Alætan og ungfrúin sterka gerðu Íslendinga orðlausa

„Þegar ég var að skoða myndir á myndavef Ljósmyndasafnsins rakst ég á þessa mynd af kraftakonunni Joan Rhodes haldandi á einhverjum kalli með hatt. Skemmtanahaldið í Reykjavík var mjög lifandi á Fimmunni og hingað komu allskonar atriði og voru á sýningum til styktar Sjómannadagsráði, SÍBS, o.s.frv. Músík, sirkusar (oft með dýrum í massavís), strípimeyjar og kraftakonan Joan.“

Þetta skrifar tónlistarmaðurinn Gunnar Lárus Hjálmarsson, flestum kunnugur sem Dr. Gunni, á Facebook-síðu sína en þar rifjar hann upp tvo furðulega Íslandsvini sem komu til landsins árið 1954. Karlinn sem hún Rhodes tók í bóndabeygju var alætan Chaz Chase en sá sagði í viðtali við Vísi borða allt nema saltað svínkjöt. Þetta sagði hann á meðan hann hesthúsaði pappadisk sem Rhodes hafði rétt honum.

Dr. Gunni segir að þetta hafi ekki verið eina skiptið sem Rhodes hafi komið til Íslands. Fyrri heimsókn hefði verið afdrifarík. „Við lauslegt gúggl sést að hún átti farsælan feril. Lék í Pink Panther Strikes Again og Elephant Man (svo eitthvað sé nefnt), var náin vinkona Quintin Crisp og kom fram með Bob Hope.

Það var einmitt upp á Miðnesheiði á skemmtun fyrir hermennina að Joan var að jafnhenda Bob Hope að hæll brotnaði og Bob plompaði á hausinn. Hann mun hafa verið lengi að jafna sig. Næsta mál á dagskrá er að kynna mér þessa sterku konu enn betur og verða mér út um ævisöguna, Coming on Strong.“

Hann segist svo í athugasemd hafa fundið fyrrnefnda frétt Vísis. Þar greinir tíðindamaður Vísis frá því þegar hann var viðstaddur komu þeirra til landsins um borð Gullfaxa, millilandaflugvélar Flugfélags Íslands. Fréttamaðurinn var undrandi yfir þessu furðulega fólki og lýsti því svo:

„Fréttamaður Vísis var viðstaddur, er Gullfaxi lenti, og tók (af gömlum vana) eftir ljómandi laglegri, hárri, ljóðhæðri stúlku, sem gekk rösklega niður þrepin úr flugvélinni og inn í skýli F.Í. Þetta var Joan Rhodes. Á eftir henni trítlaði lágvaxinn, glaðklakkaralegur maður, meistari Chaz Chase, sem étur allt, sem hann getur tuggið.“

Hann hélt svo áfram:

„Tíðindamanni Vísis gafst færi á að rabba svolítið við gestina. Þeim ungfrú Rhodes og meistara Chase kom ágætlega saman í flugvélinni á leiðinni.

Hann gaf ungfrú Rhodes kjötið sitt, en þess i stað gaf ungfrú Rhodes honum pappadiskana, sem hann borðaði af beztu lyst, en Chase segist sjálfur borða hvað sem er, nema saltað svínakjöt og reykt.“

Ekki missa af...