Bókahillur fá nýtt hlutverk – Sjáðu breytinguna!

Stundum þarf ekkert að finna upp hjólið. Stundum er bara nóg að finna hugmyndina og þær eru ekki af skornum skammti á Pinterest. Þessi sístækkandi samfélagsmiðill er ótæmandi brunnur af alls kyns hugmyndum. Þá skiptir engu hvort um er að ræða hugmyndir að nýjum flúrum eða hvernig hægt sé að byggja sér bar í stofunni heima. Hvað er fullkomnara á þessum Covid-tímum en nákvæmlega það?

Fyrir rúmu ári síðan fékk ég þessa flugu í hausinn. Mig langaði að smíða minn eigin mini-bar til að skarta í stofunni heima. Ég hélt alltaf að nauðsynlegt væri að vera með borðstofuborð og borðstofustóla heima hjá sér, annað kæmi ekki til greina. Notkunin á borðstofuborði á mínu heimili var í 99% tilfella undir hreina stafla af þvotti sem hvorki ég eða einhver annar á heimilinu nennti að ganga frá. Það var því ákeðið. Mini-bar skal rísa í stofunni. Ég fór minn venjulega hring á Pinterest og búmm. Hugmyndin komin.

Ég varð ástfangin af þessum mini bar á Pinterest

Eftir mælingar og merkingar með krít á veggnum og gólfinu var komið að því að verða mér út um einhverskonar skápa sem gætu virkað í verkefnið. Ég keypti eikarskápinn í Kompunni í Keflavík fyrir klink og hinn fékk ég gefins á Facebook.

Þetta eru skáparnir en þeir fást nýir í IKEA

Þegar heim var komið var ég ekki alveg viss hvernig ætti að útfæra þetta. Ég tók hurðirnar og hillurnar úr glerskápnum og lagði svo skápana saman hlið við hlið.

Bókahillur eins og þessar eru oft til sölu á nytjamörkuðum

Ég varð að stytta eikarskápinn niður í þrjár hillur af fimm. Til að gera hann samliggjandi hvíta skápnum sá ég ekki aðra leið en að grípa í multisögina og saga bútinn úr. Verð þó að viðurkenna að ég var treg við að byrja að saga í skápinn af hræðslu við að eyðileggja hann.

Ótrúlegt en satt þá gekk þetta eins og ég vonaði. Skáparnir smellpössuðu saman þegar ég reisti þá við.
Ég skrúfaði þá fasta saman á nokkrum stöðum .

Í verkefni eins og þessu er multisög algjör himnasending. Ég nota hana svo mikið að ég mundi helst vilja hafa hana í veskinu mínu.

Sögina og blöð í hana ætti að vera hægt að kaupa í hvaða byggingarvöru- og verkfæraverslun sem er

Ég ákvað að láta eftir mér að kaupa borðplötuna og fótinn undir hana í IKEA en það kostaði heldur ekki mikið.

Ég léttpússaði eikarskápinn þannig að glansinn færi af og grunnaði hann svo. Mér fannst ég ekki þurfa að pússa og mála hinn þar sem hann var hvítur fyrir og sást ekkert á honum. Svartur litur varð fyrir valinu í bakið á skápnum. Liturinn er þess valdandi að veggurinn fyrir aftan samsvarar skápnum betur.

Borðplatan er marmaramunstur sem mér finnst alltaf flott og klassískt. Ég þurfti að saga 2 cm af sitthvorum endanum á henni til að hún myndi passa og festi hana svo á vinklum þar sem hún fer inn í skápinn og alveg út í enda.

Hér sést samanburðurinn

Mini-barinn er nákvæmlega eins og ég sá hann fyrir mér í huganum. Ég fékk gefins þrjá barstóla á Facebook sem passa fullkomlega við borðið. Einhverjum mánuðum seinna sá ég aðra 3 alveg eins barstóla fyrir slikk. Hverjar eru líkurnar!

Ég setti svo skápaljós í efstu hilluna úr IKEA sem ég átti grafið ofan í skúffu en það lýsti upp glösin svo fallega. Það og skrautið í hillunum býr til þetta æðislega kósý lúkk.

Ég mun klárlega gera aðra tilraun af þessari hugmynd.

Punkturinn yfir i–ið er svo þessi lampi, almáttugur. Ég sá hann á Ljósanótt í Bústoð í Keflavík 2018 og missti kjálkann, ást við fyrstu sýn. Ég gat ekki hætt að hugsa um hann fyrr en ég náði að réttlæta þessi kaup fyrir sjálfri mér og fór aðra ferð í Bústoð og hann varð minn.

Mér finnst alltaf skemmtilegra að smíða mín eigin húsgögn, þó þau séu ófullkomin. Fullkomnun er líka eitthvað sem ég sækist ekki eftir, enda væri skrítið að ná að handsmíða eitthvað fullkomið. Ef ég er sátt með niðurstöðuna er verkefninu lokið og markmiðinu náð.

Ekki missa af...