10 íslensk hlaðvörp um kvikmyndir

Það hefur eflaust ekki farið framhjá landsmönnum hvað hlaðvörp (e. podcast) hafa notið mikilla vinsælda síðustu árin. Úrval íslenskra hlaðvarpsþátta hefur aldrei verið betra og stefnir allt í að formið sé komið til að taka yfir útvarp, í það minnsta hjá ákveðinni kynslóð.

Á þessu ári hefur framboð á kvikmyndatengdum hlaðvarpsþáttum verið í mikilli uppsveiflu. Þá þýðir fátt annað en að skoða það sem er í boði á þessum mikla markaði, en hér eru 10 íslensk hlaðvörp um kvikmyndir og tilheyrandi.


180° reglan

Hlaðvarp um kvikmyndagerð í umsjón Freyju Kristinsdóttur. Í þættinum ræðir Freyja við fólk sem starfar á ólíkum vettvangi í kvikmyndageiranum á Íslandi.


Bíóblaður

Bíóblaður snýst um að spjalla um bíómyndir á léttum nótum og fá fólk til þess að kunna betur að meta þetta skemmtilega listform sem bíómyndir eru. Hafsteinn Sæmundsson stýrir þættinum og tekur reglulega á móti streymi af fjölbreyttum gestum.


BÍÓ á MBL

Þátturinn er í um­sjón tveggja blaðamanna Morg­un­blaðsins, Helga Snæs Sig­urðsson­ar og Þórodds Bjarna­son­ar. Í hverri viku er fjallað um kvik­mynd­ir, einkum þær sem eru í bíó hverju sinni, og ým­is­legt viðkom­andi list­grein­inni. Verður jafn­vel farið út fyr­ir ramm­ann og talað um sjón­varpsþætti ef til­efni þykir til. 


Bíó Tvíó

Bíó Tvíó er skemmtilegt, vikulegt hlaðvarp um íslenskar kvikmyndir. Andrea Björk og Steindór Grétar hafa lagt upp með að horfa á hverja einustu íslensku kvikmynd og ræða um þær af töluverðri ástríðu. Hlaðvarpið var síðast á dagskrá RÚV núll og þar áður á Alvarpinu. 


Búnir með poppið

Hlaðvarp um kvikmyndir þar sem þáttastjórnendur fara saman í bíó og spjalla oft saman eftir myndina. 


Engar stjörnur

Engar stjörnur er sveit kvikmyndarýna innan háskólans í umsjá Björns Þórs Vilhjálmssonar og Kjartans Más Ómarssonar. Hópurinn rýnir í kvikmyndir með beittum og gagnrýnum hætti og birtir skrif sín rafrænt bæði á vef kvikmyndafræðinnar og Hugrás: Vefriti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands.


Poppkúltúr

Poppkúltúr fer yfir víðan völl, mætti segja í hnotskurn, en í Þætti hverjum eru stóru málin rædd úr heimi sjónrænnar poppmenningar; þátta, kvikmynda og skemmtibransans eins og hann leggur sig. Umsjónarmenn eru Sigurjón Hilmarsson og Tómas Valgeirsson.


Popp og kók

Popp og kók er hlaðvarp RIFF, alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Þáttastjórnendur spjalla við þjóðþekkta einstaklinga, kvikmyndaáhugafólk og ýmsa skemmtilega viðmælendur um kvikmyndir.


Stjörnubíó

Heiðar Sumarliðason tekur reglulega á móti gestum af ýmsum toga; gagnrýnendur, kvikmyndagerðarfólk og alla sem þar sitja á milli. Til umræðu er það nýjasta og helsta í kvikmyndahúsum eða á streymisveitum.


Vídeóleigan

Kvikmyndahlaðvarp þar sem æskuvinirnir Atli Steinn og Atli Þór rannsaka sígilda eða splunkunýja kvikmynd og skoða hana frá öllum mögulegum vinklum.

Ekki missa af...