Ár frá árás á þinghús Bandaríkjanna – hvað gerðist?

Heimurinn leitaði logandi ljósi að einhverju jákvæðu í byrjun árs 2021. Hinn vestræni heimur telur áramótin desember og janúar jafnan vera tímabil nýrra byrjana. Fólk strengir nýársheit og lofar sér að verða betri manneskja, allavega fyrstu mánuði nýs árs.

Fyrra ár var gríðarlega óvinsælt á allan mögulegan mælikvarða. Það þarf ekki endilega að telja upp allar mögulegar ástæður þess, en heimsfaraldurinn litaði ásýnd fólks nokkuð dökka.

Mörg vilja einfaldlega að það ár, hið herrans ár 2020, verði einfaldlega þurrkað úr sögunni. Ekkert marktækt gerðist og allt var ömurlegt. 2021 skyldi verða ný byrjun.

Svo réðst hópur fólks inn í þinghús Bandaríkjanna og ógnaði lýðræði eins stærsta ríkis heims.

Skiptar skoðanir eru á alvarleika þessa dags. Sum vilja meina að einhver tugur fólks að róta um skrifstofur og stelandi þingpúltum sé ekkert stórmál. Hin, sem heyrðu múginn kalla eftir því að hengja þingmenn eða skjóta þá í hnakkann á tröppunum í beinni útsendingu hugsa að málið sé aðeins alvarlegra.


LANGUR AÐDRAGANDI

Það þarf ekki að verja mörgum orðum í framkvæmd kosninganna í Bandaríkjunum í nóvember árið 2020. Joe Biden vann og Donald Trump tapaði. Demókratar áttu að vinna stórsigur bæði í öldungadeild og á þingi en lítill munur varð á öldungadeild og Repúblikanar bættu við sig á þingi.

Aðdragandi kosninganna einkenndist aðallega af aðgerðum til að auka eða hindra kosningarétt. Bandaríkin eru vissulega fimmtíu og það er engin yfirkjörstjórn. Kjörstjórn og atkvæðalög eru í höndum hvers og eins ríkis. Þetta þýðir að í einu ríki geta verið örfáir kjörstaðir þar sem ólöglegt er að gefa fólki sem bíður í röð klukkustundum saman vatnsbrúsa. Í öðru ríki gæti verið allt annað uppi á teningnum.

Þrátt fyrir þetta var stór aukning í kosningaþátttöku. Hún hafði ekki verið meiri síðan árið 1964 og ýmis önnur met voru slegin. Bæði Joe Biden og Donald Trump komst yfir þann metfjölda atkvæða sem Barack Obama hlaut árið 2008, rúm 69 milljón atkvæði. 81 milljónir Bandaríkjamanna völdu Biden, 74 milljón manns vildu Trump.

Ekki eru allir á sama máli um að Biden hafi sigrað í kosningunum.

Eitthvað sem efldi ef til vill þátttökuna var eitthvað sem reyndist eitt stærsta vopn í búri Repúblikana; atkvæði sem send voru í pósti.

Slík kosning hefur verið við lýði í árafjölda og ríki í Bandaríkjunum voru löngu búin að innleiða þennan möguleika. Til að mynda eru fimm ríki sem reiða nærri því algjörlega á póstatkvæði í öllum sínum kosningum – Colorado, Washington, Hawaii, Utah og Oregon.

Vegna heimsfaraldursins var því við búist að umfang póstatkvæða myndi stækka. Í bland við að auka þátttöku þá varð þetta eitt af hitamálunum sem Trump og hans stuðningsmenn notuðu til að draga úr réttmæti kosninganna.


TRUMP Í LÁS

Ef kosningasvindl hefði verið staðfest af einhverju stigi dóms Bandaríkjanna eða af óháðum eftirlitsstofnunum úti í löndum hefði Donald Trump líklegast talist nákvæmasti spámaður okkar tíma. Hann nefnilega talaði fyrir því að kosningunni yrði stolið af sér löngu áður en gengið var til kjörstaðar.

Hann var handviss um að Demókratar myndu nýta sér póstatkvæði til að svindla á einhvern hátt. Stuðningsmenn hans um land allt sem og þing- og öldungadeildarþingmenn hliðhollir honum voru ekki lengi að taka því sem heilögum sannleika. Í takt við Minority Report var búið að tilkynna glæpinn og refsa fyrir áður en hann átti sér stað.

Trump hélt fram kosningasvindli fyrir, á meðan þeim stóð, og eftir kosningar.

„Þessar kosningar munu fara í sögubækurnar sem gerspilltustu kosningar í bandarískri kosningasögu,“ er svo haft eftir Trump að talningu lokinni. Fyrir, á meðan og eftir kosningar hélt hann því fram að hann hafi ekki tapað. Enn fremur hafði hann lengi haldið því fram að hann myndi virða niðurstöður kosningarinnar að vettugi – ef þær færu honum ekki í hag.

Slík orðræða dreifði úr sér eins og eldur um sinu. Ekki hjálpaði til að hann hélt ennþá stóra kosningafundi þar sem hann hélt áfram að básúna hugmyndum sínum um skipulagt kosningasvindl Demókrata.

Þann 6. janúar komu þingin saman til að staðfesta kjörmenn hvers og eins frambjóðanda. Þetta er aðallega formlega gert, það er í raun engin þörf á þessu sem heilli athöfn.


KYNT UNDIR LÝÐNUM

Viðbúnaður lögreglu fyrir framan þinghúsið var mikill. Girðingar og hindranir voru settar upp alls staðar í kringum bygginguna.

Fjölmennur fundur var skipulagður af hinum og þessum hópum hliðhollum Trump. Að honum loknum fór fólk af stað og réðst inn í bygginguna.

Það að setja sökina alfarið á Trump er ef til vill ekki alveg rétt. Hann á klárlega réttinn á allri orðræðunni sem kveikti eld undir stuðningsmönnunum sem réðust inn en það voru fleiri sem hjálpuðu til. Þingmenn eins og Madison Cawthorn og Matt Maddock, sjónvarpsfólk eins og Kimberly Guilfoyle og Alex Jones, teymisfólk Trump eins og Michael Flynn og Roger Stone, lögðu öll orð í belg á þessum fundi.

Trump og hans liðar kyntu vel undir lýðnum á löngum og fjölmennum fundi. / Mynd: Getty Images

Orðræða þeirra einkenndist af baráttuköllum og stríðsöskrum. Fólk yrði að vernda lýðræðið og landið, vernda lögin, láta Demókrata ekki komast upp með þennan glæp. Enginn veikgeðja maður getur tekið landið sitt til baka.

Enginn sagði hreint út að ráðast inn í þinghúsið og taka lögin í eigin hendur. Það er lykilatriði í vörninni.

Trump sjálfur mælti síðastur og hélt áfram í sama streng. Vernda, taka aftur til baka, veikleiki. Hann byrjaði að tala rétt fyrir klukkan tólf að hádegi og talaði í rúman klukkutíma. Svo mikil spenna var í hópnum að um átta þúsund manns voru byrjuð að þramma í áttina að þinghúsinu áður en hann lauk máli sínu.


ÁRÁSIN SJÁLF

Maður með vetrarhúfu heldur á púlti og veifar til ljósmyndara. Maður í einhvers konar galdramannabúning með stríðsmálningu og ber að ofan, öskrar eitthvað óskiljanlegt frá gólfinu. Ung kona brýst inn á skrifstofu Nancy Pelosi og hefur af henni fartölvu og reynir svo að selja hana til Rússlands. Roskinn karlmaður lætur taka mynd af sér í stól Pelosi með báða fætur uppi á borði.

Múgurinn var duglegur að bæði taka og deila myndum af sér á meðan árásin átti sér stað.

Þetta eru skondnu og fjarstæðu lýsingarnar sem við fengum að heyra þegar fyrstu fregnir bárust.

Það sem kom í ljós ekki svo mikið síðar var ekki eins skondið. Öll þessi hróp og köll um hengingar og annars konar aftökur voru ekki úr lausu lofti gripnar. Það er ekki hægt að alhæfa yfir allan skarann, en þar á meðal voru einstaklingar sem mættu með það á dagskránni að úthella blóði á tröppur þinghússins.

Á listanum var, ótrúlegt en satt, Mike Pence, varaforseti Trump. Á fundinum hafði Trump biðlað til Pence að nýta vald sitt til að ógilda kosningarnar. Slíkt vald er ekki í höndum varaforseta, svo það sé á hreinu.

Pence hafði nefnilega haldið því fram að hann myndi virða niðurstöður kosninganna og staðfesta það sem staðfesta þurfti í þessari formlegu yfirfærslu á kjörmannaatkvæðum. Það féll ekki í kramið.

Múgurinn komst alla leið inn í þingklefa og hreiðraði um sig þar. / Skjáskot: Streymi þinghússins

Alríkislögreglan telur að um tólf hundruð manns hafi komist inn í bygginguna. Lögreglumönnum var ógnað en margir hverjir náðu annað hvort að halda múgnum frá nógu lengi til að fólk gat flúið í öruggt skjól, eða afvegaleiddi þá í svæði byggingarinnar þar sem engan var að finna.

Múgurinn komst því ekki að neinum þingmönnum en komust inn í þingklefann sjálfan. Greipum var einnig sópað um tómar skrifstofur og ræðuklefa.


MANNFÖLL OG AFLEIÐINGAR

Margir mótmælendur mættu vopnaðir til átakanna. Byssur, hnífar, barefli og axir voru bara á meðal fárra sem fólk tók með sér. Lögreglumenn skutu á mótmælendur sem reyndu að brjótast inn í rými þar sem þingmenn voru staðsettir. Einn mótmælandinn var 35 ára gömul kona að nafni Ashli Babbitt. Gluggi á einni hurð inn í salinn var brotinn og hún reyndi að klifra í gegn. Lögreglumaður skaut hana til bana.

Lögreglumaður að nafni Brian Sicknick fékk piparúða í andlit og fékk heilablóðfall daginn eftir. Hann lést einnig.

Einn mótmælandi lést úr of stórum skammti af amfetamíni.

Fjórir lögreglumenn féllu fyrir eigin hendi dögum og vikum eftir árásina.

Um þrettán hundruð manns fengu ákærur fyrir þátttöku sína. Ákærurnar eru af öllu mögulegu tagi en helst er refsað fólki fyrir að hindra þingfólki að vinna vinnu sína og fyrir að fara inn á lokað svæði í leyfisleysi.

Enn þann dag í dag er verið að koma upp um fólk sem tók þátt í árásinni. Ýmist eru fjölskyldumeðlimir að benda Alríkislögreglu á það eða þau monta sig af því sjálf.

Sitt sýnist hverjum um ákærur og þá dóma sem fallið hafa. Fólk er ýmist að fá skilorðsbundna dóma eða ár í fangelsi sem eru teljandi á fingrum annarrar handar. Það fer ef til vill eftir því hvernig þú horfir á atburðina.

Annað hvort var þetta bara óreiðufólk sem fór um bygginguna og olli skemmdarverkum.

Eða, þetta var skipulagður hópur fólks sem hafði það í huga að taka þingmenn af lífi og taka yfir vald í landinu.

Ekki missa af...