Atli Viðar: „Eins og að vera kýldur í hjartað“

Fréttamiðillinn Mannlíf virðir óskir syrgjenda um að fjarlægja endurbirtar minningargreinar af síðu sinni að vettugi. Fjölmargar slíkar greinar hafa verið birtar á vef Mannlífs um ungt fólk sem ekki voru opinberar persónur. Dæmi eru um að ungt fólk sem fallið hafa fyrir eigin hendi hafi verið til umfjöllunar á vefsvæði Mannlífs í óþökk ættingja og ekki hafi verið rætt við nokkurn tengdan þeim látna. Sú ritstjórnarstefna, að fara þessa leið, á sér ekki fordæmi í íslenskri fjölmiðlasögu.

Á dögunum fjallaði 24 um mæðgur sem blöskraði framkoma Mannlífs. Málið var kært til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands og var farið fram á að greinin yrði fjarlægð úr birtingu. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands komst að þeirri niðurstöðu að Mannlíf braut ekki siðareglur.

24 hefur í kjölfar umfjöllunarinnar fengið ábendingar og athugasemdir þar sem fólk segir svipaða sögu. Mannlíf endurbirtir minningarorð og gefur lítið fyrir óskir aðstandenda um að fjarlægja greinar. Atli Viðar Þorsteinsson, framleiðandi og plötusnúður, segir umfjöllun Mannlífs um bróður sinn hafa truflað erfitt sorgarferli með sambærilegri andlátsfrétt.

Fréttastjóri Mannlífs, Trausti Hafsteinsson, hafði samband við Atla og vottaði samúð sína og tók greinina úr birtingu. Engin afsökunarbeiðni hefur komið frá Mannlífi og þeir hafa ekki svarað frekari fyrirspurnum aðstandenda.

Atli Viðar vakti fyrst athygli á málinu á samfélagsmiðlahópunum Fjölmiðlanördar og Markaðsnördar. Viðbrögðin þar voru svipuð, fólk vottaði Atla samúð og fordæmdi vinnubrögð Mannlífs. Atli Viðar tók sérstaklega eftir því hve mörg auglýsingapláss voru við greinina.

Minningargreinarnar fóru í loftið hjá Morgunblaðinu í byrjun október, samdægurs og jarðarförin fór fram. Mannlíf endurbirti minningargreinarnar sama dag.

Atli Viðar Þorsteinsson segir umfjöllun Mannlífs um bróður hann hafa truflað sorgarferlið talsvert / Mynd: Hörður Sveinsson

BINGÓ AUGLÝST YFIR LÁTNUM MANNI

Það liðu tvær vikur þangað til Atli Viðar tók eftir umfjöllun Mannlífs. Hann sló upp nafni bróður síns á Google til að finna minningargreinarnar sem hann skrifaði ásamt móður þeirra. „Þá finn ég þessa grein Mannlífs, þessa endurbirtingu á minningargreinum,“ segir Atli í samtali við 24. „Hún er búin að hanga í loftinu í tvær vikur án þess að ég eða neinn annar vissi af, Mannlíf hafði aldrei samband við okkur.“

Hann segir fyrirsögnina hafa verið í æsifréttastíl til að ná sem flestum inn.

„Það fyrsta sem ég sé er bróðir minn, myndin sem fylgdi minningargreininni hans, tekin af þeim í leyfisleysi og svo sé ég auglýsingar,“ heldur hann áfram. „Auglýsingar alls staðar, FlyOver Iceland auglýsing á honum, Bingó auglýsing frá Vinabæ, hundabæli, legsteinar og nikótín. Maðurinn er nýlátinn og það er verið að auglýsa bingó yfir honum.“

Í færslu sinni á samfélagsmiðlahópinn Fjölmiðlanördar tók hann saman auglýsingaplássin sem voru við greinina, átta talsins.

„Svo les ég greinina og þar er hann rangnefndur. Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að lesa textann aftur.“

Engin lína úr texta greinarinnar er upprunalega rituð frá blaðamanni. Í inngangi er setning afrituð úr minningargrein og sett án samhengis inn í aðra málsgrein. Efnisgreinar um áhugamál og fyrri störf hans eru einnig afrituð orðrétt. Greinin er svo byggð á tilvitnunum í Atla og móður hans sem þau skrifuðu í minningargreinum. Samantekt um ævi mannsins er sett fram sem smíð blaðamanns en hún er afrituð orð fyrir orð frá Morgunblaðinu.

„KAFFIÐ ÞEIRRA ER GREITT MEÐ ÞVÍ AÐ PENINGAVÆÐA LÁT BRÓÐUR MÍNS“

Atli segir það hafa verið ótrúlegt að sjá greinina. Hún hafði upphaflega verið birt sama dag og jarðarförin, sama dag og minningargreinarnar birtust í Morgunblaðinu. Þarna voru tvær vikur liðnar frá jarðarförinni.

Það var mikið áfall að sjá að Mannlíf hafi endurbirt ekki bara textann heldur einnig mynd. „Þarna eru sex vikur síðan hann dó, sex vikna sorgarferli,“ segir Atli. „Þetta í alvörunni sendi mig beinustu leið aftur í sjúkrarýmið til hans. Þetta var eins og að vera kýldur í hjartað.“

Þarna hafði greinin verið í tvær vikur að skapa tekjur fyrir vefmiðilinn, eitthvað sem Atli var ósáttur við.

„Kaffið þeirra er greitt með því að peningavæða lát bróður míns. Að einhver manneskja skildi geta gert þetta, lagst svona lágt, mér finnst það ótrúlegt, svo ómanneskjulegt. Þetta sýnir algjöra opinberun á því hversu lágt einhver getur lagst ef hann leyfir sér það og skortir siðferðisvitund.“

Sumir auglýsendur trúðu ekki að auglýsingar þeirra væru að birtast á Mannlífi / Mynd: Hörður Sveinsson

Atli Viðar skoðaði síðuna í kringum grein Mannlífs og tók saman auglýsingapláss og þá auglýsendur sem hann sá. Það voru rétt tæplega fjörutíu mismunandi auglýsendur sem komu fram á síðunni. „Mig grunaði að sum þeirra vissu ekkert að þau væru að auglýsa þarna,“ segir Atli.

„Til að staðfesta þann grun sendi ég tölvupóst á alla þá auglýsendur og sagði þeim bara á mjög kurteisislegan hátt frá stöðunni, að auglýsingar þeirra birtust á síðu þar sem Mannlíf stal minningarorðum og endurbirtu mynd. Að þar væri verið að tengja vörumerkið þeirra við lát bróður míns.“

Hann segir flesta hafa haft samband við sig og ekki vitað að þeir hafi auglýsingar á Mannlífi. „Nokkrir trúðu mér ekki fyrr en ég sendi þeim skjáskot,“ segir hann.

Í færslu Atla Viðars á hópinn Markaðsnördar tekur hann fram að tveir auglýsendur gengu svo langt að segja að þau myndu aldrei auglýsa á Mannlífi.

VERIÐ AÐ NÝTA SÉR FÓLK Á SÍNUM VIÐKVÆMAST PUNKTI

Nokkrum dögum eftir að Atli fór að vekja athygli á málinu á samfélagsmiðlum hafði Trausti Hafsteinsson samband við hann.

„Hann sendir mér skilaboð á Facebook þar sem hann vottar mér samúð og segir að greininni hafi verið kippt út. Hann harmaði að bróðir minn hafi verið rangnefndur og sagði að það átti ekki að sleppa í gegnum yfirlestur.“

Atli athugaði hvort þetta væri rétt hjá Trausta en greinin fór ekki út fyrr en seinna um daginn.

„Ég spyr hann í þessu Facebook samtali hvort honum finnst þetta eðlileg vinnubrögð sem þeir eru að stunda og hann svarar bara að honum finnist þetta leitt. Ég sendi fleiri spurningar sem hann hefur ekki svarað mér síðan 18. október.“

Andlátsfréttir eru stór hluti af útgáfu Mannlífs / Mynd: Skjáskot

Atli segir fólk sem er að kljást við ástvinamissi eigi ekki að þurfa að kljást aukalega við umfjöllun af þessu tagi. „Það er verið að nýta sér fólk á sínum viðkvæmasta punkti. Syrgjendur sem eru að opinbera hjartað sitt í minningargreinum. Þeir eru að treysta á að þetta fólk hafi ekki andlega burði til að ganga á eftir Mannlífi og draga þá til ábyrgðar. Þetta er bara, maður er tekinn og dreginn í gegnum svipugöngin og svo er manni hent fram af bjargi.“

Truflunin á sorgarferlinu var meiri en orð fá lýst. „Síðan þetta gerist er þetta búið að liggja á mér, ég hef verið með svefntruflanir, gat ekki sofið. Ég hef ekki gefið mér tíma til að vinna úr þessu.“

BARA EINU SINNI KÆRT ÁÐUR

Nýlega birti 24 ítarlegt viðtal við fjölskyldumeðlimi manns sem lést úti í Mexíkó í september í fyrra. Hrefna Höskuldsdóttir, móðursystir hins látna kærði grein Mannlífs til Siðanefndar blaðamannafélags Íslands á grundvelli þriðju siðareglu blaðamanna. Hún hljóðar svo;

„Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Sjá einnig: Frétt Mannlífs gerði sorg Brynju að martröð

Siðanefnd taldi Trausta og Reyni ekki hafa brotið siðareglur, enda hafi þeir unnið rétt með heimild og ekki brenglað efnið neitt.

Atli Viðar kaus að fara ekki sömu leið og kæra vegna þess að hann vissi til þess að svona lagað hafði verið kært áður. Það skal tekið fram að kæra Hrefnu á umfjöllun Mannlífs um systurson sinn er sú fyrsta sinnar tegundar í íslenskri fjölmiðlasögu.

En ef Mannlíf hefði haft samband við aðstandendur og beðið um leyfi fyrir endurbirtingu minningarorðanna?

„Ég hefði sagt þvert nei. Þetta mál kemur engum við. Hann var ekki opinber persóna, hann bjó ekki einu sinni á landinu. Þetta er bara gert til að skapa græðgistekjur.“

Atli Viðar tekur lítið fyrir yfirlýsingar Mannlífs um að takast á við spillingu, vera með neytendavakt og vera leiðandi íslenskur fjölmiðill. „Var það þá bara á ritstjórnarfundi þar sem það var ákveðið að ritstela minningargreinum frá Mogganum og blammera auglýsingum yfir látið fólk? Það er bilað að gera þetta og kalla sig blaðamenn. Nei, þið rótið í ruslinu hjá fólki og reynið svo að selja það á svörtum markaði.“

Ekki missa af...