Afhverju sameinast Píratar og Samfylking ekki?

Líklega er komið að því að Logi Einarsson bjóði Pírötum til sameiningaviðræðna á jafnréttisgrundvelli, engum hroka. Píratar hafa margt af því sem Samfylkingunni vantar. Og öfugt. Og það er ekkert í stefnu þessara flokka sem er ósamræmanlegt, flokksfólk gæti vel fallist á að taka upp það sem hinn flokkurinn hefur umfram. Samfylkingin er sterkari en Píratar á sveitarstjórnarstiginu svo líklega er lag fyrir Samfylkinguna einmitt núna, þegar hún getur boðið upp á samstarf frá sterkari stöðu. Ég sé enga ástæðu fyrir að flokkar með svo til sömu stefnu um lagfæringar á kapítalismanum séu að þroska með sér kúltúrmun í stað þess að vinna saman.

Vaxtarmöguleikar flokkanna beggja eru fyrst og fremst inn á svæði hins. Sameinaður flokkur með ca. 15% af nýju fólki sem ekki hefur tekið þátt í stjórnmálum áður ætti að geta stefnt á 20-25% fylgi á þingi og sterka stöðu í flestum stærri sveitarfélögum. Með sameiningu tæki þessi flokkur forystu á hinni svokölluðu frjálslyndu miðju og myndi skilja Viðreisn eftir sem enn meiri smáflokk. Margir stuðningsmenn Viðreisnar myndu velta fyrir sér hvort atkvæðinu væri ekki betur varið í að styðja sterkan miðjuflokk en lítið flokksbrot óánægðs Sjálfstæðisflokksfólks.

Samanlagt fylgi þessara flokka var í síðustu sveitastjórnarkosningum svona í þeim kjördæmum sem Píratar buðu fram í:

Reykjavík: 33,6%

Hafnarfjörður: 26,6%

Reykjanesbær: 26,5%

Kópavogur: 23,1%

Akureyri: 21,1%

Mosfellsbær: 17,4%

Það er í raun mun minni munur á stefnu og áferð Pírata og Samfylkingar en t.d. á Miðflokki og Framsókn, Miðflokki og Sjálfstæðisflokki eða VG og Sósíalistum.

Sameinaður flokkur gæti kallast Betra líf og ekkert kjaftæði, sem er sameiginleg yfirskrift kosningastefnu flokkana í kosningunum í haust. Skammstöfunin gæti verið BLEK

Sameinaður þingflokkur yrði svona: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.

Ekki missa af...