Alþingi sett í dag í skjóli heimsfaraldurs – fráfallinna þingmanna minnst

Alþingi var sett í dag, á snjóþungum og köldum degi, af Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands. Langt hlé hefur verið á þinginu, en kosið var til þings þann 25. september síðastliðinn, nærri því tveir mánuðir. 

Alþingi er sett í skugga gruns um kosningasvik og því óhætt að segja að lýðræði á Íslandi megi muna sinn fífil fegurri. COVID og hertar takmarkanir bæta svo gráu ofan á svart en einungis örfáum gestum var boðið í þingsetninguna. 

Athöfnin hófst líkt og ávallt með guðþjónustu í Dómkirkjunni en það var séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju.

Þingmönnum bauðst þó að fara á athöfn Siðmenntar þar sem Bjarni Snæbjörnsson, athafnastjóri og leikari, flutti hugvekju í bland við söngatriði. Hann brýndi líka fyrir þingmönnum að haga sér vel. Hann braut þó upp erindi sitt með söngatriði, en athöfnina má sjá hér.

GAGNRÝNDI ÞINGMENN VEGNA STJÓRNARSKRÁR

Þingmenn sameinuðust svo í þingsal og hlýdd á orð Guðna Th. Jóhannesson, forseta lýðveldisins. COVID var honum ofarlega á huga en hann tók lítið fyrir efasemdir fólks um aðferðir sem hefta eiga útbreiðslu faraldursins.

„Vissulega hefur hin eina rétta leið ekki alltaf verið valin, skárra væri það nú, enda oft úr vöndu að ráða og auðvelt að vera vitur eftir á,“ sagði Guðni í ræðu sinni. 

„Þá gerist það gjarnan í vandasömum málum að einn saki annan um að vaða í villu og svíma, nenna ekki að kynna sér neitt og hlýða bara yfirvöldum í blindni og ótta — nú eða á hinn bóginn að sá eða sú sem í hlut eigi trúi aðeins á samsæriskenningar, hugsi um eigin hag en ekki heildarinnar og geri lítið úr augljósri ógn.“

Forsetinn fór um víðan völl í ræðu sinni á Alþingi í dag / Mynd: Skjáskot

Hann sagði einnig að öfgar geti fylgt frjálsum skoðanaskiptum, en að það sé gæfulegt að Íslendingar standi að mestu saman gegn faraldrinum, eða sameiginlegri vá, eins og hann orðaði það sjálfur. 

„Sú eining hefur byggst á almennri skynsemi, almennri umræðu, almennri þekkingu og almennu trausti.

Hann minntist einnig á þá óreiðu sem hefur ríkt í kringum niðurstöðu talningar í norðvesturkjördæmi. „Eftirmál urðu í einu kjördæmi og samkvæmt stjórnarskrá okkar er það í höndum Alþingis að skera úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir mikil er því ábyrgð alþingismanna nú sem endranær.“

Hann gagnrýndi einnig Alþingismenn fyrir aðgerðaleysi varðandi nýja stjórnarskrá. Hann hafði lýst þeirri von að tillögur að breytingu stjórnarskrárinnar yrðu teknar til efnislegrar afgreiðslu. „Þess í stað réðust örlög stjórnarskrárfrumvarps í einhverju nefndaherbergi hér handan Austurvallar,“ sagði Guðni.

Næst í stól var það Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, en hún hefur verið lengst á þingi allra sem þar sitja nú. 

Þorgerður fór yfir lífs- og starfshlaup tveggja þingmanna sem féllu frá í ár / Mynd: Skjáskot

MINNINGARORÐ UM LÁTNA ÞINGMENN

Þórunn Egilsdóttir

Á þessu ári féllu frá Þórunn Egilsdóttir sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og Jón Sigurðsson sem var iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra í eitt ár.

Þorgerður Katrín minntist þeirra beggja á fallegan hátt. „Er fréttir bárust hingað tíunda júlí á liðnu sumri að Þórunn Egilsdóttir alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknarflokksins einn af varaforsetum Alþingis hefði andast kvöldið áður níunda júlí á Sjúkrahúsinu á Akureyri sú fregn var óvænt,“ sagði Þorgerður.  „Þótt alþingismenn og margir aðrir hefðu fylgst með hetjulegri baráttu hennar síðan snemma árs tvö þúsund og átján við krabbamein sem lagði hana að velli langt fyrir aldur fram.“

Hún fór yfir lífs- og starfshlaup Þórunnar, en hún var menntaður grunnskólakennari og starfaði sem slíkur ásamt því að vera skólastjórnandi. Þess ber að geta að þingsetningardaginn bar upp á afmælisdag Þórunnar. Hún hefði orðð 57 ára gömul.

Hún settist fyrst á þing árið 2013 og var endurkjörin árin 2016 og 2017. Hún var ein af varaforsetum Alþingis frá árinu 2015. Hún sat í mörgum nefndum, þar á meðal Íslandsdeild NATO-þingsins, atvinnuveganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Einnig féll frá fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson. „Jón Sigurðsson var fjölmenntaður og margfróður maður og bjó yfir mikilli reynslu þegar hann kom til starfa á Alþingi,“ sagði Þorgerður. 

Jón Sigurðsson / Mynd: Alþingi

„Góður og sanngjarn í samskiptum við aðra í stjórnmálum, hreinn og beinn, vel viljaður og jafnan glaður í bragði. Hann var snjall ræðumaður og vel máli farinn. Svo fór að Alþingi naut krafta Jóns aðeins skamman tíma en hvar sem hann fór munaði um hann í íslensku viðskipta og menningarlífi.“

Ferill Jóns var einnig fjölbreyttur. Hann var lektor, skrifstofustjóri Máls og Menningar, seðlabankastjóri og forstjóri Menningarsjóðs, sagði Þorgerður í minningarorðunum.

Hann var fór í ríkisstjórn árið 2006 eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar af velli stjórnmálanna og varð svo kosinn formaður Framsóknarflokksins. Hann var iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra í eitt ár en var ekki endurkjörinn á þing. Hann sneri sér því að öðrum störfum. 

Ekki missa af...