Fimmti hver fiskur drepst í kvíunum

Landvernd hvetur Matvælastofnun til að falla frá áformum um að veita Arctic Sea Farm rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Arnarfirði. Þetta kemur fram í athugasemd samtakanna sem sent var til MAST.

Leyfið verður fyrir 4.000 tonna fiskeldi í firðinum. Arctic Sea Farm er dótturfélag Arctic Fish sem ræktar á Vestfjörðum. Mat á umhverfisáhrifum er ekki tekið inn með beinum hætti í rekstrarleyfið. Gert er ráð fyrir því að fimmti hver fiskur drepist vegna aðstæðna í sjókvíum.

HÁÐ LÖGUM UM UMHVERFISMAT

Í umsögn Landverndar segir að taka verði fullt mark á mati á umhverfisáhrifum. Unnið sé að skipulagi hafsvæða á Vestfjörðum og það sé ólýðræðisleg nálgun að auka sjókvíeldi á þessum tímapunkti. „Skipulag haf- og strandsvæða hefur ekki verið lokið með fullri aðkomu samfélagsins. Landvernd hvetur MAST að beita sér fyrir því að koma í veg fyrir fiskeldi sem bindur hendur málsaðila við gerð skipulagsins.“

Að mati Landverndar hefur þetta alvarlegar afleiðingar í för með sér, en ef gengið er fram hjá þessari leið verður fiskeldisfyrirtækjum gefin full heimild til að klára skipulagsgerðir án samráðs við aðra hagsmunaaðila.

„Slík vinnubrögð gagnvart samfélaginu brjóta gegn grundvallarreglum og um jafnræði þegar kemur að jafn stórum málum og hér um ræðir og varðar okkar sameiginlegu auðlindir.“

Einnig segir í athugasemdinni að mat á umhverfisatriðum hafi ekki verið tekið til greina. „Sérstaklega í ljósi þess að nú hefur verið áréttað að burðarþolsmat sé háð ákvæðum laga um
umhverfismat,“ eins og stendur í athugasemdinni.

Þar er vísað til kröfu Landssambands Veiðifélaga frá því í október. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá því. Að ósk Landssambandssins skoðaði Skipulagsstofnun lífræn áhrif sjókvíaeldis og komst að fyrrnefndri niðurstöðu.

ÞJÁST AF VANSKÖPUN OG HJARTAVANDAMÁLUM

Landvernd telur upp ýmsar ástæður gegn auknu sjókvíaeldi í athugasemd sinni. Þar segir meðal annars að gríðarlegur fjöldi laxa drepist þar. „Iðnaðurinn gerir ráð fyrir því að fimmti hver fiskur drepist vegna aðstæðna í kvíunum.“

Einnig eru sjókvíar gróðrastía lúsa sem þarf að eitra fyrir. „Laxalús étur eldisdýrin lifandi í netapokanum á meðan villtur lax getur losað sig við lúsina þegar hann gengur í árnar, því lúsin þolir illa ferskvatn.“

Einnig þjást fiskar af hjartavandamálum og vansköpun.

Áhrifin eru meiri en bara á fiskinn sjálfan. „Botndýralíf þurrkast út undir kvíunum því þar safnast þykkt lag af úrgangi og rotnandi fóðurleyfum. Stækkunin kemur til með að hafa neikvæð áhrif á rækjustofninn í firðinum ef ítrekað þarf að nota lyf gegn laxalús. Sagan segir okkur að afar líklegt er að slík lyf séu notuð.“

Landvernd spyr hvort þetta séu boðlegar aðferðir við matvælaframleiðslu. „Af hverju stendur til að veita leyfi þegar svona margt mælir gegn því? Hvers vegna sættum við okur við þetta? Hvenær er nóg nóg?“ segir í lokum athugasemdarinnar.

Ekki missa af...