Bandarískur og syngur Vor í Vaglaskógi – „Þetta er svo svalt lag, ég varð að læra það“

„Þetta var áskorun til að byrja með, sérstaklega framburðurinn,“ segir Preston Scoggins, sautján ára nemandi í Flórída um ábreiðu sína af Kaleo laginu Vor í Vaglaskógi. Ábreiðuna setti hann á YouTube rás sína í gær. Rásina hefur hann haft síðan hann var í áttunda bekk. Hann hefur gert ábreiður af ýmsum lögum en þetta er fyrsta lag hans á öðru tungumáli en ensku.

Hljómsveitin Kaleo gaf út ábreiðuna árið 2013. Frægasta útgáfa lagsins þar á undan kom út á plötu Hljómsveitar Ingimars Eydal árið 1966. Þar söng Vilhjálmur Vilhjálmsson lagið. Kvæðið samdi Kristján frá Djúpalæk og Jónas Jónasson samdi lagið.

VARÐ AÐ SKORA Á SIG

Preston segir í samtali við 24 að hann hafi lengi hlustað á lagið en ákveðið að skora á sig með að gera ábreiðu af því. „Ég hafði aldrei gert neitt svona áður. Þetta var áskorun en ég gerði það líka bara af því að getta er svo svalt lag, ég varð að læra það.“

Textinn vafðist þó aðeins fyrir honum.

„Sérstaklega framburðurinn. En ég æfði mig bara meira og svo varð það bara sjálfsagt fyrir mig að segja orðin. Mér finnst þetta fallegt tungumál.“

Hann reyndi að beinþýða textann en það hjálpaði ekki til með að skilja lagið.

„Þetta er svona ljóðrænt á þann hátt að það er erfitt að þýða. En ég er nokkuð viss um að lagið sé um fallegt vor í skógi.“

Preston segist hafa byrjað að syngja áður en hann byrjaði að tala og er búinn að læra á gítar í fjögur ár. Hann hefur ekki stundað söngnám.

Ekki missa af...