Ætlið þið að bera ábyrgð á þessu?

Það er algjörlega ljóst að ríkisbáknið heldur áfram að blása út eins og afmælisblaðra hjá ofdekruðu barni sem á ofurríka foreldra í forréttindastöðu. 

Að hugsa sér opinberum starfsmönnum hafi fjölgað um 9 þúsund frá árinu 2017 á sama tíma og starfsmönnum á hinum almenna vinnumarkaði hefur fækkað um 8 þúsund. 

Ekki bara að þeim hafi fjölgað um 9 þúsund eða sem nemur 2250 starfsmönnum ár hvert heldur eru meðallaun ríkisstarfsmanna tæp 1 milljón á mánuði eða sem nemur með launatengdum gjöldum og öðrum umframréttindum 1,5 milljón á mánuði.

Á sama tíma og þessi afmælisblaðra opinbera starfsmanna þenst út á kostnað íslenskra skattgreiðenda öskra stjórnvöld á verkalýðshreyfinguna sem semur um kaup og kjör lágtekjufólks á hinum almenna vinnumarkaði og krefst að verkalýðshreyfingin sýni ábyrgð í kröfum sínum til handa lágtekjufólki.

Öskra á lágtekjufólk hvort það ætli að ógna stöðugleikanum, stuðla að aukinni verðbólgu og hóta síðan ef þið semjið ekki með afar hófstilltum hætti að þá muni Seðlabankinn hækka vexti og vöruverð mun hækka.  Svo öskra þau eins og enginn sé morgundagurinn: 

„ÆTLIÐ ÞIÐ AÐ BERA ÁBYRGÐ Á ÞESSU“.

Á sama tíma og stjórnvöld og Seðlabankinn öskra á lágtekjufólkið fjölgar opinberum starfsmönnum eins og enginn sé morgundagurinn og launahækkanir eru langtum hærri og meiri en samið er um á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er mikilvægt að launafólk í gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum og starfsfólk á hinum almenna vinnumarkaði átti sig á því að þegar ríkisbáknið blæs stjórnlaust út þá kallar það á auknar tekjur handa ríkissjóði. 

Þessi aukna tekjuþörf ríkissjóðs mun þurfa að koma frá skattgreiðendum, neytendum og fyrirtækjum og það er mikilvægt að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði átti sig á því að þegar ríkisbáknið blæs svona stjórnlaust út þá kallar það á aukna skattheimtu.  Sem dæmi þá eru hjón á meðallaunum á hinum almenna vinnumarkaði að greiða upp undir 6 milljónir í skatt af sínum launum á ári og er það síðan fyrir utan alla aðra neysluskatta sem fólk greiðir.

Ríkisstjórn Íslands og sveitarfélögum vítt og breitt um landið þurfa að útskýra af hverju opinberum starfsmönnum hefur fjölgað um 9 þúsund og hvar var allt þetta starfsfólk ráðið og það á sama tíma og launafólk á hinum almenna vinnumarkaði hefur fækkað um 8 þúsund. 

Gríðarlega mikilvægt að allir átti sig á því að það eru gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar sem sjá um að skapa gjaldeyristekjur svo hægt sé að halda okkar grunnstoðum samfélagsins gangandi.  

Það er algjör lágmarkskrafa skattgreiðenda að gengið sé af virðingu um skattfé almennings og því sé ráðstafað þar sem þess er þörf og vissulega getur verið þörf fyrir að fjölga ríkisstarfsmönnum eins í löggæslu, mennta og heilbrigðiskerfinu.  Hins vegar óttast ég að það sé stjórnsýsla og efrilög ríkisbáknsins sem sé fyrst og fremst að þenjast út.

En þessi ríkisblaðra mun á endanum springa framan í andlitið á íslenskum skattgreiðendum ef ríkisbáknið fær að halda áfram að blása svona stjórnlaust út.

Höfundur er formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrrverandi varaforseti ASÍ

Ekki missa af...