10 skrýtnustu íslensku Facebook hóparnir

Hvað ert þú í mörgum hópum á Fésbókinni á milli vinnu- og/eða námsverka? Hvað eru margir hópar utan um ættina? Hvað ætli við séum í mörgum hópum sem voru stofnaðir í kringum eitthvað partí fyrir átta árum og ekki notaðir síðan?

Hópaeiginleiki Facebook er einn af grunn gerðum miðilsins. Þeir nýtast í margt, bæði gagnlegt og gagnslaust. Íslendingar eru mjög duglegir að búa til hópa um allt og ekkert. Hópar eru af öllum stærðum og gerðum og fjalla um mis sértæk málefni. Hópurinn Bíófíklar fjallar um allt sem tengist kvikmyndum á meðan Metal fjallar um allt sem tengist þungarokkstónlist.

Svo eru hópar sem þú ert ekki alveg viss um hvað fjalla. Hér ætlum við að lista upp tíu íslenska hópa sem þykja skrýtnir af einni eða annarri ástæðu. Er alls herjar samsæri í gangi tengt íslensku karlmannsnafni? Er mikil fagurfræði í þakrennum? Þessir hópar eru allavega á því máli.

Gömul Íslensk Skip

Það er faglegt mat höfundar að hér sé um að ræða allra besta hópinn á Facebook. Hann er líka einn af þeim elstu, stofnaður 18. janúar 2009. Meðlimafjöldinn er ekkert slor, tæplega sautján þúsund skipaáhugafólk má finna þarna inni.

Litríkar umræður geta myndast undir ótrúlegustu skipum

„Tilgangur með þessum hóp er að safna upplýsingum og myndum af íslenskum skipum, bátum nýjum jafnt sem gömlum,“ stendur í lýsingunni. „einnig skipum og bátum sem skráð hafa verið erlendis en hafa tengingu við land og þjóð á einhvern hátt, sögu þeirra og afdrifum ásamt fleiru.“ Lýsingin er einnig á ensku fyrir erlent skipaáhugafólk.

Umræða hópsins nær á ótrúlegan hátt að haldast við bara þetta; gömul íslensk skip. Umræða á flestum öðrum stöðum, þá sérstaklega á samfélagsmiðlum, á mjög auðvelt með að þróast út í eitthvað allt annað en upphaflega átti að vera, sérstaklega ef um marga meðlimi er að ræða.

Hefðbundin færsla á hópnum er mynd af gömlu íslensku skipi með einhvers konar sögubút eða skemmtilegri staðreynd, en aðal aðdráttarafl hópsins er í athugasemdunum. Þar keppast menn og konur við að koma með leiðréttingar á staðreyndum eða auka upplýsingar um útgerðarstað eða háseta.

Á meðan fólk hnakkrífst um stjórnmál og mataræði þá eru yfirvegaðir vitringar skipahópsins að árétta að skipið Þorfinnur II var ekki frá Breiðdalsvík, heldur Patreksfirði.

Áhugafólk um þakrennur

Það að dást að mynstrum og formum hversdagslífsins er eitthvað sem við gerum öll á hverjum degi, án þess að hugsa um það. Við erum öll áhugafólk um fagurfræði þegar út í það er farið. Sumir eru aðeins meðvitaðri um það en aðrir. Enn aðrir eru með einstakan fagurfræðilegan áhuga á einhverju einu einstöku.

Þessi hópur er gott dæmi um það. Hann var stofnaður 11. september árið 2019 og hefur bara eina reglu. „Bara setja inn efni sem tengist þakrennum og engu öðru, annars kem ég heim til þín og rústa þakrennunni þinni!“ segir stjórnandi hópsins í efstu færslunni.

Án þess að vita neitt um málið þá er þetta frekar flott þakrenna.

Það má leiða líkur að því að hópurinn sé einungis til í einhverju gríni, en það er ekki endilega svo. Fólk deilir auðvitað kímnum færslum sem safna til sín hláturskallaviðbrögðum, en margir þarna inni nýta hópinn til að spyrja um aðstoð með sínar eigin þakrennur. Það vantar tæki og tól til að gera það. Hvar annars staðar á maður að leita nema hjá fólkinu sem veit mest um málið?

Enn aðrir deila myndum af raunverulega fallegum og snyrtilegum þakrennum. Einnig kunna meðlimir vel að meta hugsjónarsemi og verkvit. Það er ekkert sem heitir bara venuleg þakrenna.

Prepparar á Íslandi

Fyrir þau ykkar sem þekkja til hugtaksins preppers þá kann þessi hópur í fyrstu að vera smá uggandi. Samnefnt samfélag trúir því að heimsendir sé yfirvofandi. Við þurfum því að eiga nóg af mat sem endist lengi á öruggum stað, helst í neðanjarðarbyrgi.

Hópurinn prepparar á Íslandi er ekki svoleiðis. Eins og stendur í lýsingu; „Ég bjó til þessa síðu fyrir þá sem þurfa eða hafa áhuga á að eiga matarbúr eins og oft var í gamladaga gaman væri að skiptast á hugmyndum myndum og hvar er hægt að preppa á hagstæðu verði.“

Ýmsar hugmyndir að finna á hópnum

Hópurinn var stofnaður 18. mars 2020, stuttu eftir að heimsfaraldurinn COVID-19 var að setja heiminn á bak við lás og slá. Fólk í áhættuhópum vegna COVID neyddist því til að setja tíðar verslunarferðir á bið og treysta annað hvort á ættingja og vini eða á endingagóðann mat í búri, eins og í gamla daga.

Hópurinn er í raun samræðuvettvangur um sjálfbærni, endurnýtingu og ræktun. Stjórnandi hópsins setur reglulega inn uppfærslur af grænmetisræktun og hvernig hún hyggst nota efnivið úr verslunarferðum. Fólk deilir sín á milli góðum tilboðum á vörum og annars konar heilráðum.

Hér er engin heimsendavá – hér er bara heilbrigt samfélag áhugamanna um sjálfbærni. Bara smá skrýtinn titill, það er kannski það eina.

Iceland Carnivore Tribe- Kjötætur

Það er til hópur fyrir grænkera, þeirra sem neyta engra dýraafurða. Er það þá ekki skiljanlegt að það sé til hliðstæðuhópur, þeirra sem kjósa að neyta einungis kjöts og dýraafurða?

Hópurinn var stofnaður 19. nóvember 2017. Tæplega 3.800 manns eru þar inni og skiptast á ýmis konar færslum. Carnivore Tribe finnst gott að borða kjöt og enn betra að tala um það. Margir nýta tækifærið og selja skrokka á fínu verði til meðlima. Aðrir deila matardisknum sínum eða deila rannsóknum héðan og þaðan um ágæti þess að borða kjöt.

Ef lesendur eru í einhverjum vafa um tilgang og orðræðu hópsins þá þarf ekki annað en að lesa lýsinguna. „Þessi grúppa er ekki vettvangur til að ræða „nauðsyn“ þess að borða ávexti grænmeti korn eða hvað annað úr plönturíkinu.“ Þar höfum við það.

Umræðan er nokkuð einhliða, þær fáu færslur sem eru ekki um kjöt eða kjötát fá annað hvort engan hljómgrunn eða er svarað með háðslegum hreyfimyndum. Grænkerum er illa tekið í öllum tilfellum, eins og sést ef til vill best á þessari mynd.

Skilaboðin eru skýr.

Það eru til fleiri kjötætuhópar en þeir eru ekki nærri því jafn stórir og þessi. Facebook samfélagið er greinilega ekki nógu stórt fyrir mismunandi hópa kjötæta. Kannski sameinuðust allir hóparnir í þennan á einhverjum tímapunkti. Hver veit. Það er þó allavega á hreinu að þessi tiltekni hópur er skrýtinn. Þess vegna er hann á listanum.

Andstæðingar jarðhræringa á Suðurnesjum

Þegar jörðin sýnir okkur brot af tortímingargetu sinni eru góð ráð dýr. Það er vel þekkt að mannfólkið er nokkuð getulaust þegar kemur að stærðarinnar jarðhræringum. Þó eru sumir sem vilja meina að hin lýðræðislega aðferð dugi við hverju sem er – meira að segja gegn jarðfræðilegum ógnum.

Gosið í Fagradalsfjalli er búið að vera í gangi frá 19. mars í fyrra. Skiljanlega er Suðurnesjafólk búið að fá nóg af hræringum og truflunum sem fylgja gosinu. Rétt tæpu ári eftir gos, réttara sagt þann 2. mars árið 2021, stofnaði einn ósáttur Suðurnesjamaður hópinn og skrifaði „Grúppunni er ætlað að vera þrýstiafl á opinbera aðila að sporna við óafturkræfu raski á nætursvefni, sjónvarpsglápi og öðru innantómu hjómi á samfélagsmiðlum sem fær ekki hljómgrunn í þessu jarðraski.“

Á tíma voru tíðar uppfærslur um stöðu gossins á hópnum

Færslur hópsins voru ekki margar en fólk vildi samt mótmæla, enda næg ástæða til. Jarðskjálftar eru óþolandi og svo vildi Fagradalsfjall ekki ákveða hvort það væri að gjósa eða ekki. Og hvað með aðgerðaleysi stjórnvalda? Hvers vegna er ekki búið að kæra hræringarnar til lögreglu?

Hraunflæði fer minnkandi en skjálftavirkni er enn að finnast hér og hvar. Hópurinn fjaraði út í takt við gosið en þar má finna fullkomlega varðveittar minjar um borgaralega óhlýðni, fólk sem sá eitthvað rangt í samfélaginu og vildi breyta því. Það er fallegt, á sinn hátt, en líka smá skrýtið. Þess vegna er hópurinn á þessum lista.

Hallærisleg tónlist sem þú hlustar bara á í einrúmi (helst með skömm)

Það er óvíst hvað nákvæmlega gerðist þann 30. apríl árið 2020, daginn sem þessi hópur var stofnaður. Hlustaði einhver Íslendingur á slagara sem olli slíkri skömm að hann eða hún þurfti að loka sig af? Eða er um að ræða áhugamanneskju um hallærislega tónlist sem fann sig knúna til að finna fleiri af sinni tegund?

Þetta eru ekki spurningar sem við ætlum að svara hér. Lýsing hópsins er ekki flókin. Hún er í raun bara titillinn, hér á fólk að hópast saman og deila tónlist sem maður á ekki að hlusta á með öðrum. Er um að ræða sakbitna sælu (e. guilty pleasure) eða eitthvað annað?

Þetta þykir hallæri á hópnum.

Á meðal þeirra laga sem meðlimir deila á hópinn eru Rocket Man í flutningi William Shatner, Macarena eftir popp dúóið Los Del Rio og alheimssmellurinn Everytime We Touch með Cascada. Þetta eru með engu móti slæm lög, en stemmingin í kringum þau og saga hallæris verður til þess að fólk horfir ef til vill í kringum sig áður en það setur lagið í gang.

Snobb í kringum tónlist á auðvitað ekki að vera til. Að sama skapi þá á enginn að þurfa að læðast um niðurlútur því tónlistarsmekkur hans er hallærislegur. Staðan er þó þannig að fólk telur sig hafa smekk tónlistar sem ber að skammast sín fyrir. Það á heima í þessum hóp.

Föstudagsgátur Þorbjarnar

Langar þig í vikulegt heilabrot og harða samkeppni? Þá erum við með hópinn fyrir þig. Þorbjörn Rúnarsson, sérfræðingur hjá Félagi Framhaldsskólakennara stofnaði samfélagið þann 24. október árið 2020.

Í lýsingunni stendur „Hér er ætlunin að birta myndagátur á föstudögum. Höfundur hefur hingað til birt þær á eigin fréttaveitu en eðlilegra er að hafa þær í sér grúppu. Hún er galopin og hægt að bjóða hverjum sem er hingað inn.“ Hann tekur þó fram að þrátt fyrir að hópurinn heiti Föstudagsgáta þá áskilur hann sér rétt á að taka sér frí ef þörf krefur.

Getið þið leyst þessa?

Á þeim föstudögum sem Þorbjörn setur gátu keppast meðlimir við að leysa úr og senda honum lausn í einkaskilaboðum. Þorbjörn tilkynnir svo um sigurvegara í athugasemd og skrifar svo lausnina í annarri.

Hópurinn fór í sumarfrí í maí en hefur ekki verið virkur síðan þá. Það er von þrautaheila að Þorbjörn finni sér tíma til að setja inn nýjar áskoranir sem maður getur leyst og farið svo sáttur inn í helgina.

Gunnarar

Ert þú Gunnar? Finnst þér eitthvað vanta í lífið, Gunnarslega séð? Þá þarft þú að ganga í þennan hóp. Lýsingin er einföld; „Gunnars of the world, unite!“ Markmiðið er óljóst, fyrir utan sameininguna.

Síðan í mars 2015 hefur þessi hópur verið aðal vígi Gunnara um allan heim. Í dag eru þeir 877 talsins. Eitthvað eru þeir að bralla þarna inni sem við megum ekki vita. Höfundur bað um inngang í hópinn og því var svarað mjög pent.

Það er ekki verið að skafa af hlutunum hér.

Það vekur upp spurningar. Hvað eru Gunnarar að skipuleggja þarna inni og hvers vegna höfum við hin ekkert heyrt af því? Hvers vegna mega Gunnarar einungis vita af þessu? Sex og hálft ár af ráðabruggi hlýtur að hafa skilað einhverju af sér, stefnuskrá eða annars konar plani.

Brotabrot af þeim Gunnurum sem fjölmenna hópinn

Hvað sem Gunnarar eru að gera þarna inni, þá er það skrýtið. Þess vegna eru þeir á þessum lista.

Dósaflipar ganga aftur

Þessi hópur er ekki endilega í eðli sínu skrýtinn, þó málefnið sem hér er rætt sé smá skrýtið. Það er aðallega skrýtið að þetta sé ekki betur þekkt en raun ber vitni. Í þessum hópi, sem stofnaður var 30. september 2020, ræður fólk endurvinnslu á dósaflipum. Meðlimafjöldi er í kringum 1500 manns.

Við erum vön því að skila okkar dósum beint á endurvinnslustöð, en eru fliparnir eitthvað sem geyma má sér?

Drasl eða gersemi?

„Á öllum drykkjadósum eru litlir flipar. Þessir litlu gaurar eru gerðir úr sterkri málmblöndu og þá er hægt að nota í málmbræðslu,“ stendur í lýsingu hópsins. „Í Danmörku hefur í nokkur ár verið safnað fyrir stoðtækjum handa fólki sem misst hefur útlimi. Verkefnið er fjármagnað með skilagjaldi af flipum sem safnast hafa í „Dósaflipaverkefninu“ (Project Dåseringe, sjá hlekk hér að neðan). Vert er að nefna að þó flipinn sé tekinn af dósinni fæst samt fullt skilagjald fyrir hana!“

Verkefnið er áhugavert og skrýtið að það þekkist ekki betur. Ef þið hafið áhuga getið þið gengið í hópinn og tekið þátt í þessu góða – en þó skrýtna – verkefni.

Kúrufélagagrúbban

Síðast en ekki síst verður að nefna einn frægasta Facebook hóp Íslandssögunnar. Hann var stofnaður 28. júlí árið 2014 og það verður að teljast erfitt að finna Íslending sem ekki hefur heyrt getið til hans. Í dag eru rétt tæplega tíu þúsund meðlimir í hópnum og hann er enn nokkuð virkur. Það er átján ára aldurstarkmark og við inngöngu þurfa meðlimir að segja til um fæðingarár og hverju er leitast eftir í hópnum.

Tilgangur hópsins er „fyrir þá sem vilja kúr,samband,spjall,deit eða bara vini.“ Fólk spyr um spjall eða hitting og biður oft um eitthvað sértækt, eins og hitt kynið á svipuðum aldri. Annars deilir fólk skemmtilegum myndum sín á milli eða opna á spjall við hvern sem er.

Spurningar um kúr eiga heima í þessum hópi.

Það vekur smá ugg að sjöunda regla hópsins er „Þetta er EKKI sölusíða!!! Hvorki á vörum né fólki!“ Eflaust hafa meðlimir reynt að nýta síðuna í eitthvað slíkt og ekki verið tekið vel í.

Hópurinn er eingöngu fyrir félagsskap að sögn stjórnenda og það er greinilega vel haldið utan um hann.

Hver leynist undir brúnni?

Hver leynist undir brúnni?

Engar hryllingssögur

Birtu bara bréfin Drífa

Lífið í miðjunni

Ekki missa af...