Á þessum degi… 23. nóvember

Árið 2004…

Fjölspilunarleikurinn World of Warcraft kom út. Leikurinn er gefinn út af tölvuleikjaframleiðandanum Blizzard og byggður á Warcraft seríunni. Eftir sautján ár í loftinu er leikurinn enn mjög vinsæll, samkvæmt bráðabirgðatölum voru 4,74 virkir spilarar nú í ár.

Átta aukasögupakkar hafa komið út fyrir leikinn, sá síðasti var Shadowlands árið 2020.

Leikurinn og Blizzard komust í heimsfréttirnar fyrr í ár þegar rannsókn leiddi í ljós mjög slæmt vinnuumhverfi í fyrirtækinu, sem hallaði aðallega á konur. Vegna þessa hefur ekki neitt nýtt efni verið kynnt.

Árið 1991…

Freddy Mercury gaf út tilkynningu þess efnis að hann hefði smitast af HIV veirunni og væri kominn með AIDS. Ýmsar kenningar höfðu verið á lofti um heilsu Mercury. Hann var hættur að koma fram opinberlega með Queen og var eftirtektarvert hvað hann hafði tapað mikilli þyngd.

Í yfirlýsingunni sagði hann: „Mér fannst það rétt ákvörðun að halda þessum upplýsingum leyndum til að vernda friðhelgi þeirra sem ég þekki best. Nú er tími til að vinir mínir og aðdáendur um allan heim viti sannleikann og ég vona að allir munu leggja hönd á plóg að berjast við þennan hrikalega sjúkdóm.“

Mercury lést daginn eftir að tilkynningin var gefin út.

Árið 1939…

Sjóorusta var háð suðaustur af Íslandi, ein sú fyrsta í seinni heimstyrjöld. Þar var kaupskipasjóhersskipinu HMS Rawalpindi sökkt af tveimur þýskum herskipum. Rawalpindi var talsvert minna vopnað en herskipin en skipstjórinn Edward Coverley Kennedy valdi að berjast þrátt fyrir það. „Við berjumst við þá báða, þeir munu sökkva okkur, og þannig verður það. Bless bless,“ er haft eftir Kennedy.

Mikið var fjallað um málið í íslenskum fjölmiðlum á þessum tíma. 286 voru um borð í skipinu og 48 var bjargað, ýmist af Þjóðverjunum eða af breskum kaupskipum.

Ekki missa af...