Afmælisbarn dagsins – 5. janúar

Davíð Þór Jónsson, skáld, leikari, guðfræðingur og prestur, er fæddur á þessum degi árið 1965.

Það er ekki auðvelt að finna einstakling með jafn víða og breiða ferilskrá og Davíð. Eftir útskrift frá Flensborg árið 1985 byrjaði hann í ýmsum skemmtiþáttum á RÚV. Seinna fór hann víða í útvarpi, var á Bylgjunni, X-inu og Rás 1. Hann hefur verið með daglega spjallþætti um hvaðeina, eins og hann kallar það sjálfur, en einnig verið með fræðsluþætti.

Hann byrjaði einnig snemma að leika á sviði, fyrst með Leikfélagi Hafnarfjarðar. Hann skrifaði einnig leikrit og leikstýrði þeim snemma á ferlinum og byrjaði að þýða leikrit árið 1994, hans fyrsta þýðing var Hárið.

Ásamt Steini Ármanni Magnússyni var hann annar gríntvíeykisins Radíusbræður. Þeir léku sketsa bæði í útvarpi og sjónvarpi og nutu vinsælda.

Þessu öllu til viðbótar var Davíð spyrill í Gettu Betur spurningakeppninni frá 1996 til 1998 og sneri aftur sem spurningahöfundur og dómari árin 2007 og 2009. Hann skrifaði reglulega pistla af alls kyns tagi í hin og þessi dagblöð og var einnig ritstjóri tímaritsins Bleikt & Blátt frá 1997 til 2001. Hann hefur verið virkur hluti af þjóðmálaumræðunni í áratugi.

Hann útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2009 og gegndi á tímabili héraðsprests í Austurlandsprófastadæmi. Frá 2016 hefur hann verið sóknarprestur við Laugarneskirkju.

Ekki missa af...