Biðla til stjórnvalda um að þrengja ekki frekar að viðburðarhaldi

„Við­burða­iðnaðurinn á Ís­landi hefur tekið á sig gríðar­legt högg í heims­far­aldrinum og al­gert lífs­spurs­mál er fyrir tón­listar­fólk og skemmti­krafta að komast aftur upp á svið og vinna vinnuna sína.“

Svo segir í sameiginlegri yfirlýsingu aðstandenda skipulagðra tónleika og viðburða en þar er biðlað til stjórnvalda um að þrengja ekki frekar að á­byrgu við­burðar­haldi á næstu vikum og mánuðum. Undir yfirlýsinguna kvitta meðal annars Björgvin Halldórsson, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Ari Eldjárn, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Bubbi Morthens, Emmsjé Gauti, Friðrik Dór, Jón Jónsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Lára Sóley Jóhannsdóttir og fleiri.

Í gær greindist met­fjöldi Co­vid-smita innan­­lands þriðja daginn í röð en þau voru 200, eftir að 178 greindust í fyrra­dag og 168 daginn þar áður. Af þeim tvö hundruð sem greindust innan­­lands í gær voru 77 í sótt­kví við greiningu, eða 38,5 prósent. Utan sótt­kvíar voru 123, eða 61,5 prósent.

Í yfirlýsingu viðburðahaldara segir að ljóst sé að það muni enda með ó­sköpum ef á­fram verður þrengt að við­burðum með þeim hætti sem hefur við­gengist hingað til. Við­burðir geta farið fram með öruggum hætti, segir í bréfinu, með númeruðum sætum, grímu­skyldum og jafn­vel hrað­prófum. Þá sé bólu­setningar­hlut­fallið einnig mjög hátt nú þegar.

„Við sem hér tölum erum þess full­viss að við getum boðið fólki upp á örugga leið til þess að njóta menningar og skemmtunar á skipu­lögðum sitjandi við­burðum, í um­hverfi sem er ger­ólíkt sam­komum þar sem margir koma saman án sér­staks eftir­lits,“ segir í til­kynningunni.

„Að því sögðu er það um­hugsunar­vert að yfir­völd hér á landi geri við­burðar­hald erfiðara og flóknara í fram­kvæmd hér en víða í ná­granna­ríkjum okkar, með auknum kröfum um hrað­próf, fjar­lægðar­tak­markanir og hópa­myndun. Enda­laus ó­vissa, breytingar á sótt­varnar­reglum og stefnu­breytingar gera okkur ó­mögu­legt að skipu­leggja við­burði — með til­heyrandi kostnaði, tap­rekstri, á­hættu og hreinni tíma­sóun.“

Tekið er fram að vilji sé fyrir hendi um að virða sótt­varnir og fylgja settum reglum. „En á móti viljum við að okkur sé sýnd sú virðing að dyrum menningar­lífsins sé ekki skellt enn og aftur í lás og þeir við­burðir sem þó eru í boði, innan settra reglna, séu talaðir niður af yfir­völdum og slegnir af.“

Ekki missa af...