Alma: „Ekki hægt að túlka þetta sem annað en hótun“

Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, segir það grafalvarlegt að stjórnarformaður Happdrættis Háskóla Íslands hóti stúdentum með skólagjöldum ef spilakassar hverfa á braut.

Hún vísar þar í erindi stjórnarformanns happdrættisins, Eyvindar G. Gunnarssonar, á fundi Stúdentaráðs þann 8. apríl síðastliðinn. Í erindi sínu gagnrýndi hann harðlega tillögu ráðsins um að hætta rekstri spilakassa. DV birti upptöku af erindi hans.

Auk þess að segja að skólagjöld myndu koma í stað þeirra tekna sem spilakassar hafa hingað til veitt, líkti hann spilafíklavandamálinu við alkóhólisma og gagnrýndi afstöðu Stúdentaráðs þar sem ráðið rekur meðal annars Stúdentakjallarann.

Happdrættið hefur verið starfrækt síðan árið 1933. Háskólinn hefur reist 24 byggingar með fjármagninu samkvæmt Stúdentaráði.

„Það sem er að opinberast þarna er í rauninni það sem við hjá samtökunum höfum haldið fram lengi, að menn eru algjörlega búnir að missa sjónar af upphaflegum tilgangi þessara leyfa,“ segir Alma í samtali við 24.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands sagði nýverið í samtali við Vísi að lokun spilakassa myndi ekki hafa áhrif á skólagjöld.

GERIR LÍTIÐ ÚR SPILAFÍKN

„Það er hvernig þetta er rætt, hvernig talað er um málið,“ segir Alma. „Ég myndi skilja ef við værum að hlusta á einhvern einkaaðila í rekstri fjárhættuspila, myndi sýna því annan skilning. En þetta er stjórnarformaður Happdrættis Háskóla Íslands sem þarf væntanlega að svara til menntamálaráðherra.“

Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn / Mynd: Hag

Eyvindur gaf lítið fyrir fyrri umræður fundarins þar sem reynslusögur af spilafíkn voru sagðar til að rökstyðja skaðleg áhrif þeirra.

„Við verðum að reyna að ná utan um vandann með allt öðrum hætti. Það er gríðarlega mikilvægt að skoða þetta svolítið breytt,“ sagði hann í erindi sínu. „Ekki bara segja lokum.is og koma svo með reynslusögur. Vissulega eru þarna harmleikir úti. En ég meina, ég þekki mjög marga harmleiki, andlát og fleira, dauðaslys í nærumhverfinu vegna ölvunaraksturs. Það er þannig að við verðum að bera ábyrgð á sjálfum okkur.“

Hann sagði einnig fjárhættuspil vera eitthvað sem fólk tekur þátt í af frjálsum vilja. Rekstur happdrættisins sé ekki siðferðislega óverjandi en drykkja er það ekki heldur. „Er siðferðislega verjandi að hella fólk fullt þannig að löggan þarf að fylgja því heim? Við búum í frjálsu samfélagi.“

Alma segir Eyvind gera lítið úr spilafíkn og afleiðingunum af rekstri slíkra spila. „Hann er að vísa í harmleiki vegna ölvunaraksturs. Það ætti nú að vera öllum ljóst að ölvunarakstur er með öllu bannaður á Íslandi, það er ekkert matsatriði, hefur ekkert að gera með að við búum í frjálsu landi. Ef þú ekur undir áhrifum þá er dómgreindin þín skert.“

Þetta tvennt sé því ekki samanburðarhæft.

SPILAFÍKLAR GETA EKKI VERIÐ ÁBYRGIR EF ÞAÐ ER ENGINN FRÍR HÁSKÓLI

Eyvindur sagði í erindi sínu að fjármögnunargrundvöllur skólans myndi hrynja ef spilakassar hyrfu á brott. Fjármagn frá Happdrættinu hefur verið notað í byggingu fasteigna og viðhald á þeim, hátt í 60 milljarðar króna.

„Þetta væri alvarlegt fyrir komandi kynslóðir stúdenta ef við ætlum að reyna að harka þennan pening úr fjárlögum. Okkur tækist álíka vel og Landspítalanum. Sem sagt, ekki neitt,“ sagði hann einnig. „Þetta yrði leyst á nákvæmlega sama hátt og til dæmis í HR eða annars staðar í sambærilegum stofnunum. Hvernig? Jú, einfaldlega með því að Háskólinn fengi vegna menntunar ákveðin fjárframlög og þyrfti síðan að semja við fasteignafélag sem er fjármagnað frá banka um þetta. Niðurstaðan er væntanlega sú sama, við tökum upp skólagjöld eins og HR.“

Eyvindur G. Gunnarsson er stjórnarformaður Happdrættis Háskóla Íslands / Mynd: Kristinn Ingvarsson

Alma er ósátt við þessa athugasemd Eyvinds.

„Ég get ekki betur skilið en að hann sé að hóta stúdentum skólagjöldum sem er engin stoð fyrir í lögum. Það er eitthvað sem ríkisstjórnin þarf að fjalla um og taka fyrir. Spilafíklar á Íslandi geta ekki verið ábyrgir fyrir því að við getum ekki boðið upp á frían háskóla.“

Hún segir það skýrt að Happdrættinu er ekki treystandi fyrir þessum rekstri. „Þetta er ekki nauðsynjavara eins og brauð eða smjör sem fólk hefur val um að versla eða ekki. Það ætti að vera öllum ljóst að bróðurparturinn af þessum tekjum er að koma frá spilafíklum, menn hafa bara ekki haft áhuga á að ræða það.“

HEFÐI VILJAÐ SJÁ LAUSNIR

Í ályktun Stúdentaráðs um fundinn kemur fram að það séu vonbrigði að svo mikill kostnaður er greiddur með happdrættisfé. Eins og kemur fram í ályktuninni;

„Það eru vonbrigði að yfirvöld líti svo á að það hvíli endanleg ábyrgð á HHÍ á að sinna
húsnæðismálum Háskólans og telur Stúdentaráð að það sé löngum kominn tími á að það
viðhorf breytist. Án HHÍ hefði þörf og mikilvæg uppbygging Háskóla Íslands ekki raungerst
og er það eitt og sér næg ástæða fyrir stúdenta til að setja spurningamerki við starfsemina
og afstöðu bæði Háskólans og stjórnvalda.“

Alma tekur í svipaðan streng og vildi önnur svör frá forsvarsmanni Happdrættisins.

„Ég hefði viljað sjá háskólann koma með einhverjar lausnir, hvernig við getum spornað við þessu, hvað getum við gert gegn ólöglegri netspilun. Hvað eru margir sem missa tökin á lífi sínu út af þessu? Hversu margir eru nauðungarvistaðir á geðdeild vegna tilrauna til sjálfsvígs? Við köllum eftir því að menn hætti að tala um þetta sem einhvers konar bankainnistæður sem fólk er að leggja inn sem sparifé.“

Ekki missa af...