AFMÆLISBARN DAGSINS – 15. desember

Katla Margrét Þorgeirsdóttir, leikkona, tónlistarkona og handritshöfundur, er fædd á þessum degi árið 1970. Katla Margrét hefur fyrir löngu síðan stimplað sig inn sem eina af fyndnustu konum landsins. Ferill hennar er farsæll og hefur hún komið við á öllum helstu sviðum.

Hún útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1997. Hún hefur lengi verið hluti af leikaraliði Borgarleikhússins og hefur komið fram í fjöldanum öllum af sýningum þar. Hún var meðal annars í söngleiknum Ellý sem sló rækilega í gegn árið 2017.

Sjónvarpsferill hennar er álíka glæstur. Sketsaþættirnir Stelpurnar hófu göngu sína árið 2005 og var Katla Margrét bæði í leikaraliði og handritshöfundateymi allar fimm seríurnar.

Aðrir sjónvarpsþættir sem Katla hefur leikið í eru Fangavaktin, Réttur og Ófærð. Hún hefur einnig leikið í nokkrum Áramótaskaupum og verið í handritshöfundateymum þeirra.

Síðast en ekki síst er það kvikmyndaferillinn, en hún var í myndum eins og Kaldaljós, Órói og Þrestir. Hún vakti mikla athygli fyrir hlutverk sitt í Agnes Joy árið 2019.

Hún spilaði einnig á hljómborð og söng bakraddir í framlagi Heimilistóna til Söngkeppninnar árið 2018. Lagið hét Kúst og fæjó og vakti mikla lukku, hljómsveitin er samansett af íslenskum leikkonum.

Katla Margrét verður í handritshöfundateymi næsta Áramótaskaups.

Ekki missa af...