„Bíddu, þið eruð stuðningsmenn nauðgunarmenningar“

„Við erum búin að fá núna undanfarið, finnst mér, ákveðið bakslag í umræðunni. Og ég held að ástæðan fyrir því að ég hef ekki fengið meiri leiðindi yfir mig sé einfaldlega það að það eru þarna baráttukonur sem sögðu bara: „Þóra, þú ert ein af okkur. Hvað? Hvað, hvað? Og gáfu mér kannski einhvern slaka þess vegna, því það er alveg rétt, ég hef aldrei farið með launkofa með það.“

Svo mælir Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, er hún er gestur í nýjasta þætti hlaðvarpsins Karlmennskan í umsjón Þorsteins Einarssonar og ber sá þáttur yfirskriftina Hreinsunareldur sem brenndi þolendur. Þetta er bein vísun í titil þáttarins sem ber heitið „Hreinsunareldur Þóris Sæmundssonar.“

Í kjölfar þáttarins hafa þolendur stigið fram í bylgjum á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega á Twitter. Þóra tók þar vægast samt umdeilt viðtal við Þóri sem var á sínum tíma rekinn úr Þjóðleikhúsinu eftir að hann varð uppvís af því að senda typpamyndir af sér. Í viðtalinu lýsti Þórir sér sjálfur sem fórnarlambi.

Líkt og frægt er orðið var Þórir rekinn úr Þjóðleikhúsinu fyrir að senda typpamyndir á ólögráða stúlkur. Viðtalið snerist þó að miklu leyti um viðtal Þóris við DV árið 2017. Í því viðtali viðurkenndi hann að allar sögusagnirnar um hann, sem þá fóru eins og eldur í sinu, væru sannar. Viðtalið er ítarlegt en þar fór Þórir yfir víðan völl og viðurkenndi að vera kynlífsfíkill. 

Þegar Þóra er spurð hvers vegna ákveðið hafi verið að gera einhliða illa ígrundaða og meingallaða umfjöllun um ofbeldi sem málaði hóp þolenda sem gerendur segir hún þau sannarlega hafa fengið miklar þakkir fyrir að opna á erfiða umræðu, en líka miklar skammir og að gagnrýnin sé að mörgu leyti réttmæt. „Ég get bara sagt að mér þykir þetta mjög leiðinlegt,“ segir Þóra.

„Hingað og ekki lengra“

Viðtalið áðurnefnda í DV birtist undir lok árs 2017 en þá höfðu sögusagnir um Þóri gengið fjöllum hærra í nokkra mánuði. Þá skein frægðarsól hans hvað skærast. Veturinn áður lék hann Badda í Djöflaeyjunni og sýningar voru nýhafnar á Í hjarta Hróa hattar þar sem hann lék titilhlutverkið.

Þóri hafði tekist að forðast umfjöllun fjölmiðla með því að um mál sitt en þegar Ari Matthíasson, þá Þjóðleikhússtjóri, sagði honum upp í nóvember 2017 var öllu því snúið við. Ber að geta að þegar Ari sagði Þóri upp störfum hafði hann þá áður fengið aðvörun fyrr um árið.

Þóra segir að á tímum fyrir fyrstu bylgju #metoo hafi frásagnir þolanda verið stakar og óljóst hvaða viðbrögð þolendur myndu fá við frásögnum sínum. Nú hafi unga kynslóðin, í krafti fjöldans, sýnst samstöðu og sagt „Hingað og ekki lengra.“

Þá bendir Þóra á að það sé hægt að vera gerandi á svo margan hátt án þess að brjóta lög, og það sé vert að skoða hvar þau mörk liggja.

„Ég er gallharður femínisti en það er líka mín ábyrgð þegar maður stýrir svona miðli að horfa á heildarmyndina og það sem ég hef séð undanfarið er að þú ert með hóp í samfélaginu sem segir:
„Þið þarna öfgafemínistar, þið viljið bara taka menn af lífi án dóms og laga“. Og á móti kemur: „Bíddu þið eruð stuðningsmenn nauðgunarmenningar“. Og hverju skilar þetta samfélaginu? Það er stóra spurningin.“

Þáttinn má nálgast í heild sinni að neðan.

Ekki missa af...