Birtu bara bréfin, Drífa

Björn Birgisson skrifar:

Eineltistilburðir forseta ASÍ gegn Play flugfélaginu halda áfram.

Úr bréfi Drífu Snædal til flugliða hjá Play.

„Kæri flugliði,

Okkur hafa borist nokkur óundirrituð bréf frá fyrrum flugliðum WOW-air og núverandi flugliðum Play þar sem óskað er liðsinnis okkar hjá ASÍ vegna starfsumhverfis og kjara. Eins og hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum þá beittum við okkur mjög gegn því sem við teljum hafa verið ólöglegir samningar um kaup og kjör.

„Ástæða þess að við beittum okkur af hörku og munum halda því áfram er að rýrnun kjara á einu sviði getur hæglega smitast á önnur svið og um allan vinnumarkaðinn ef við stöndum ekki í lappirnar. Þessari gagnrýni hefur aldrei verið beint að flugliðum eða öðru starfsfólki Play. Við gerum okkur grein fyrir að þið eruð í erfiðri stöðu sem einstaklingar sem þurfa að treysta á vinnu og miðað við upplýsingar sem við búum yfir er fólk hrætt við að missa vinnuna eða verða fyrir enn frekari kjaraskerðingum.“

GLEÐIN GEISLAÐI AF STARFSFÓLKINU

Séu flugliðar hjá Play óánægðir með kjör sín lítur helst út fyrir að Drífa ein viti eitthvað um þá óánægju.

Ekki hef ég séð stafkrók eða heyrt neitt frá nokkrum starfsmanni Play í líkingu við það sem Drífa er að lýsa.

Hef flogið tvisvar með Play og í bæði skiptin nánast geislaði gleðin af fólkinu sem var að vinna um borð.

Ein flugfreyjan sagði mér með stolti að í nokkrum síðustu ferðum hennar hefðu flugvélarnar verið nokkurn veginn fullsetnar og hún virtist vera afskaplega ánægð með þá þróun!

Drífa sagði í grein sinni:

„Okkur hafa borist nokkur óundirrituð bréf frá fyrrum flugliðum WOW-air og núverandi flugliðum Play ……..“

Birtu bara þau bréf Drífa, máli þínu til staðfestingar!

Ég hef tekið þá ákvörðun að taka ekkert mark á orðum Drífu um óánægju fólksins hjá Play fyrr en ég eða heyri eða sé eitthvað um þá óánægju beint frá fólkinu.

Eftir // Björn Birgisson samfélagsrýni

Höfundur er fyrrverandi ritstjóri og kennari

Ekki missa af...