Á þessum degi… 3. nóvember

Árið 1660…

Hófst Kötlugos og fylgdu því miklir jarðskjálftar og jökulhlaup. Gosið stóð fram á vetur. Einkennisgos Kötlu eru basalt sprengigos en samspil kviku og íss veldur því að gjóska myndast sem dreifist yfir nærliggjandi sveitir. Katla hefur líka gosið súrum sprengigosum en þau eru mun sjaldgæfari.

Kötlugos hafa að meðaltali orðið á 40 til 80 ára fresti og hafa 16 eldgos verið skráð í eldstöðinni frá því menn settust að á Íslandi en þau eru þó líkast til fleiri eða að minnsta kosti 20 talsins.

Síðast gaus Katla árið 1918 og því eru miklar líkur á gosi á næstu árum. Katla er ein frægasta eldstöð á Íslandi og alræmd fyrir hinar miklu hamfarir sem fylgja í kjölfar eldgosanna.


Árið 1961…

Opnaði skemmtistaðurinn og veitingahúsið Glaumbær í Reykjavík við hátíðlegar undirtektir. Á aðfaranótt 4. desember árið 1971 kom upp eldur í húsinu og um nóttina brann allt innanstokks á efri hæðinni. Meðal þess sem brann voru hljóðfæri hljómsveitarinnar Náttúru sem voru geymd þar vegna sýninga á Hárinu. Í fyrstu voru uppi hugmyndir um að endurreisa skemmtistaðinn en íbúar í nágrenninu söfnuðu þá undirskriftalista gegn honum.

Árið 1972 eignaðist Listasafn Íslands húsið og réðist í miklar endurbætur á því. Það flutti þangað inn árið 1987.


Árið 1978…

Hélt tónlistarmaðurinn Megas fræga tónleika í Menntaskólanum við Hamrahlíð undir heitinu Drög að sjálfsmorði.

Þegar hann ákvað að taka upp Drög að sjálfsmorði, sem átti að fylgja „konseptalbúmaelítunni“ á þeim tíma var ekki til nægt fjármagn til að taka hana upp í stúdíói og þess vegna var hún hljóðrituð á tvennum tónleikum, sem haldnir voru í MH 5.nóv 1978 við góðar undirtektir.

Hljóðfæraleikarar á plötunni fyrir utan Megas eru Björgvin Gíslason, Guðmundur Ingólfsson, Lárus Grímsson, Pálmi Gunnarsson og Sigurður Karlsson. Hljóðblöndun í sal annaðist Magnús Kjartansson.

Ekki missa af...