Átakanlegur grátur nísti hjarta þeirra: „Ekki meiða pabba minn“

„Öll börnin voru nú farin að gráta hástöfum, hljóðin úr þeim voru átakanleg og nístu hjarta okkar.“
Þetta segir einn snjallasti pistlahöfundur landsins, Jón Óðinn Waage, í pistli á 24. Jón Óðinn er fyrrverandi lögregluþjónn og opnar sig um fyrsta útkallið þar sem börn urðu vitni að skelfilegu ofbeldi og áfengisneyslu. Útkallið átti sér stað á Gamlárskvöld á Norðurlandi.

Þegar lögregluþjónarnir komu að húsinu stóðu útidyrnar opnar. Út úr húsinu barst mikið háreysti.og þeir fóru inn. Jón Óðinn lýsir því sem fyrir auga bar.

„Á stofugólfinu veltust tveir menn um í átökum, báðir blóðugir. Eiginkonur þeirra stóðu hjá og æptu á þá um að hætta. Öldruð móðir annars mannsins sat niðurbrotinn í stofusófanum og hélt á kornabarni sem hágrét í fanginu á henni.“

Foreldrar hins ofbeldismannsins voru líka á svæðinu, öldruð og tóku ítrekað þátt í átökunum, ekki til að stilla til friðar, heldur til að aðstoða son sinn við að berja á andstæðingi sínum.

Jón Óðinn segir mörg bön hafa verið á svæðinu, mörg innan við fermingu og önnur á leikskólaaldri.

„Sum voru sem lömuð af skelfingu, önnur reyndu að grátbiðja feður sína um að hætta.“
En ekkert dugði. Jón Óðinn sem er júdókappi og kennir þá íþrótt við góðan orðstír hélt öðrum karlmanninum niðri. Á meðan tóku félagar hans á andstæðingi hans og reyndu að halda honum niðri. Reyndist það erfitt þar sem foreldrarnir réðust með heift á félaga hans.

„Framkoma gamla fólksins gerði illt verra, sonur þeirra æstist allur upp og það gerði konan hans líka þegar reynt var að hafa hemil á gömlu hjónunum,“ segir Jón Óðinn og bætir við:

„Svo var það barnsgráturinn, öll börnin voru nú farin að gráta hástöfum, hljóðin úr þeim voru átakanleg og nístu hjarta okkar. Þetta var ekki sú fjölskylduskemmtun sem þau höfðu vonast eftir.
Eftir nokkra stund tókst lögreglumönnunum loks að færa ofbeldismennina í járn. Þegar svo Jón Óðinn var á leið með manninn út í bíl var hann stöðvaður af barni, telpu og var hún dóttir mannsins sem Jón var á leið með í járnum út í lögreglubíl.

„Í forstofunni stóð lítil stúlka. Hún var í náttkjól og hélt krampakenndu taki um bangsann sinn með annarri hendi. Litla stúlkan horfði á mig grátbólgnum augum, hún teygði fram lausu höndina til mín og sagði skjálfandi röddu:


„Ekki meiða pabba minn.“


Hér má lesa pistil Jóns Óðins í heild sinni

Ekki missa af...