Aska hans lögð á góðan stað í íslenskri mold

Anna Kristjánsdóttir skrifar:

Dagur 806 – Dagbók frá Tenerife

Ég get ekki annað en fyllst aulahrolli þegar ég heyri auglýsingar fyrirtækja þessa dagana að þau séu framúrskarandi að mati Lánstrausts hf eða Credit Info. Ekki síst í ljósi þess að þau hafa skilað ársreikningum sínum á réttum tíma. Er það virkilega svo að það eitt að skila ársreikningum á réttum tíma sýni að fyrirtækið sé framúrskarandi? Hvað þá um öll hin fyrirtækin?

Eru virkilega svona mörg fyrirtæki sem gera það ekki? Það væri gaman að vita hvaða önnur skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að fyrirtækið geti talist framúrskarandi. Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem standa sig ekki gagnvart viðskiptavininum lendi í í þessum framúrskarandi hópi eða eru jafnvel alvarlega grunuð um svindl og svínarí og eru ofarlega á listanum?

VÆRI EKKI NÆR AÐ SNÚA ÞESSU VIÐ?

Ég fór að brjóta heilann í gærkvöldi, ekkert alvarlegt, enda er heilinn ekkert brothættur, en samt. Hann gæti skaddast af öllum þessum heilabrotum.

Það komu þrír farmar af Íslendingum til Paradísar í gær og grunar mig að það komi tveir farmar í dag, þ.e. einn frá Keflavík og annar frá Akureyri. Að minnsta kosti hélt Neos vélin héðan beint til Akureyrar, væntanlega til að sækja nýjan farm. Svo má deila um það hvort einhverjir

Íslendingar séu yfirleitt eftir á Íslandi, hvort Ísland sé ekki að breytast í Litla-Pólland á meðan allir Íslendingarnir eru á Tenerife að drekka Dorada og skemmta sér? Mér líkar vel við Pólverja svo ekki eru þeir áhyggjuefnið, frekar aukning kórónuveirusmita á Íslandi. Það eru fimmfalt fleiri nýsmit á Íslandi en í Paradís sé miðað við fólksfjölda. Svo heyri ég talað um að herða eftirlitið með komu ferðamanna til Íslands til að koma í veg fyrir aukningu smita.

Væri ekki nær að snúa þessu við, auka eftirlitið með þeim sem eru að fara úr landi?

Íslendingarnir koma jafnvel hingað og smita allt og alla og valda stóraukinni tíðni smita hér á litlu sætu eyjunni minni. Svandís mín Svavarsdóttir, geturðu ekki lagt til útflutningsbann á Coviðsmitaða Íslendinga svo við hin sleppum við þá svo ekki sé talað um mengunina sem af þeim hlýst, enda koma næstum allir fljúgandi hingað uppfullir flugviskubits.

GUÐNI HÉLT TIL ÍSLANDS Í GÆR

Af henni Diddu sem þurfti að yfirgefa okkur um daginn vegna veikinda er það helst að hún er öll að koma til betri heilsu. Þetta voru innri blæðingar sem orsökuðu að hún var orðin svona máttfarin, en sem betur fer tókst að stöðva þær eftir að á sjúkrahús á Íslandi var komið. Hlakka til að sjá hana aftur í Paradís.

Þá heyrði ég að Guðni Már Henningsson félagi minn hefði haldið til Íslands í gær í fylgd dóttur sinnar og tengdasonar. Þetta var hans síðasta flugferð og verður aska hans væntanlega lögð á góðan stað í íslenskri mold.

Þegar ég fer yfir á annað tilverustig, má alveg hella öskunni af mér í hafið á milli Tenerife og La Gomera, en ég heimta skemmtilega minningarathöfn þar sem allir gestirnir fara út með bros á vör, enda grátur bannaður á mínum efsta degi.

Ég ætla samt hvorki að nefna Sigríði Guðmarsdóttur né Davíð Þór Jónsson til að flytja hinstu kveðjuna enda verða þau væntanlega bæði löngu komin á eftirlaun áður en ég kveð þetta jarðlíf.

Eftir // Önnu Kristjánsdóttur.

Ekki missa af...