Bann á lausagöngu manna

Brynjar Níelsson skrifar:

Við Soffía frænka erum ákaflega ólík og nánast aldrei sammála um nokkurn skapaðan hlut. Eitt erum við þó sammála um en það er að halda ekki gæludýr. Frekar tækjum við börn í fóstur, sem geta þó verið óttaleg óargadýr. Okkur þykir samt vænt um hunda og ketti og ekki síst fuglana. Og okkur þykir enn vænna um akureyringa.

Ég skil ekkert í akureyringum að ætla að banna köttum að ganga um bæinn. Rökin eru þau að meirihluti bæjarbúa vilji það og þeim fylgi skítur og þeir drepi fugla. Með sömu rökum gætu þeir bannað lausagöngu manna. Mönnum fylgir meiri sóðaskapur en öðrum auk þess sem þeir drepa fleiri fugla en nokkuð annað dýr. Akureyringar gætu örugglega fengið stuðning frá Þórólfi og Svandísi fyrir slíku banni.

Svo má benda á að kettir hafa gengið lengur lausir á Akureyri en meirihlutinn sem vill banna þeim það. Við verðum að sætta okkur við að kettir, og reyndar hundar líka, eru hluti af mannlegu samfélagi og hafa verið svo lengi sem elstu menn muna. Eini vandinn er að sum okkar hugsum ekki nægileg vel um þessi dýr, sem kann að vera skýringin á uppákomum eins og þessum.

Eftir // Brynjar Níelsson – Höfundur er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður

Ekki missa af...