10 ómissandi bíómyndir í hrekkjavökustíl

Það styttist óðum í hrekkjavöku, sem er enn tiltölulega nýlegt fyrirbæri í íslenskri menningu en allir landsmenn hafa upplifað sinn skerf með aðstoð dægurmenningar.

En hvað er það sem kemur okkur í hrekkjavökugírinn? Er það búningafjör, graskersskreytingar, beinagrindur og almennur drungi eða býr eitthvað meira þarna að baki? – eða bara partýin?

Þá er gráupplagt að dusta aðeins rykið af spóluhillunni og skoða tíu kvikmyndir sem eru líklegar til að koma fólki í sannan hrekkjavökugír, með einum eða öðrum hætti.

Beetlejuice (1988)

Hin ómótstæðilega og kexruglaða kómedía frá Tim Burton er gjörsamlega ódauðleg á þessum tíma árs. Hún tengist hrekkjavökunni ekki beint en það er erfitt að segja að þemað passi ekki við. Um er að ræða frábæra blöndu af gamaldags hryllingi og gegnsýrðum húmor þar sem leikmyndir, búningar og ekki síst eiturhressir taktar leikarans Michaels Keaton njóta sín til botns. Í kaupbæti má fá mikinn innblástur af flottum búningum.


The Guest (2014)

Dularfullur hermaður kemur til fjölskyldu og kynnir sig sem vin sonar þeirra sem dó í bardaga. Fjölskyldan býður manninum inn en þá fara að eiga sér stað forvitnileg dauðsföll. Fleira þarf ekki að vita um kvikmyndina The Guest, sem því miður óvenju fáir hafa séð en hægt er að lofa eftirminnilegu hrekkjavökupartíi og óútreiknanlegri atburðarás. Tónlist myndarinnar er einnig þrumugóð og Downton Abbey-leikarinn Dan Stevens er í banastuði allan tímann. Þessari skaltu gefa séns.


Trick r Treat (2007)


Eins og það þykir nú sjálfsagt á hverju ári að smella Die Hard í tækið fyrir jólin er svipað hægt að segja um þessa litlu hrekkjavökuperlu. Trick r Treat er brakandi fersk smásögumynd sem kemur sér beint að kjarna hrekkjavökutímans; hún er prakkaraleg, drungaleg og leynir á sér. Sögur myndarinnar tengjast lauslega en aðalnammið felst í skemmtilegum stíl, hressilegri nálgun og líflegu afþreyingargildi. Þessar 80 mínútur þjóta hjá eins og ekkert sé.


Mean Girls (2004)

Er Mean Girls hin nýja Clueless? Þetta er spurning sem bregður oft fyrir, en hvað hrekkjavökutímann varðar er svarið játandi. Myndin er löngu komin á þann stað þar sem endalaust má vitna í persónurnar og atriði sem sýna hvað unglingakómedíur geta gert þegar þær eru upp á sitt besta. Skemmtilegur leikhópur, stórfínt handrit og húmor sem gengur upp með ófáum sannleikskornum. Kjarni málsins er hvort áhorfendur tengi sig meira við Lindsay Lohan eða hinar stelpurnar þegar kemur að búningavali fyrir þennan tíma árs.


ParaNorman (2012)

Leirbrúðumyndir eru stórlega vanmetið listform. Í því samhengi slysast eflaust margir áhorfendur til þess að setja The Nightmare Before Christmas í tækið á hrekkjavökunni en fagleg ráð segja að best sé að geyma hana til jóla. Sem gilt gagntilboð er kjörið að vísa í teiknimyndina ParaNorman frá 2012, þar sem uppvakningafílingur og fullorðinsleg þemu skila sér í frábærum pakka. Myndin er úr smiðju þeirra sem gerðu til dæmis Coraline og Kubo and the Two Strings og er nauðsynlegt að gefa ParaNorman séns á áhorfslistanum. Nú er akkúrat besti tíminn.


Hotel Transylvania (2012)

Stundum – og aðeins stundum – getur grínistinn Adam Sandler verið hörkufínn. Teiknimyndaformið virðist þó henta honum vel og má margt góðgæti finna í Hotel Transylvania, en þar leikur hann Drakúla í tilvistarkreppu yfir tilhugsuninni um að einkadóttir hans verði ekki ung stúlka að eilífu. Myndin er hið undarlegasta samstarfsverkefni Sandler og rússneska leikstjórans Genndys Tartakovsky (sem færði okkur meðal annars þættina Samurai Jack og Dexter’s Lab) og býr lokavaran yfir mikilli sál og sjónrænni dýnamík. Börnin þurfa vissulega sitt léttmeti líka en hinir fullorðnu gætu slysast til að hafa gaman af þessu líka.


Idle Hands (1999)

Grín og hrollur er samanlagt eitt af einkennismerkjum hrekkjavöku og fyrir fólk sem er í stuði fyrir eitthvað yfirdrifið og snarruglað, þá hentar sótsvarta gamanmyndin Idle Hands nokkuð vel. Myndin segir frá iðjuleysingja sem vaknar að morgni hrekkjavökunnar og uppgötvar að hægri hönd hans er komin með sjálfstæðan vilja og þyrstir í blóð. Framvindan stendur svo sannarlega undir því sem grunnhugmyndin lofar og má vel skemmta sér yfir subbuskapnum, þótt hann sé vissulega ekki allra. En það er nú að koma hrekkjavaka.


The Addams Family (1991)

Í gegnum aldirnar hefur gengið misvel að flytja Addams-fjölskylduna stórfrægu á hvíta tjaldið, en segjast verður að kvikmyndir Barrys Sonnenfeld hafi hitt rakleiðis í mark, báðar tvær.* Leikhópurinn er ekkert annað en meiriháttar og sótsvartur húmorinn skilar sér með prýði. Fyrri myndin er þó meira í stíl við hrekkjavöku en sú seinni, af gildri ástæðu, en heilt yfir er erfitt að gægjast á þessa furðufjölskyldu án þess að smella fingrum með.

*Horfið samt (líka) á Addams Family Values. Hún er betri.


Halloween (1978)

Guðfaðir hrekkjavökumynda, eins og sagt er. Upprunalega Halloween frá John Carpenter er mikill hornsteinn í kvikmyndasögu og dægurmenningu og enn þann dag í dag birtist Michael Myers, einn frægasti morðingi kvikmyndanna, með reglulegu millibili. Upphaflega hófst þetta sem lítil og hræódýr mynd um skelfingu á hrekkjavökunótt og í gegnum áratugina hafa framhaldsmyndir og jafnvel endurgerðir komið á færibandi, en sú upprunalega hefur enn ekki verið toppuð. Ef hún skyldi hafa farið fram hjá þér, er löngu tímabært að kanna hvers vegna.


Hellraiser (1987)

Hryllingssögukóngurinn Clive Barker er ekki maður sem vert er að abbast upp á. Kvikmyndin Hellraiser, sem byggð er á sögunni The Hellbound Heart, er sígilt dæmi um hversu mikið má matreiða upp úr litlu. Sagan er mátulega brengluð, andrúmsloftið er bæði óþægilegt og spennandi en ofar öllu er myndin einfaldlega bara fjári skemmtileg afþreying sem nauðsynlegt er að kynna sér á ný með reglulegu millibili. Áhorfið skilur ýmislegt eftir sig og er aldrei leiðinlegt að sýna nýgræðingum þá drungalegu veislu sem hér er boðið upp á.

Ekki missa af...