Atli Fannar breytir um takt – Níu pör opna líkamsræktarstöð: „Ég byrjaði allt of seint í þessu“

Fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason er einn af stórum hóp fólks sem ætlar að opna líkamsræktarstöð í Skógarhlíðinni í Desember. Stöðin mun heita Afrek Functional Fitness.

„Við erum níu pör sem stöndum að þessu,“ segir Atli Fannar í samtali við 24. „Innan hópsins er fólk sem hefur látið sig dreyma um þetta í nokkur ár og fyrir tveimur árum ákváðum við að kýla á þetta. Svo kom COVID-faraldurinn sem stoppaði eiginlega húsleitina en við erum komin á fullt núna.“

hópmynd f utan afrek
Þetta fríða föruneyti er að stofna nýja líkamsrækt / Aðsend

„Við höfum fengið bara fáránlega góð viðbrögð við þessu,“ heldur Atli áfram. „Fólk virðist vera mjög spennt fyrir þessu.“

Fjölmiðlaferillinn heldur áfram

Atli Fannar kveðst þó ekki vera hættur í fjölmiðlum. „Þetta verður hliðarverkefni hjá okkur flestum. Í hópnum eru þjálfarar, lögmenn, markaðsfólk, alls konar. Við höldum allavega flest áfram með það sem við erum að vinna við núna.“

Atli Fannar hefur verið verkefnastjóri samfélagsmiðla hjá Ríkisútvarpinu síðan í september 2019. Hann vakti mikla athygli með stofnun Nútímans árið 2014. Hann seldi miðilinn árið 2018 og hóf störf hjá Hugsmiðjunni. Hjá RÚV var hann einnig hluti af teyminu í Vikunni með Gísla Marteini og Berglind Festival, þar var hann með liðinn Fréttir vikunnar með Atla Fannari.

mynd af atla fannari
Atli hefur komið víða við á íslenskum fjölmiðlamarkaði

„Allt þetta helsta á boðstólum“

Búið er að stofna Facebook hóp þar sem stofnendur halda væntanlegum ræktargestum upplýstum um stöðu stöðvarinnar. „Í fyrstu við verðum með einn rúmgóðan sal, sem leyfir okkur að leika okkur á allskonar vegu,“ skrifar Gústaf Halldór Gústafsson í færslu á hópnum. „Ketilbjöllur, stangir, handlóð, kaðlar og ýmislegt fleira verður í boði.“

Samkvæmt Gústafi verður áhersla á hagnýta hreyfingu (e. functional fitness). „[Markmiðið] er að þið fyrst og fremst hreyfið ykkur vel og að æfingarnar nýtist ykkur í daglegu lífi.“

Atli hefur sjálfur verið að stunda líkamsrækt af öllu tagi síðustu ár. „Já ég er búinn að vera í crossfit núna í nokkur ár og hef bara verið að æfa alls konar,“ segir hann við blaðamann. „Ég byrjaði allt of seint í þessu, byrjaði að æfa reglulega 27 ára gamall en ég er búinn að vera algjörlega háður þessu síðan þá.“

Hægt er að fylgjast með framkvæmdum og frekari upplýsingum á Instagram síðu Afreks.

Ekki missa af...