist að koma jarðneskum leifum Atla til Íslands. Sex vikum síðar, eftir ótal símtöl og skeytasendingar barst loks jákvætt svar. 

„Það var því mikill léttir þegar það gerðist loksins. Fjölskyldan sá loksins fram á að geta haldið áfram, eða öllu heldur hafið sorgarúrvinnslu,“ segir Hjördís. 


TRAÐKAÐ Á TILFINNINGUM

Þrautagöngu fjölskyldunnar var hvergi nærri lokið. Rann nú upp 28. október og móðir hans, systir og frænka sáu loks fram á að síðar þennan dag myndu þau kveðja Atla í fallegri athöfn á Íslandi. Það átti þó ekki eftir að verða. Glíman við sorgina allar vikurnar á undan hafði tekið sinn toll. Þegar þær Brynja, Hrefna og Hjördís eygðu von um eðlilegt sorgarferli, skall á annað áfall.

Athöfnin í Sóllandi var afar falleg og í Fossvoginum ómaði tónlist sem hafði verið í uppáhaldi Atla. Brynja hafði hitt Hrefnu, systur sína, fyrr um morguninn. Brynja var í áfalli og fannst á sér brotið. Hrefna segir í samtali við 24:

Atli Þór Ólafsson / Mynd: Aðsend

„Það fyrsta sem hún sagði við mig var; „Ertu búin að sjá Facebook?“ og svo sýndi hún mér „fréttina.“ Á vef Mannlífs var greint frá því að Atli Þór væri látinn. Líkt og í fjölmörgum öðrum greinum sem Mannlíf hefur birt um andlát ungs fólks, án þess að ræða við aðstandendur, hafði starfsmaður vefsíðunnar tekið afrit af minningargreinum aðstandenda og birt í flokknum fréttir

Hrefna heldur áfram:

„Ég varð mjög reið. Það hafði aldrei hvarflað að mér að þetta gæti átt sér stað. Mér fannst traðkað á mínum tilfinningum enda mín orð notuð sem millifyrirsögn.“

Hrefna segir birtingu Mannlífs hafa truflað og flækt sorgarferli fjölskyldunnar.

„Það var mjög erfitt að horfa upp á systur mína og dóttur hennar, þær voru báðar mjög reiðar,“ segir Hrefna og bætir við: „Þetta auðveldaði ekki klukkutímana sem framundan voru, að fara í gegnum útförina eftir þetta.“

Lítið annað komst að í höfði Hjördísar það sem eftir lifði dags. Reiði þeirra, vegna birtingarinnar, hamlaði eðlilegu sorgarferli og marga daga eftir útförina urðu þær þess varar að fólk héðan og þaðan deildi færslu Mannlífs á samfélagsmiðlum. Eftir útförina óskaði fjölskyldan eftir að greinin yrði fjarlægð á vefnum. Því var svarað með fálæti. Þegar kæra barst siðanefnd var greinin ekki tekin niður né beðist afsökunar. Reynir Traustason greip til varna. Fjölskyldan óskaði aðeins þess, að greinin yrði fjarlægð og þau beðin afsökunar á þeirri framkomu sem þeim hafði verið sýnd.

Hjördís og Hrefna gengu í gegnum margt til að koma Atla Þór heim / Mynd: 24

Fjölskylda Atla gagnrýnir margt í grein Mannlífs. Brynja reiddist þegar hún tók eftir að skilja mætti fyrirsögnina sem hennar orð og fannst henni öll framsetning sett fram í æsifréttastíl. Tilvitnunin er í minningarorð Hrefnu, systur Brynju. Trausti, blaðamaður Mannlífs, tók skjáskot af Facebook síðu Atla Þórs og hafði í miðju greinar. Myndin er óskýr og í slökum gæðum.

Fimmtíu manna samkomubann var við lýði þegar jarðarförin fór fram. Birtingin á vef Mannlífs um andlát Atla hafði djúpstæð áhrif á þau fáu sem fengu að koma saman til að kveðja þennan dag.

„Allir hans nánustu voru miður sín. Ég er samt ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir hvernig birtingin var unnin. Fleiri en einn voru hissa á að heyra að ekki hefði verið haft samband og beðið um leyfi fyrir birtingunni.“

Rúmt ár er liðið frá tímabili sem einkenndist af bið, óvissu og sorg. Hrefna segir greinina hafa mikil áhrif enn þann dag í dag.

„Ég hef skrifað minningargreinar sem mína leið til að takast á við sorg. Nokkrum mánuðum seinna lést vinkona mín, ég gat ekki hugsað mér að skrifa minningargrein því ég treysti ekki lengur. Ég get ekki heyrt einhvern tala um Mannlíf án þess að reiðin rjúki upp,“ segir Hrefna.


BRUTU EKKI SIÐAREGLUR ENDA FAGLEGA GERT

Hrefna sendi tölvupóst á ritstjórn Mannlífs. Þar óskaði hún eftir að fréttin yrði fjarlægð. Birtingin var enn að valda móður, systur og svo Hjördísi þjáningum. Erindi þeirra hefur enn ekki verið svarað þegar þessi grein er skrifuð. 

Hrefnu blöskraði vinnubrögð og tómlæti Mannlífs og sá sér því ekki annað fært en að kæra Reyni Traustason og Trausta Hafliðason, eigendur Mannlífs, til Siðanefndar Blaðamannafélagsins. Kæran barst nefndinni þann 6. nóvember 2020. Kært var á grundvelli þriðju greinar siðareglna blaðamannafélagsins, en hún hljóðar svo: 

„Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Í svari Trausta og Reynis til siðanefndar segir; „Ungur maður er fallinn frá, alltof snemma, og hans minnst með afar fallegum hætti. Þess var gætt að vitna til heimilda í greininni sem birtist þennan morgun. Um er, sem sagt, að ræða birt efni og án þess að úr samhengi væri slitið.“

Úrskurður siðanefndar er að Trausti Hafsteinsson og Reynir Traustason hafi ekki brotið gegn siðareglum Blaðamannafélagsins. „Birting minningargreinar er opinber birting,“ stendur í úrskurðinum. „Siðanefnd BÍ telur að endurbirting eða útdráttur úr minningargrein í öðrum miðli fari ekki í bága við Siðareglur BÍ enda sé þar ekki vikið frá upprunalegum texta eða efnið brenglað.“

Frekari útskýringu á þessu var ekki hægt að fá frá sitjandi formanni siðanefndar, Friðriki Þór Guðmundssyni. Úrskurðurinn var ítrekaður, að svo lengi sem greinin var faglega unnin og efnið ekki brenglað frá heimildum, þá væru siðareglur ekki brotnar.

Þessi kæra er sú fyrsta sinnar tegundar, að endurbirt minningarorð eru kærð til siðanefndar. Á flestum fjölmiðlum Íslands tíðkast það að skrifa andlátsfréttir af einhverju tagi. Þá er sú hefð að einstaklingurinn hefur verið þekktur í íslensku samfélagi, verið í bæjarstjórn eða áorkað einhverju sem fólk þekkir til. Í tilfelli Mannlífs var það eitt fréttnæmt að fólk hafi fallið frá fyrir aldur fram.


MÁ EKKI LENGUR BIRTA ÚR MINNINGARGREINUM

Þann 11. mars síðastliðinn greindi Fréttablaðið frá því að Morgunblaðið væri búið að banna endurbirtingu á efni úr minningargreinum án leyfis. Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, sagði að málið snúist um höfundarrétt og sæmdarrétt, að það verði að sýna nærgætni þegar tekið er upp úr minningargreinum. Andrés segir þar:

„Það hefur svolítið vantað upp á það og við höfum fundið það frá fólki sem hefur verið að senda inn minningargreinar að sumum þeirra hefur mislíkað þetta og þetta er viðleitni til þess að tempra það“ 

Andrés sagði í samtali við 24 að Morgunblaðið væri ekki með tölu yfir það hve mörg hafa samband við blaðið vegna umfjöllunar Mannlífs. „Við höfum ekki haldið utan um það, en það kemur vissulega fyrir, þá er það bara fólk í sárum,“ segir Andrés. „Þá finnst þeim ekki farið nægilega gætilega með minningu ástvina. Við höfum auga með þessu.“

Reynir Traustason svaraði ákvörðun Morgunblaðsins í pistli með yfirskriftinni Lifir á dauðanum og Guðbjörgu.

Trausti Hafsteinsson

„En rauði þráðurinn í lífi Moggans er dauðinn,“ skrifaði Reynir. „Blaðið hefur haldið úti minningargreinum sem eru talsvert lesnar og tryggja að einhverju marki tilveru blaðsins. Nú hafa stjórnendur blaðsins ákveðið að eigna sér andlátsorðin.“

Ákvörðun Morgunblaðsins var fagnað víða á samfélagsmiðlum. „Takk Morgunblaðið,“ skrifaði Andrea Sigurðardóttir, blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu, á Twitter þegar tilkynningin kom út. „Að það hafi þurft að taka þetta fram er galið, en here we are.“

Ekki náðist í Reyni Traustason við vinnslu greinarinnar. Þegar 24 hafði samband við Trausta Hafsteinsson vildi hann ekki tjá sig um málið eða láta hafa nokkuð eftir sér á opinberum vettvangi um það sem ættingjar Atla máttu þola vegna framgöngu Mannlífs.


HEFÐI MÁTT GERA ATHUGASEMD VIÐ SIÐFERÐIÐ

Mæðgurnar segja úrskurðinn ekki hafa komið sér á óvart. „Það voru ekki margir sem vissu að ég væri að fara þessa leið en mér var ítrekað sagt að það þýddi ekkert að kæra því minningargreinar væru opinberar.“ 

„Siðanefnd BÍ hefði alveg getað tekið fastar til orða. Þrátt fyrir að birtingin væri ekki ólögleg, hefði mátt gera athugasemd við siðferðið,“ segir Hrefna. „Að taka setningar beint upp úr minningargrein og slá upp sem fyrirsögn veldur sársauka og er vanvirðing. Að endurtaka allar minningargreinar er vanvirðing á orðum okkar sem skrifuðu þau.“ 

Í svari Mannlífs til siðanefndar harma þeir það að hafa valdið aðstandendum sárindum með birtingunni, það hafi ekki verið ætlunin. Einnig segja þeir að ekki sé varpað skugga á minningu hins látna. „Auðvitað gátu þeir ekki varpað skugga á minninguna því þeir eða aðrir landsmenn þekktu hann ekki,“ segir Hrefna. „Þeir gátu ekki lagt eigið mat á hann, notuðu bara okkar mat.“

Þær eru sammála um að með kærunni ætti Mannlífi að vera ljóst að endurbirtingar á minningarorðum valdi auknum harmi. „Samt halda þeir áfram. Halda þeir að við séum eina fjölskyldan sem líði þannig? Þá veit ég ekki í hvaða veruleika þeir lifa,“ segir Hrefna. „Siðanefnd hefði gjarna mátt benda á það því ég trúi bara ekki að nefndin hafi ekki heyrt umræðu um þetta.“ 


ÉG VIL HVETJA FÓLK TIL AÐ KÆRA TIL SIÐANEFNDAR

Hrefna segir að það þurfi að senda bæði siðanefnd og Mannlífi skýr skilaboð. „Ég vil hvetja fólk til að kæra til siðanefndar, alveg sama hvað aðrir segja, mitt mál var tekið fyrir og hefur vakið athygli.“

Brynja, Hjördís og Hrefna ákváðu að stíga fram opinberlega til að vekja athygli á því hversu miklum sársauka vinnubrögð Mannlífs hafi valdið, ásamt því að tefja sorgarferli. Þær stíga fram og vona að fólk fái í framtíðinni frið fyrir fjölmiðlum til að syrgja. Þó ungt fólk falli frá og þeirra sé minnst af ættingjum í sárum, þá réttlæti það aldrei að birta umfjallanir upp úr slíkum greinum. Þá sérstaklega þegar ekki er haft samband við ættingja né óskað eftir leyfi. Það segir sig sjálft að slík vinnubrögð séu siðlaus og muni valda þjáningu.

„Ættingjar höfðu ekki orku í að gera eitthvað. Það er einmitt málið. Mannlíf birtir á tíma þar sem fólk er búið að ganga í gegnum helvíti, slær fólk alveg út, það getur ekki tekið slaginn og þeir vita það,“ 

segir Hrefna og telur sig vita um að minnsta kosti tvö önnur atvik er tengjast Mannlíf, en þær sögur verða ekki sagðar hér. Þær Brynja, Hjördís og Hrefna láta sína sögu duga og vona að fleiri þurfi ekki að ganga í gegnum það sama. Að punktur verði settur aftan við slíka blaðamennsku.


Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu var því ranglega haldið fram að Trausti Hafsteinsson, fréttastjóri Mannlífs, væri ekki í eigendahópi Sólartúns ehf sem á Mannlíf. 24 biður Trausta velvirðingar á þessum leiðu mistökum. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það.

Arnór Steinn Ívarsson og Tómas Valgeirsson höfundar greinar og blaðamenn 24.

Ekki missa af...