„Ótrúleg breyting: Frá barnakoju í baðinnréttingu – sjáið myndirnar!“

Það er bæði gott fyrir sálina og umhverfið að endurnýta það sem til er á heimilinu eða notuð húsgögn á nytjamörkuðum í stað þess að henda og kaupa nýtt. Það finnst mér allavega. Ég breytti barnakoju til dæmis í baðinnréttingu!

Innréttingin sem var áður samanstóð af tveimur skúffum og speglaskáp. Ég á mjög erfitt með að halda skúffum skipulögðum og sérstaklega inni á baðherbergi. Ekki veit ég hvað það er!

Einn daginn var ég að velta fyrir mér hvernig barnarúm ég ætti að kaupa fyrir syni mína. Kojan var óþarflega stór og klunnaleg inn í herbergið þeirra. Ég hugsaði með mér þegar ég var að taka kojuna í sundur hvað þetta væri nú flottur viður og hvort ég gæti mögulega gert eitthvað úr honum. Bingó, þá kviknaði á ljósaperunni.

Eins og sést er varla hægt að skipta um skoðun þarna inni fyrir plássleysi. Ég mokaði þessu öllu út án þess að vera búin að sjá niðurstöðuna fyrir mér, enda aldrei gert þetta áður. Mér fannst sérstaklega skemmtilegur sigur að ná að aftengja klósettið og vaskinn rétt.

Ein spurning áður en lengra er haldið sem ég þrái að fá svar við….

Af hverju eru þvottavélar ekki framleiddar með handföngum fyrst að þær eru svona hrikalega þungar? Er ekkert gert ráð fyrir að fólk haldi á þessum hlussum? Ég röfla þessa spurningu í hvert sinn þegar ég þarf að fá aðstoð eða aðstoða aðra við að brölta þessu á milli staða. Ég yrði fyrsti kúnninn til að kaupa þvottavél með handföngum!

Skúffurnar tvær hægra megin voru í raun ein skúffa því hún varð að hafa það hlutverk að hýsa óhreinatauið því ég gat hvergi haft það annars staðar. Einnig opnaðist hurðin inn á baðherbergið inn og þar var ég í kremju að setja í- eða taka úr vélinni.

Ég þurfti að hringja í rafvirkja til að færa innstunguna fyrir þvottavélina niður fyrir borðplötuna (ef það er eitthvað sem ég kem ekki nálægt þá er það rafmagn). Ég hefði aldrei vanist því að snúran af þvottavélinni kæmi upp úr borðplötunni og að auki hefði ég þurft að bora gat á hana. Þar sem ég keypti borðplötuna nýja þá kom það aldrei til greina. Í leiðinni bætti rafvirkinn annarri innstungu við sem er hægt að nota ofan á borðplötunni. Að mínu mati er nauðsynlegt að hafa innstungur á baðherbergjum þær virðast vanta allt of oft. Ég verð að geta haft tölvuna eða símann í hleðslu inni á baðherbergi, haft notalegar seríur eða lampa og blásið á mér hárið.

Ef einhver veltir fyrir sér hvað sé erfiðast við baðherbergisframkvæmdir þá er svarið einfalt: Að þurfa að halda á gömlu, notuðu klósetti niður stigagang og koma því á haugana.


Ég tók enga sénsa á að klósettið færi að veltast á leiðinni í tómum vinnubílnum svo ég lét fara vel um mig.

Ég lét setja rakavörn út í málninguna til að verja veggina að einhverju leiti fyrir bleytu og raka. Það varð að duga í bili þangað til ég gæti flísalagt sturtuveggina einn góðan veðurdag!

 

Hrafnagrár er einn af uppáhaldslitunum mínum frá Slippfélaginu. Ég var því ekki í neinum vafa um að hafa veggina í þeim lit. Þrátt fyrir að dökkir litir á veggjum virðast minnka lítil rými vildi ég hann samt. Hrafnagrár inni á baðherbergi hljómaði bara of vel og ég sá ekki eftir því. Ég var einnig með alla veggi í stofunni í þeim lit. Mér persónulega finnst dökk baðherbergi fallegri og notalegri en að hafa þau skjannahvít og björt en það er bara ég.

Það var ótrúlega gaman að búa til hurðirnar á innréttinguna þar sem viðurinn varð silkimjúkur eftir allt pússið. Ég brenndi síðan viðinn en til þess nota ég brennara (gaskút með mjóu stykki sem ég veit ómögulega hvað heitir). Byrja á að skrúfa frá gasinu og legg kveikjara að stykkinu og þá kviknar blár eldur. Það er örugglega hægt að nota eitthvað annað líka. Við eldinn myndast þetta brúna “rustic lúkk” sem mér finnst svo ótrúlega flott og fæ ekki nóg af! 

Glært lakk setur síðan lokapunktinn yfir i-ið.

Ég ákvað að láta hurðirnar opnast eins og hlera frekar en á hefðbundinn hátt. Svoleiðis nýtist plássið inni í skápunum betur og kemur útlitslega séð betur út að mínu mati.


Stór karfa fyrir óhreina þvottinn smellpassaði í hægri skápinn. Ég festi körfuna við hlerann þannig að hún kemur með út þegar skápurinn er opnaður. Mjög þægilegt. Ég kýs að hafa allt dótið sem geymist inni á baðherbergi í sætum körfum eða kössum á vegghillum frekar en í lokuðum skápum til að forðast óþarfa drasl.


Stiginn úr kojunni kemur svo krúttlega út á veggnum sem skrauthilla.

Ég er algjör sökker fyrir þessu rustic, brennda, viðar lúkki. Brúni liturinn fer svo vel við litinn á veggjunum í bland við grænan, fölbleikan, svartan, gráan og þessa jarðliti sem ég elska. Svo er flott að láta einhvern lit poppa áberandi upp úr hinum. Gott dæmi um það er appelsínuguli liturinn á Trainspotting plakatinu mínu.

Veggofnar eru ekki flottir en þeir eru nauðsynlegir ef það er ekki hiti í gólfinu og/eða handklæðaofn.

Hillan sem ég setti til að hylja veggofninn er brennd alveg í kolamola. Miklu meira en ég brenndi innréttinguna. Kemur hrikalega vel út að mínu mati. Eftir brennsluna þarf að nudda viðinn með vírbursta og þá myndast æðarnar í viðnum. Síðan þarf að þurrka sótið allt af með rakri tusku áður en hillan er lökkuð. Þegar því er lokið erum við að tala saman!

Þetta er ótrúlega ódýr og flott lausn.

Hvernig er svo hægt að geyma handklæði öðruvísi en með skápum og húsgögnum? Pinterest var ekki lengi að gefa mér hugmyndina…

…þetta kom ótrúlega vel út. Til að festa þetta á vegginn kíttaði ég, með sterku kíttislími á endana. Ég notaði kúst upp við vegginn til að þrýsta á og halda þessu kyrru á meðan kíttið þornaði yfir nóttina. Virkilega þægilegt að grípa í handklæði standandi í baðkarinu!

Harmonikkuhurð. Kannski ekki sú sterkasta en almáttugur hvað þetta er mikil snilld! Þær eru til í Bauhaus og kostar alls ekki mikið. Hægt er að stytta hana bæði á breidd og hæð sem ég gerði og var það lítið sem ekkert mál.

Ég reif allan hurðarkarminn af og bæði múraði og sparslaði í hurðargatið áður en hún fór á.
Hvílíkt pláss sem myndaðist við að losna við hurðina og ég í sjöunda himni með þetta allt saman!

Ég vildi alls ekki losna við baðkarið mitt. Það er alveg frekar lúið en gerir sitt gagn ennþá. Margir spyrja mig af hverju ég geri ekki bara sturtubotn og stóra sturtu eins og flestir gera í dag. Svarið við því er einfalt: því ég er algjört baðkarsfrík!

Þetta var ein stærsta áskorun sem ég hef tekist á við en virkilega skemmtilegt óvissuverkefni. Ég kemst yfirleitt langt á þrjóskunni sem er aðeins of mikið af. Ef ég ætla mér að gera eitthvað, þá skal það takast!

-Greinin er hvorki kostuð né unnin í samstarfi-

Um höfundinn:

Helena er expert múltí-tasker með hugvit, húmor og hörkuna upp á 10 og botnlausan hugmyndabanka í stíl. Hún reddar DIY liðnum á 24 og er lykilhönnuðurinn á bak við Stúdíó 24. 

Falleg heimili og umhverfi þeirra eru hennar helsta áhugamál og undir það falla meðal annars sniðugar lausnir, heimilisskipulag, húsgögn, þægindi og leysa úr lúxusvandamálum.

Ekki missa af...